„Hugurinn fer á eigin spýtur að undirbúa sjálfsvígstilraunir“ einlæg frásögn ungs manns

0

Eddi Gíslason sem er 31 árs gamall skrifaði eftirfarandi status á facebookvegg sinn í gærkvöldi sem að hann hefur góðfúslega gefið hun leyfi til að birta. Í honum opnar hann sig með sjúkdóm sinn sem hann hefur barist við í mörg ár, hvaða áhrif sjúkdómurinn hefur haft á hann og fólk í kringum hann og greiningu sem að hann fékk loksins í fyrra.
Við á hun óskum Edda alls hins besta í framtíðinni.

1624721_588949367840680_1845674501_n

Mig langar að segja ykkur frá:
Ég hef barist við sjúkdóm í mörg ár. Ég hef verið með mikinn kvíða, ofsakvíðaköst, tvípóla hegðun og fleira þegar ég var yngri. Sú greining kom við 20 ára aldurinn en ég var ekki rétt greindur. Í raun var ég með “Persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum” (Borderline Personality Disorder). Ég var greindur með þá röskun núna í fyrra.

Sú röskun stafar af atburðum sem eiga sér stað hjá einstaklingum í æsku sem aldrei var unnið rétt með. T.d. eins og missi foreldris, hunsun og/eða vanræksla eða fleira og annað alvarlegt. En gen spila líka eitthvað með þetta hjá fólki.

Í gegnum árin hef ég stöðugt ýtt fólki frá mér og komið mismunandi fram við fólk í kringum mig. Fáir hafa skilið (og síst ég sjálfur) mig og af hverju ég hef hagað mér svona. Í kjölfar allrar minnar sálarkvalar í gegnum árin hef ég reynt allmargar mjög alvarlegar sjálfsvígstilraunir. Sumar af þeim hafa skilað mér inn á geðdeild þar sem ég átti til að ljúga mig bara út og “feika” að vera orðin betri. En sannleikurinn er sá að frá 12 ára aldri hef ég virkilega þjáðst sálar og líkamskvölum á næstum hverjum degi. Maður verður bara stundum góður í að fela það.

Sú alvarlegasta af öllum sjálfsvígstilraununum kom í desember árið 2012 eftir að ég og maki minn höfðum flutt inn á móður hennar og pabba í smávegis tíma. Þá fór ég á geðdeild í 2 vikur og fékk loksins rétta greiningu. Ástæðan fyrir þeirri tilraun var sú að maki minn sem ég dái og dýrka vildi enda sambandið. En við náðum aftur saman og hófum að búa aftur saman. Við tók betri tími en annar botn náðist þegar ég drakk áfengi í eitt skipti. Þá var um hálft ár liðið frá útskrift af geðdeild og ég missti vinnuna. En þá gerðist eitt frábært, ég fékk pláss á deild Landspítalans sem heitirHvíta Bandið. Ég hafði verið á biðlista þar alveg frá því í desember og komst loks inn í undirbúningshóp 3svar í viku.

Þar vinnur faglegt fólk að því að hjálpa og greina fólk eins og mig. Þar var unnið nánar með greininguna mína og ég greindur til fullnustu. Við tók 3-4 mánaða prógram þar sem ég mætti alla daga fyrir hádegi og 1 sálfræðitími var á viku (allt frítt). Ég stóð mig mjög vel í þessu prógrammi og var hrósað oft fyrir frammistöðuna. Ég útskrifaðist í byrjun desember 2013 með öll vopn í hendi, nýr og breyttur maður og enn að vinna í sjálfum mér eins og á að gera. Lífið hafði skyndilega tilgang og allt leit svo vel út. Einnig var ég settur í hóp sem byrjaði í janúar 2014 fyrir fólk með persónuleikaröskun. Og sá hópur hittist í 26 vikur (c.a.) einu sinni í viku og því fylgir líka 1 tími hjá sálfræðingi í hálft ár (er enn í því núna).

En þá kom lokasprengjan að ég fór frá maka mínum og við slitum sambandinu. Ég vildi þó laga þetta en síðan kom í ljós að hún vildi það ekki. Tilfinningar hjá mér en ekki hjá henni. Við það kom upp önnur sjálfsvígstilraun (örugglega sú nr 7 eða 8) sem þó endaði ekki á geðdeild en endaði á spítalavist og mikillri eftirfylgni frá fólkinu á Hvíta bandinu. 

