Skorpulifur þróast þegar mikill fjöldi lifrarfruma deyr og í staðinn myndast örvefur og hnútar. Lifrarvefurinn verður því óeðlilegur á ákveðnum svæðum og getur ekki starfað eðlilega. Þetta leiðir til háþrýstings (hækkaður blóðþrýstingur) í lifrinni og skerðingar á starfshæfni hennar. Erlendis er skorpulifur ein algengasta dánarorsök einstaklinga á aldrinum 25-65 ára en hér á landi er skorpulifur ekki eins algengur sjúkdómur.

Hverjar eru orsakir skorpulifrar?

 • Alkóhólismi.
 • Lifrarbólga B og C.
 • Óþekktar orsakir.
 • Eiturefni, t.d. klóróform.
 • Lyf, t.d. Methotrexate.
 • Alvarlegir sjúkdómar: Efnaskiptasjúkdómar (Hemochromatosis(járngeymdargalli) og Wilson´s sjúkdómur). Hindrun á blóðflæði frá lifur til hjartans (krónísk hægri hjartabilun). Einnig ýmsir sjálfsónæmissjúkdómar og sarklíki (Sarcoidosis).

 

Sjá einnig: 12 staðreyndir um alkóhólisma sem allir ættu að vita

Hver eru einkennin?

Við upphaf sjúkdómsins eru mjög óljós einkenni:

 • Þreyta og slappleiki.
 • Minnkuð matarlyst, ógleði og þyngdartap.

Þegar sjúkdómurinn er lengra genginn:

 • gula (húðin og hvíta augnanna verða gul).
 • dökk gult eða brúnt þvag.
 • litlar húðæðarnar verða sjáanlegar og líkjast köngulóarvef.
 • hárlos.
 • brjóst myndast á karlmönnum.
 • miltað stækkar.
 • vökvasöfnun í kvið og bjúgur á fótum.
 • niðurgangur: Hægðirnar geta verið dökkar/blóðugar.
 • uppköst. Þau geta verið blóðug vegna æðahnúta í vélinda.
 • meðvitundarskerðing sem getur þróast yfir í meðvitundarleysi (kóma).

Hvenær er hætta á ferð?

 • Það er einstaklingsbundið hversu mikla áfengisneyslu þarf til að skorpulifur myndist.
 • Þeir sem vinna með eiturefni ættu að forðast þau eftir bestu getu og nota hlífðarbúnað. Flest efnin hafa slæm áhrif á lifrina.
 • Við sýkingu af lifrabólgu.
 • Við vannæringu.

Hvað er hægt að gera til að forðast lifrabólgu?

 • Neyta áfengis í hófi.
 • Fara í áfengismeðferð ef áfengisneysla er vandamál.
 • Koma í veg fyrir lifrarbólgusmit (blóðblöndun). Þeir sem hafa lifrarbólgu nú þegar þarf að vera í reglulegu eftirliti hjá t.d. meltingarsérfræðingi.
 • Varastu eiturefni á vinnustað.

Sjá einnig: 26 ástæður fyrir virkan alkóhólista að verða edrú

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Starfsemi lifrarinnar er skoðuð með blóð- og þvagsýnum. Einnig er gerð ómskoðun á lifrinni. Stundum er tekið vefjasýni úr henni til nákvæmari greiningar.

Ráðleggingar

Ef alkóhólismi er orsök skorpulifurs, hætta skal samstundis að drekka. Hægt er að leita áfengismeðferðar hjá SÁÁ.

Starfsgeta

Takið þátt í athöfnum daglegs lífs. Ef mikill bjúgur er á fótum skal hafa þá í hálegu í hvíld.

Fæði

 • Forðast áfengi.
 • Borða próteinríkan og fjölbreyttan mat.
 • Forðast salt.
 • Á seinni stigum sjúkdómsins skal minnka próteinneysluna í áföngum.
 • Það er nauðsynlegt að taka vítamín og steinefni.

Hverjir eru fylgikvillarnir?

 • Getuleysi.
 • Lífshættulegar blæðingar, sérstaklega frá vélinda og maga.
 • Lifrarkrabbamein.
 • Sýking (blóðeitrun).

Framtíðarhorfur

Það má koma í veg frekari tap á lifrarvef með því að fjarlægja sjúkdómsvaldinn en sá skaði sem þegar hefur komið fram verður ekki læknaður. Með breyttu líferni og meðferð má halda sjúkdómnum í horfinu. Ef ekkert er gert mun lifrin að lokum gefast upp og það leiðir til dauða.

 

Sjá einnig: Hann telur niður frá 21 – Hann er sonur alkóhólista – Myndband

Hver er meðferðin?

 • Erfitt er að meðhöndla skorpulifur og beinist hún aðallega að þeim fylgikvillum sem hún hefur í för með sér.
 • Við vökvasöfnun í kvið eða á fótum er gefið kalíumsparandi þvagræsilyf.
 • Einnig er hægt að nota önnur þvagræsilyf.
 • Betablokkarar, með langtímavirkni við blæðandi æðahnútum. Lyfið minnkar blóðþrýstinginn í æðahnútunum og kemur þannig í veg fyrir að þeir springi og valdi blæðingu.
 • Hægt er að meðhöndla lífshættulegar blæðingar frá æðahnútum í vélinda inn á sjúkrahúsi með magaspeglun. Ef speglunin leiðir í ljós að um æðahnúta er að ræða, er hægt að meðhöndla þá með því að blása upp blöðru inni í vélindanu.
 • Hægðalyf með sérstakt sykurinnihald er gefið þegar grunur leikur á að sjúklingur sé að fá lifrarkóma eða vegnalifrarkóma, til að draga úr myndun ammóníum í blóðrásinni.

 

SHARE