Hvað eru hitakrampar?

Um 5% barna fá hitakrampa við  sótthita. Þetta gerist yfirleitt á fyrstu 3-4 árum barnsins og er oftast hættulaust.

Orsakir hitakrampa eru ekki þekktar en börn geta erft tilhneigingu til hitakrampa frá foreldrum sínum. Líkur á hitakrampa aukast ef hiti hækkar snögglega.

Það getur einnig skipt máli hversu oft barnið fær sýkingar og hita. Um það bil 3 af hverjum 10 börnum með hitakrampa fá annað kast.

Hætta á hitakrampa er mest ef foreldrar hafa fengið hitakrampa, barnið fær oft hita og ef fyrsti hitakrampinn kemur við vægan hita, (minna en 39° á celsíus.)

Börn með hitakrampa eiga að fá sömu bólusetningar og önnur börn.

Hver eru einkennin?

Krampakastið hefst á að barnið missir meðvitund og  verða búkur og útlimir alveg stífir, höfuðið reigist aftur á bak og handleggir og fætur kippast taktfast til.Varir og húð geta orðið bláleit sérstaklega í byrjun

Hitakrampar standa oftast stutt yfir en geta þó stundum varað í nokkrar mínútur. Eðlilegur húðlitur og meðvitund koma eftir stutta stund.

Sum börn vakna fljótt en önnur eru sljó og dösuð í einhvern tíma. Þrátt fyrir, að kastið vari einungis í nokkrar mínútur, er eins og heil eilífð líði áður en það hættir. Krampaköst hjá börnum er alltaf óhugnanleg.

Sjá einnig: Hvað er RS veira?

Hvað á að gera ef barnið fær hitakrampa?

Haldið ró ykkar

Hlúið að barninu og bíðið eftir því að kastið gangi yfir. Fjarlægið hluti sem geta skaðað barnið.

Snúið barninu á hlið eða grúfu og haldið öndunarvegi opnum.

Hér áður fyrr var spýtu (tunguspaða) komið fyrir í munni barnsins til að koma í veg fyrir, að það bíti í tunguna eða varirnar. Ekki gera þetta þar sem þú hættir á að tennurnar brotni, sem er mun verra en bit í tungu eða varir.

Fylgist með tímanum á klukku til að auðvelda mat á hve lengi krampinn varir, þetta getur skipt máli fyrir frekari greiningu .

Hafið samband við lækni ef barnið er að krampa í fyrsta sinn

Hringið á sjúkrabíl, 112 ef köstin verða langvarandi eða fleiri með stuttu millibili.

Öll börn þarf að skoða af lækni eftir fyrsta hitakrampa.

Ef barnið hefur áður fengið hitakrampa er ekki nauðsynlegt að fara með barnið á sjúkrahús, látið lækni alltaf vita um kastið.

Ávallt er nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvað veldur hitanum.

Ef barnið er með hita:

Kælið barnið með því að klæða það úr fötunum og hafa aðeins lak ofan á því. Opnið glugga (varið ykkur á að það verði ekki of kalt). Gefið barninu eitthvað kalt að drekka.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að hitalækkandi lyf eins og íbufen eða parasetamól  draga lítið sem ekkert úr hættunni á að fá hitakrampa.  Læknar mæla samt sem áður með þessum lyfjum,  sérstaklega ef barninu líður illa eða vill ekki drekka. Mikilvægt að gefa rétt magn og fylgja leiðbeiningum á umbúðum.

Hitakrampar líkjast krömpum flogaveikra, en þeir tengjast sjaldnast flogaveiki.

Framtíðarhorfur

Þrátt fyrir, að krampaköstin séu óhugnanleg valda þau sjaldan skaða. Ef kramparnir vara mjög lengi, eða ef barnið hefur fengið mörg köst á stuttum tíma, getur það bent til truflana á starfsemi heilans.

Ef barnið þitt hefur fengið hitakrampa skaltu ráðfæra þig við lækni um hvernig þú átt að bregðast við næst þegar barnið fær hita.

Í þriðjungii tilvika fær barnið aftur krampa næst, þegar það fær hita. Með tímanum dregur úr hættunni og yfirleitt er hún gengin yfir þegar barnið nær 4 ára aldri.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE