Allir vilja verða hamingjusamir. Hamingjan er reyndar fyrirbæri sem erfitt er að skilgreina, því hver og einn hefur sína skoðun á því hvað hamingja sé. Þó er hægt að vera nokkuð viss um það, að allir sem ganga í hjónaband gera það í þeirri trú og von að hamingjan sé þeirra. Hver og einn bindur miklar vonir við hjónabandið. Og þegar allt gengur upp þá rætast margir af draumunum sem tengdust ástinni er leiddi makana í hjónaband. Því auðvitað er það ástin sem ræður ferðinni þegar par ákveður að gifta sig.
Af því að það er ástin sem ræður ferðinni, verða vonbrigðin mikil ef svo fer að draumarnir um hamingjuna rætast ekki í hjónabandinu. Stundum er það reyndar þannig að væntingarnar og draumarnir sem makarnir koma með inn í hjónabandið eru mismunandi og þess vegna koma upp árekstrar strax frá fyrstu stundu. Einhverjir halda ef til vill að makinn einn og sér framkalli hamingjuna og þegar í ljós kemur að hjónaband er eitthvað sem báðir aðilar þurfa að vinna að til þess að það blessist, þá eru margir sem guggna og gefast upp. Ég gleymi aldrei náunganum sem ég ræddi eitt sinn við um þessi mál. Hann vildi skilja við konuna sína af því að konunni datt aldrei neitt skemmtilegt í hug og honum fannst sambandið hundleiðinlegt. Sjálfum datt honum náttúrulega aldrei neitt í hug, ekki einu sinni að hann gæti nú e.t.v. líka gert eitthvað til að lífga upp á tilveruna. Hjónaband er samvinna, samvinnufyrirtæki gætum við kallað það, þar sem báðir aðilar verða að leggja sitt að mörkum ef dæmið á að ganga upp. Það geta síðan verið ýmsar ástæður fyrir því að dæmið gangi ekki upp. Mörg hjónabönd lenda í gildru vanans, hjón fjarlægjast hvort annað, nota hvort annað sem ruslafötur fyrir þreytu og vonbrigði, deila um allt milli himins og jarðar eða byggja þagnarmúra í kringum hvort annað og heyja orustur í hjónarúminu með kynlífið að vopni.
Sjá einnig: 20 vísbendingar um að þú hafir fundið réttu ástina
En er þá ekkert til ráða ef erfiðleikarnir taka að hrannast upp í hjónabandinu? Nú er það auðvitað svo að öll hjónabönd lenda einhverntíman í erfiðleikum. En ef sambandið er traust geta erfiðleikarnir orðið til þess að styrkja sambandið og gera það betra en áður var. Hjónin verða þannig reynslunni ríkari. Mörgum tekst að vinna úr tímabundnum erfiðleikum og deilum án utanaðkomandi aðstoðar. En allt of mörg pör sem þyrftu á aðstoða að halda, leita sér ekki hjálpar fyrr en í óefni er komið. Mörgum finnst það einhver aumingjaskapur að þurfa á ráðgjöf að halda. Þetta þykir mér alltaf skrítið viðhorf, því ef fólk t.d. veikist alvarlega eða lendir í slysi er talið sjálfsagt að leita sér læknis og taka þau meðul sem læknirinn mælir fyrir um. Ef aftur á móti hjónabandið „veikist alvarlega” þá er eins og mörgum þyki það einhver skömm að leita sér lækningar. Staðreyndin er aftur á móti sú að oft er nauðsynlegt að fá aðstoð utanaðkomandi aðila til að ræða málin. Hjón geta verið svo föst í eigin deilum að þau sjá ekki útgönguleið og lausn sem þriðji aðili getur bent á.
Hvert er þá að leita þegar kreppir að í hjónabandinu? Þar er hægt að benda á margar leiðir. Í öllum söfnuðum landsins eru starfandi prestar sem margir hverjir hafa mikla reynslu af fjölskyldumálum. Þeir bjóða upp á samtöl við hjón, veita ráð og vísa á aðra stuðningsaðila ef þörf er á. Í mörgum sveitarfélögum er einnig starfandi fjölskylduþjónusta þar sem félagsfræðingar og sálfræðingar leiðbeina hjónum. Sérfræðingar í fjölskylduráðgjöf bjóða líka upp á stuðningsviðtöl og fjölskyldumeðferð og hið sama gildir um fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Og svona mætti lengi telja. Ef hjónabandi ykkar er í kreppu, þá skulið þið vera ófeimin að leita ykkur aðstoðar fyrr en seinna. Það er enginn aumingjaskapur, heldur þvert á móti sýnir það kjark að vilja berjast fyrir fjölskyldu sinni, hjónabandi og hamingju. Þetta er nefnilega ykkar hjónaband, ykkar hamingja og enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.