Vöðvaæxli eru góðkynja hnútar í vöðvum legveggjarins. Þau geta verið inni í veggnum, á yfirborði legsins eða í legholinu. Í sjaldgæfum tilvikum geta þau einnig setið á eggjastokkunum. Hnútarnir geta verið einn eða fleiri.

Tíðni þeirra er mest hjá konum á fimmtugsaldri og um það bil helmingur allra kvenna hefur vöðvahnúta í legi áður en tíðahvörf verða.

Hvaða einkenni geta komið?

Sem betur fer gefa vöðvahnútarnir oft engin óþægindi. Algengustu vandmálin eru miklar blæðingar.Vöðvahnútarnir geta orðið mjög stórir, og það er ekki óalgengt að legið verði meira en tífalt að stærð. Stundum finnur konan fyrir aukinni þyngd legsins og stundum eru verkir til staðar. Þvagblaðran og þarmarnir liggja að leginu, og margar konur með stóra vöðvahnúta hafa aukna þvaglátaþörf.

Það geta komið vandamál varðandi hægðir og verki við samfarir.

Getur maður orðið barnshafandi þegar maður er með vöðvaæxli í legi?

Vöðvaæxli í legi,
leggöngin snúa niður

Vöðvahnútar minnka möguleikana á þungun og á því að þungunin haldist. Nú á dögum eignast konur börn sín seinna en áður, og vöðvahnútar valda því oftar vandamálum nú, því þeir eru mjög sjaldan til staðar fyrir þrítugt.

Vöðvahnútar í legi barnshafandi kvenna geta orðið hindrun í fæðingarveginum, sem getur leitt til þess að konan þarf að fæða með keisaraskurði.

Hvað veldur?

Ekki eru vel þekktar orsakirnar fyrir því að óheftur vöxtur verður í vöðvavefnum, en það er aukin hætta á því að fá vöðvaæxli í legi ef fleiri í fjölskyldunni hafa sama kvilla.

Sjá einnig: Langvarandi notkun á hormónum getur aukið líkur á heilaæxli hjá konum samkvæmt nýrri rannsókn

Er þetta hættulegt?

Eins og nefnt hefur verið eru vöðvaæxlin góðkynja, og gefi þau ekki einkenni þarf enga meðferð. Konur sem hafa haft vöðvahnúta í áraraðir þurfa ekki að gangast undir eftirlit. Flestar konur verða þó óöruggar þegar þær fá vitneskju um að legið sé stækkað. Gjarnan er gerð er útsköfun og tekið sýni frá slímhúð legsins til smásjárskoðunar.

Til eru sjaldgæfar tegundir krabbameinsæxla, til dæmis trefjasarkmein (fibrosarcoma), sem geta líkst góðkynja vöðvaæxlum. Því þarf að taka eftir því ef legið stækkar mjög hratt eða veldur óþægindum. Ef slíkt gerist þarf alltaf að leita læknis.

Hver er meðferðin?

Það er ekki þörf fyrir meðferð ef engin óþægindi eru frá vöðvahnútunum. Ef helsti vandinn er miklar blæðingar má reyna lyfjameðferð, t.d. Cyklokapron. Þetta lyf er notað þegar blæðingar eru miklar, en er ekki fyrirbyggjandi.

Hormónameðferð

Hormónameðferð, eins og t.d. getnaðarvarnarpillur, geta komið reglu á blæðingarnar. Ný lyf eins og Zoladex geta valdið minnkun legsins, en því miður hefur notkun þessarra nýju lyfja einnig óþægilegar aukaverkanir. Eru þau því aðeins notuð í styttri tíma. Þegar meðferð þeirra er hætt fara vöðvahnútarnir að vaxa aftur.

Skurðaðgerð

Hefðbundna meðferðin hefur verið brottnám legsins. Hjá konum, sem vilja halda möguleikanum á þungun opnum, er í mörgum tilvikum hægt að fjarlægja vöðvahnútana án þess að nema legið í burtu.

Aðrar aðferðir

Á seinni árum hafa komið fram nokkrar nýjar aðferðir. Reynt hefur verið að meðhöndla vöðvahnútana með rafmagnshitun og leysigeislum.

Einnig er á sumum stöðum beytt þeirri aðferð að draga úr blóðflæði til legsins, með því að framkalla blóðtappa í æðum til legsins. Árangur þessarrar aðferðar lofar góðu erlendis.

 

SHARE