Meðan ég var ólétt þá fylgdist ég vel með í hverru viku hvað var að gerast að hverju sinni hjá fóstrinu/barninu.
Það eru bæði til góðar heimildamyndir en ég skoðaði vikulega Ljósmóðir.is.
Það er stuttur og hnitmiðaður texti um hverja viku fyrir sig.
12. Vika
Það er oft um þetta leyti sem konur fara í fyrstu skoðun í meðgönguvernd. Það getur verið gott að skrifa niður þær spurningar sem þig langar að spyrja um svo þú gleymir ekki að spyrja ljósmóðurina.
Fóstrið er á töluverðri hreyfingu í leginu án þess að þú verðir þess vör því það er nóg pláss fyrir hreyfingu í legvatninu án þess að það snerti legið. Fylgjan sendir súrefni og næringu um bláæð naflastrengsins og tekur við úrgangsefnum um slagæðarnar tvær í naflastrengnum. Fóstrið vegur nú um 18 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 6 sm.
15. Vika
Hjartað í þér hefur aukið afkastagetuna enda hefur blóðmagn aukist í líkamanum. Sumar konur skynja það sem óþægilegan hjartslátt, án þess þó að vita ástæðuna. Fötin þín virðast hafa þrengst enn meir.
Ef barninu er ætlað að verða dökkhært hefst nú framleiðsla litarefnisins. Neglur á fingrum fóstursins eru að myndast og andlitsdrættir eru að skýrast. Fóstrið getur sogið þumalfingurinn. Húð fóstursins er ennþá mjög þunn. Nú byrjar fóstrið að þyngjast hraðar. Fljótlega verða hreyfingar handa og fóta meira samhæfðar. Frumstæðir öndunartilburðir virðast eiga sér stað í brjóstkassanum. Fóstrið vegur nú um 80 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 9,5 sm.
20. Vika
Naflinn á þér gæti nú verið farinn að snúa „röngunni” út.
Vöðvar fóstursins þroskast mikið og fóstrið notar vöðvana mikið til að hreyfa sig. Fitukirtlar húðarinnar verða virkir og fara að framleiða fósturfitu sem á eftir að þekja fóstrið til verndar húðinni. Það vegur nú um 320 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 16 sm.
25. Vika
Barnið getur verið farið að þrýsta á rifbeinin þín og einnig á meltingarveginn. Þú getur fundið fyrir verkjum í síðunum vegna þess að legið er að stækka.
Barnið samsvarar sér mjög vel og líkist nú nýfæddu barni. Það er nú þegar búið að koma sér upp sínu svefnmynstri og er venjulega vakandi þegar þú sefur og sefur þegar þú vakir því hreyfingar þínar hafa róandi áhrif á barnið. Barninu gæti brugðið við háværa tónlist og byrjað að hreyfa sig. Barnið vegur nú um 720 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 22,5 sm.
30. Vika
Brjóstin á þér eru enn að stækka. Þú gætir byrjað að finna fyrirvaraverki þó að flestar konur finni ekki fyrir þeim fyrr en á síðustu vikunum. Raunverulegir hríðverkir standa yfir í u.þ.b. eina mínútu og koma á fimm mínúntna fresti eða minna og standa yfir í a.m.k. klukkustund. Fyrirvaraverkir standa styttra yfir eru ekki eins sárir og koma óreglulega.
Á næstu vikum mun barnið bæta á sig fitu í meira mæli en áður. Húðin er ennþá svo krumpuð svo það er nóg pláss fyrir meiri fitu undir húðinni. Fósturhárin fara nú að minnka og augun hafa opnast alveg. Hiksti barnsins verður meira áberandi. Barnið vegur nú um 1,3 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 27 sm.
35. Vika
Barnið er farið að þrýsta það mikið á magann þinn svo það getur verið betra fyrir þig að borða oftar en minna í einu. Ef þú ert með bjúg sem getur verið alveg eðlilegt þá eru skórnir ef til vill orðnir of þröngir. Það getur verið gott að vera í sandölum nema þegar þú þarft að vera skóm sem styðja vel við ökklann. Það er gott að ganga eitthvað á hverjum degi ef þú getur. Til að minnka bjúg á fótum er gott að sitja þegar tækifæri gefst og setja fætur upp á eitthvað eða jafnvel ennþá betra að leggjast og setja fæturna aðeins hærra. Það getur einnig hjálpað að gera léttar fótæfingar svo sem að snúa ökklunum í hringi og teygja og rétta úr fótunum til skiptis. Sund er einnig gott til að draga úr bjúg og getur veitt slökun og vellíðan.
Nú er barnið komið með táneglur og neglurnar á fingrunum geta náð fram fyrir fingurgómana og barnið getur því klórað sig nú þegar. Barnið vegur nú um 2,3 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 31 sm.
42. Vika
Legið þitt dregst hægt og rólega saman. Brjóstagjöfin ýtir undir að legið dragist vel saman. Vöðvar og liðbönd eru að jafna sig eftir áhrifin frá hormóninu Relaxin. Þetta getur þó tekið 4 mánuði að jafna sig alveg. Það tekur líka tíma að losna við bjúg en hann minnkar smám saman.
Barnið fer nú að vaxa hratt og stundum finnst þér eins og þú sjáir dagamun. Barnið sér ekki mikið því það getur aðeins fókuserað á hluti sem eru 30 sm eða nær.
…………………….
Ef barnið þitt er ekki ennþá fætt þá munu ljósmóðirin og læknirinn gera áætlun um að fæðing verði framkölluð í lok þessarar viku!
Inná ljósmóðir.is má sjá frá viku 1 – 42 viku og ótrúlega gaman að fylgjast með því jafn óðum hvað sé að gerast hjá krílinu sínu.
Einnig er fínn fróðleikur þar inná og hægt að fletta upp flest öllu sem við erum að velta fyrir okkur. Einnig má sjá um tvíburameðgöngu viku fyrir viku.
Eflaust kannast fleiri við það en ég að gleyma öllu sem lá á hjarta þegar komið er í mæðraskoðun. Því getur verið gott að kíkja inná Ljósmóðir.is en það eru einmitt ljósmæður sem halda síðunni úti.