Ég ætla ekki að fara nánar út í ástæður sambandsslitana því þær eru svo skrýtnar að fólk skilur það ekki. En það veldur mér kvölum.

Ég hef verið á hinum ýmsu lyfjum í gegnum tíman og hef verið næstum kvíðalaus frá útskrift á Hvíta Bandinu nema þegar ég kom hingað til Danmerkur þá kom gamli kvíðavinur minn aftur í hámark. Í dag hef ég bara verið á lyfjum við kvíða (eins og margir) og þau virka vel ásamt þeim æfingum sem ég beiti dags-daglega. Auðvitað eru dagarnir misgóðir en ég hef lært að ráða við þá slæmu á virkilega góðan og farsælan hátt hingað til.

En við þetta ætla ég að bæta að þrátt fyrir meðferðina á Hvíta bandinu og frábæran stuðning frá móður minni og pabba, að taka mig aftur inn heim til sín þegar ég í raun bjó á götunni, þá hrakar mér enn reglulega. Ég ræð við dagana og sinni mínum skyldum sem faðir og líka öðrum verkefnum mjög vel, en það er eilífur barningur við sjálfan mig á meðan. Hausinn á mér bara virkar ekki, ég er að sökkva dýpra og dýpra síðan í desember og er í dag á mjög slæmum stað andlega.

Það er eins og líkaminn minn sé að slökkva á sér, ég finn að ég er byrjaður að fá vefjagigt og það er t.d. vont að skrifa þetta allt á lyklaborðið og ég er frosinn lengi á morgnanna í líkamanum. Hugurinn sekkur smátt og smátt í óraunhæfar hugsanir og að halda sér “eðlilegum” og virkum er að verða enn erfiðara á hverjum degi.

Það er nefninlega þannig að hugurinn er eins og apaköttur sem flögrar um og erfitt er að halda hugsunum í skefjum. Minn virkar þannig að í mikilli vanlíðan fer hann að hugsa sjálfstætt og þá virkilega neikvætt. Hann fer á eigin spýtur að undirbúa sjálfsvígstilraunir og þá þarf að beita öllum ráðum til að stöðva hann. Streituþol virkar ágætlega stundum og líka að dreifa huganum. En þrátt fyrir þetta finnur hann alltaf leið til að skipuleggja og plotta á móti mér. Í algjörri hreinsskilni hefur hann t.d. núna skipulagt 2 slíkar, um daginn stóð ég frammi fyrir 1 slíkri tilraun sem ég náði þó að stöðva með réttum aðferðum en hin stendur eftir. Þessar tilraunir sem ég tala um eru alvarlegar en svo má við bæta líka að margar aðrar krauma undir. Það er bara stundum ekki hægt að stöðva þetta og þegar ég hef fylgt þeim eftir hefur það alltaf verið í gífurlegu jafnvægi þegar að tilrauninni sjálfri kemur en í ójafnvægi á undan.

Margir hugsa eflaust, af hverju er hann að segja frá svona hlutum??? Ástæðan er skýr: Í fyrsta lagi til að útskýra fyrir fólki af hverju ég hef verið eins og ég er í gegnum árin. En í öðru lagi til að fólk skilji og vonandi nái að læra af þessu. Að ég verði víti til varnaðar fyrir aðra. Ég er með sjúkdóm sem má líkja við heilabrot. Alveg eins og krabbamein er sjúkdómur og fleiri þá er minn nákvæmlega eins. Hann dregur um/yfir 30% af þeim sem hann hafa til dauða og er það þá nær eingöngu af sjálfs síns hendi. En góðu hlutirnir eru þó þeir að oft eldist þetta af fólki þegar það kemur yfir 30 ára aldurinn. En eins og ég sagði stafar þetta af atburðum sem urðu í æsku, þegar við vorum yngri.

Ég vona að næstu dagar verði betri hjá mér og við tekur “upp” tímabil. En það er aldrei að vita.

Ég hef þennan status opinn öllum og fólki er velkomið að spyrja mig og kommenta á þetta. Ég mun fylgja þessum póst eftir. Einnig er fólki velkomið að deila “share” þessum pósti ef það vill. Ég vona að þetta hafi útskýrt e-h og mögulega hjálpað einhverjum. Minn bardagi heldur áfram, erfiður eins og hann er á hverjum degi þá mun ég berjast og halda áfram að gera mitt besta.

Takk fyrir lesninguna.
Eðvarð Þór Gíslason. 

SHARE