Hreyfing á nýju ári

Desember er mikill neyslumánuður. Ekki aðeins í formi jólagjafa og tilheyrandi heldur einnig og ekki síður í formi matar og drykkjar. Flestir gera vel við sig í bæði mat og drykk á aðventunni. Í boði eru jólahlaðborð og jólaboð af ýmsu tagi, fjölskyldan kemur saman, vinir og ættingjar hittast, kökur eru bakaðar sem aldrei fyrr, konfekt útbúið og margt fleira. Í rauninni er desember ein allsherjar matarveisla sem nær hámarki um jól og áramót. En þrátt fyrir mikið annríki og stöðugan þeyting um borg og bí gefa flestir sér of lítinn tíma fyrir nægilega hreyfingu í mesta jólaundirbúningnum. Því er ljóst að nú hafa býsna margir, ekki allir, bætt á sig nokkrum óæskilegum aukakílóum á síðustu vikum.

Sjá einnig: 5 leiðir til þess að fá flottari rass

En nú er yndisleg hátíðin að baki, margir hafa náð að hvíla sig vel og eru á ný tilbúnir að takast á við nýtt ár og ný markmið. Nú er tími til að setjast niður og setja sér skrifleg markmið um að bæta heilsuna og setja hreyfingu í forgang.

Hér eru nokkur góð ráð á nýju ári:

Skriflegt æfingaplan

Sestu niður og útbúðu þitt persónulega æfingaplan. Skrifaðu niður hvers konar þjálfun þú hyggst stunda hvern dag vikunnar og á hvaða tíma. Þú getur t.d. ákveðið að fara í leikfimi á mánudögum, út að ganga á þriðjudögum, í tækjasal á miðvikudögum, þar sem þú lyftir lóðum og svo framvegis.

Hafðu það gaman

Veldu þér þjálfun sem þér þykir skemmtileg og finndu þér gjarnan æfingafélaga. Það er marg sannað að þeir sem æfa með félaga stunda æfingarnar betur og hafa meira gaman af en þeir sem æfa einir og út af fyrir sig.

30 mín á dag er nóg

Settu þér það markmið að hreyfa þig helst sex daga vikunnar og ekki sjaldnar en fjórum sinnum. Ef þú æfir sex sinnum í viku er nóg að hreyfingin vari í um 30 mínútur. Og sannaðu til: Þessar 30 mínútur líða eins og örskotsstund!

Fylgdu því fast eftir

Þegar þú hefur sett þér raunhæft æfingaplan á blað og ákveðið hvenær þú ætlar að byrja skaltu gæta þess vel að fylgja planinu þínu eftir og standa við það. Ef þú gerir það ekki er hætta á að það flosni upp og hrynji. Eftir stendur sjálfsóánægja. Að gera raunhæfa áætlun um hreyfingu og fylgja henni eftir er því grundvallaratriði við árangur.

Hreinsaðu burt sætindin

Taktu til í eldhússkápunum og ísskápnum eftir hátíðarnar. Það vill oft verða þannig að ýmislegt verður afgangs í skápunum eftir jólin, s.s. konfekt, smákökur, ís í frystinum og fleira fitandi góðgæti. Best er að grípa góðan plastpoka og láta allt fjúka í hann sem ekki er æskilegt að lendi á maga þínum og mjöðmum. Farðu svo með pokann beint út í ruslatunnu. Hugsaðu sem svo; nú er komið nýtt ár með nýjum markmiðum… tilvist sætinda í hirslum heimilisins henta ekki lengur, svo út með þau! Ekki hafa freistingar inni á heimilinu sem þú veist að þú fellur fyrir fyrr en síðar.

Skipuleggðu mataræðið

Gerðu áætlun yfir létt og hollt mataræði og gerðu innkaupalista í samræmi við þá áætlun. Útbúðu matarlista fyrir komandi viku og keyptu inn fyrir þá viku í einni innkaupaferð. Þannig getur þú komið í veg fyrir skyndiinnkaup sem gjarnan leiða til kaupa á óskynsömum nótum.

Þitt er valið!

Þú átt aðeins þennan eina líkama og heilsa þín er dýrmæt. Gerðu þér grein fyrir mikilvægi þess að fara vel með líkamann, hreyfa hann reglulega og vanda valið á þeirri næringu sem þú veitir honum. Það er mikilvægt að þú bregðist við áður en það er of seint. Þitt er valið…. veldu skynsamlega!

höf: Ágústa Johnson, framkv. stj. Hreyfingar.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE