Mjólkursykursóþol (laktósaóþol) er tilkomið vegna skorts á efnahvata í meltingarvegi sem brýtur niður mjólkursykur. Mjólkursykurinn bindur við sig vatn og fer ómeltur niður í ristil þar sem bakteríur nýta hann. Afleiðingin er vindgangur, magaverkir og niðurgangur.
Hver er orsökin?
- Mjólkursykur (laktósi) er sykurtegund sem er að finna í mjólk. Til þess að hann geti frásogast út í blóðið þarf að brjóta hann niður í tvo hluta. Í slímhimnu smáþarmanna er ensím (laktasi) sem sér um þetta niðurbrot. Hjá þeim sem hafa mjólkursykursóþol er of lítið af þessu ensími eða það vantar alveg.
- Ef mjólkursykurinn frásogast ekki bindur hann við sig vatn. Það leiðir til niðurgangs. Mjólkursykurinn heldur áfram óbrotinn niður í ristil, þar sem þarmabakteríur nýta hann. Það leiðir til vindgangs og óróleika í kviðnum.
- Öll börn hafa mikla hæfileika til þess að brjóta niður mjólkursykurinn (sem betur fer!). Þessi hæfileiki minnkar með árunum.
- Hjá einstaklingum með mjólkursykursóþol er þessi hæfileiki skertur. Mismunandi er milli einstaklinga hversu mikil skerðingin er. Margir hafa eitthvað magn af ensíminu og þola því smávegis af mjólkursykri á meðan aðra skortir ensímið alveg og þola því engan mjólkursykur.
Hverjir fá mjólkuróþol?
- Flestir fullorðinna í norður-Evrópu og norður-Ameríku hafa varðveitt hæfileikann til að brjóta niður mjólkursykur.
- Meirihluti fullorðinna íbúa jarðar þjáist af mjólkursykursóþoli.
- Einstaklingar sem gengist hafa undir stórar aðgerðir á þörmum, á maga eða þjást af smáþarmasjúkdómum (Glútenóþol) hafa oft einnig mjólkursykuróþol.
Í sumum tilfellum kemur tímabundið mjólkursykursóþol í kjölfar niðurgangs. Þetta stafar af því að slímhimna smáþarmanna hefur skaðast í kjölfar sjúkdómsins.
Sjá einnig: Fæðuóþol og ofnæmi geta horfið á meðgöngu!
Hver eru einkennin?
- Uppþemba
- Vindgangur
- Krampakenndir kviðverkir
- Niðurgangur
Hvað er til ráða?
- Að vera meðvitaður um ofangreind einkenni.
- Að borða ekki mikið af mjólkurvörum (það gildir einnig um jógúrt, þykkmjólk o.s.frv.) ef þið eruð með eða hafið nýlega verið með niðurgang.
Gamla húsráðið: Látið mjólkurvörur eiga sig í nokkra daga. Drekkið síðan 2-3 mjólkurglös. Ef
þið fáið magaverki eða niðurgang (frá nokkrum mínútum upp í hálftíma) eftir að hafa drukkið mjólkina er líklegt að þið hafið mjólkursykursóþol.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
- „Mjólkursykursþolpróf„: gerð er blóðsykursmæling fyrir og eftir að drukkið hefur verið glas með mjólkursykri uppleystum í vatni.
- „Öndunargreining„: útöndunarloftið er rannsakað eftir neyslu
mjólkursykurs. - Slímhimnusýni frá smáþörmunum er rannsakað í tengslum við
magaspeglun.
Hver er meðferðin?
- Takmarka eða forðast fæði sem inniheldur mjólkursykur (í samráði við næringarfræðing). Það er einstaklingsbundið hversu afgerandi óþolið er. Sumir geta drukkið 1-2 mjólkurglös á meðan aðrir fá einkenni af þeim litla mjólkursykri sem lyf innihalda. Flestir fullorðinna með mjókursykuróþol þola 2-4 g af mjólkursykri í máltíð. Mjólkurvörur innihalda mismikið af mjólkursykri og þolast því misvel (sjá neðar).
- Til eru lyf sem innihalda laktasa og geta minnkað einkenni.
Annarsvegar eru dropar sem settir eru út í mjólk og látnir bíða í 12-24 klst. fyrir neyslu. Hinsvegar eru töflur sem teknar eru inn um leið og mjólkursykursríkrar fæðu er neytt. Þessi lyf fást án lyfseðils í lyfjaverslunum.
Þar sem mjólkursykursóþol framkallar ekki hættulegt ástand er það ekki alvarlegt þó ekki sé haldið við rétt mataræði. Hafa ber þó í huga að einkennin (vindgangur, magaverkir og niðurgangur) fylgja í kjölfar neyslu mjólkursykurs.
Í hverju er mjólkursykur?
Mjólkursykur er í mjólk og mjólkurvörum. Allar tegundir mjólkur (nýmjólk, undanrenna o.s.frv) innihalda mikið af mjólkursykri eða meira en 4 g í 100 g af vörunni, það gildir einnig um mysu og ís. Sýrðar mjólkuvörur innihalda minna af mjólkursykri þar sem gerillinn nýtir sykurinn. Í súrmjólk, jógúrt, skyri, kotasælu o.fl eru 2-4 g af mjólkursykri í 100 g af vörunni. Enn minna er í smjöri, smjörlíki og smurostum. Fastir ostar (brauðostar) innihalda mjög lítið af mjólkursykri, einnig sumar tegundir ábætisosta s.s. gráðostur. Mjólkursykur er einnig í:
- Mjólkurdufti.
- Brauði og kökum (lesið innihaldslýsingar eða spyrjið bakarann).
- Ýmsum unnum kjöt- og fiskvörum.
- Mörgum tegundum af súkkulaði.
- Sumum lyfjum.