Hvað hefur áhrif á D-vítamínbúskap okkar?

Það er ýmislegt sem hefur áhrif á D-vítamínbúskap okkar. Líkaminn framleiðir D-vítamín þegar sólarljós skín á húðina. Við fáum einnig D-vítamínið í matnum (þó í litlu magni og oftast sem viðbót) og einnig sem fæðubótarefni.


Það er ekki bara fæðan og sólarljósið sem hafa áhrif á D-vítamínbúskap okkar því það er margt annað í okkar umhverfi sem hefur áhrif.

Má þar nefna:

Hvar þú býrð á Jarðkringlunni.
Því fjær sem þú býrð miðbaug, því minna D-vítamín færðu frá sólinni. Við Íslendingar fáum mjög lítið af D-vítamíni stærstan hluta ársins, vegna sólarleysisins hér og inntaka D-vítamíns því nauðsynleg svo við náum upp eðlilegum D-vítamínbúskap. Þeir Íslendingar sem ferðast reglulega til sólarlanda á veturna fá reyndar sinn skammt af D-vítamíni á meðan á dvöl stendur.

Loftgæði.
Kolefnissameindir úr jafnefnaeldsneyti, kolum og öðrum efnum draga úr myndun D-vítamíns sem myndast með sólargeislum.

Notkun sólarvarnar.
Sólarvörn kemur í veg fyrir að húðin brenni af UVB geislum sólar. Það eru einmitt þessir geislar sem koma að myndun D-vítamíns og ætti því notkun sólarvarnar að draga úr D-vítamínmyndun. En það er lán í óláni að mjög fáir maka sólarvörninni nógu vel á sig til að útiloka alla sólargeislana eða nota sólarvörnina ekki nógu reglulega. Þetta veldur því að sólarvörn virðist hafa lítil áhrif á D-vítamínbúskap í flestum tilfellum þó áhrifin séu eflaust einhver.

Sjá einnig: Hvað sérð þú fyrst?

Hörundslitur.
Melanín er litarefni húðarinnar. Melanín hindrar upptöku D-vítamíns frá sólargeislum. Því þurfa þeir sem eru dökkir á hörund lengri tíma í sólarljósi til að framleiða sama magn af D-vítamíni og þeir sem eru ljósari á hörund. Þetta er kostur fyrir okkur hér á landi þar sem flestir eru ljósir á hörund og myndun D-vítamíns er því góð þá þær fáu vikur á ári sem sólar nýtur við.

Þyngd.
Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru í ofþyngd eru líklegri til þess að vera með lélegan D-vítamínbúskap en þeir sem eru í kjörþyngd. Það hafa verið tilgátur með að ástæður þessa séu mögulega vegna þess að þeir eru eru yfir kjörþyngd neyti minna af D-vítamíni, njóti minna sólarljós og hreyfi sig minna utandyra.
Aldur. Þeir sem eru eldri hafa minna af þeim efnum í húðinni sem breyta UVB geislunum sólarinnar í forvera D-vítamíns í líkamanum.

GEIR GUNNAR MARKÚSSON

Geir Gunnar Markússon er ritstjóri heimasíðu NLFÍ. Hann er með BS próf í matvælafræði og MS próf í næringarfræði. Geir er Kópavogsbúi, giftur, á 3 dætur og einn hund. Hans áhugamál snúa að heilsu, næringu, hreyfingu og tónlist. Geir berst gegn alls kyns öfgum og hindurvísindum í næringar- og heilsufræðum.

Greinin birtist fyrst á Heilsutorgi og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

SHARE