Hvaða áhrif hefur sykursýki á fætur?

Sykursýki er þegar blóðsykur er of hár af því að líkaminn getur ekki nýtt hann vegna skorts á insúlíni, sem brisið á að framleiða. Sykur er öllum frumum líkamans nauðsynlegur sem orkugjafi líkt og bensín á bíl. Til að frumur líkamans geti notað sykurinn þarf hann að komast inn í frumurnar og til þess þarf insúlín.

Fótasár er algengasti fylgisjúkdómur sykursýki. Meiri líkur eru á að sykursjúkir þurfi að leggjast inn á sjúkrahús vegna fótasára en nokkurra annarra fylgisjúkdóma sykursýki. Sykursýki getur leitt til lélegrar blóðrásar og skerts sársaukaskyns í fótum. Mikilvægt er að skilja hvernig fótasár myndast, þannig að hægt sé að koma í veg fyrir þau eða meðhöndla með sem bestum árangri.

Hvaða áhrif hefur sykursýki á fætur?

Sykursýki getur valdið þrengingum og jafnvel stíflum í slagæðum sem flytja blóðið til fótleggjanna. Við það minnkar blóðflæðið niður í fæturna og þeir fá ekki nægjanlegt súrefni sem er nauðsynlegt öllum frumum líkamans, því annars líða þær súrefnisskort og deyja. Sár myndast þar sem frumurnar deyja vegna súrefnisskorts.

Sykursýki getur einnig valdið taugaskemmdum í fótleggjum. Þegar tilfinningin minnkar í fótum vegna taugaskemmda, geta komið upp vandamál án þess að þeirra verði vart. Skór geta nuddað eða baðvatn verið of heitt. Þetta getur valdið smá blöðrum eða minniháttar brunasárum án þess að sjúklingurinn veiti því athygli þar sem tilfinning er skert og óþæginda verður ekki vart. Ef þetta er ekki meðhöndlað strax í byrjun á viðeigandi hátt, gæti það að lokum leitt til alvarlegs fótasárs.Þegar þetta tvennt fer saman, minnkað sársaukaskyn og minnkað blóðflæði, er orðin veruleg hætta á að fótasár myndist.

Sjá einnig: Fyrstu einkenni sykursýki geta hæglega farið framhjá þér

Til að koma í veg fyrir fótasár er mikilvægt að:

Meðhöndla sykursýkina samviskusamlega.

Hætta að reykja.

Borða hollan mat og sérfæði fyrir sykursjúka.

Varast að ofkælast á fótum og fara í of heit böð.

Stunda reglulega líkamsþjálfun, t.d. rösklega göngutúra.

Gæta þess að sokkar og skór séu ekki of þröngir, því það getur orsakað blöðrur og sár, sem erfitt getur verið að græða.

Koma í reglubundið eftirlit til fótaaðgerðafræðings, sem getur skoðað og meðhöndlað fæturna og gefið góð ráð. Hjá yngra fólki nægir að koma einu sinni á ári ef engin fótasár eru til staðar.

Sjá einnig: Þarf að setja fæðinguna af stað?

Hvernig er hægt að fyrirbyggja fótasár á einfaldan hátt?

Gott er að venja sig á að skoða fæturna á hverjum degi. Leita að siggmyndun (svæði með harðri, þykkri húð) og sprungum í húðinni. Til að auðvelda þessa skoðun er gott að nota spegil til að sjá undir iljarnar. Ef þetta reynist erfitt, eða ef sjónin er ekki jafn góð og áður, ætti að reyna að fá einhvern annan til að skoða fæturna. Ef einhver hættumerki eru sjáanleg, hafið þá samband við lækni þegar í stað. Reynið aldrei að meðhöndla sár, líkþorn eða önnur fótavandamál sjálf, leitið aðstoðar fagfólks. Notið aldrei líkþornaplástra, þeir geta valdið fótasárum. Sjaldnast þurfa sykursjúkir öðruvísi meðhöndlun en aðrir einstaklingar. Almenn ráð um fótameðferð eiga við hér.

Almennt hreinlæti.
Fætur eru þvegnir á hverjum degi og notuð venjuleg baðsápa (handsápa) og volgt vatn. Fætur eru þerraðir vel með hreinu handklæði, sérstaklega á milli tánna. Það bætir ekkert að vera lengi í fótabaði, það gerir húðina gljúpa í fyrstu og síðan þurra, sem eykur líkurnar á sárum.

Húð

Með því að bera rakakrem á húðina eftir bað, stuðlum við að því að hún haldist heilbrigð. Forðist að bera krem á milli tánna þar eð það svæði er nógu rakt fyrir. Ef púður er látið á milli tánna, ber að gæta þess að nota ekki svo mikið að það klessist, því að þá skapast sýkinga rhætta. Ef um mjög þykka og harða húð er að ræða, er ráðlegt að leita aðstoðar fótaaðgerðafræðings.

Neglur Neglur haldast heilbrigðar ef þær eru klipptar eftir lögun tágómanna. Einu sinni á 6-8 vikna fresti nægir venjulega. Öruggast er að snyrta neglurnar með naglaklippum og naglaþjöl, sem fæst í lyfjabúðum. Forðist að klippa niður með nöglunum eða að klippa þær of nálægt kviku. Þær eiga að veita tánum vörn. Það er úrelt ráð og rangt að klippa V í miðja nögl til að hindra að hún grói niður. Ef tilfinningin er þannig að neglurnar nuddist í skónum, þarf það ekki að merkja að neglurnar séu of langar, heldur er líklegt að skórnir séu of stuttir. Varasamt er að hreinsa brúnir og hliðar tánaglanna með oddhvössum naglaskærum. Ef þörf er á að losa um óhreinindi og dauðar húðfrumur, er ráðlegt að nota mjúkan tannbursta og bursta frá naglarótinni og fram eftir nöglinni. Ef erfitt er að hirða neglurnar ætti að leita aðstoðar fótaaðgerðafræðings.

Fótabúnaður Réttir skór og sokkar/sokkabuxur stuðla að heilbrigði fótanna. Því er val á fótabúnaði mikilvægt. Skór sem passa ekki vel, jafnvel þótt þeir virðist þægilegir, geta valdið líkþornum, siggi, niðurgrónum nöglum, blöðrum og sárum. Ef um taugakvilla eða lélega blóðrás er að ræða, mun áframhaldandi notkun á óheppilegum skóm að öllum líkindum auka vandann. Þegar skór eru valdir er ekki nóg að þeir virðist þægilegir eða fallegir. Ef fólk með skert taugaboð finnur fyrir skónum, þýðir það að þeir eru alltof þröngir! Athugið sérstaklega að saumar geta valdið núningi og sárum. Til að tryggja að skór passi, þarf að mæla lengd og breidd fótanna.

Skór eiga að vera:

  • Breiðir.
  • Með rúmgott og fótlaga tásvæði.
  • Með lágum hælum.
  • Reimaðir eða festir með spennu til að hællinn haldist aftast í skónum og fóturinn renni ekki fram í skóna með þeim afleiðingum að tærnar klemmist fremst í þeim.

Skór skulu ávallt skoðaðir að innanverðu til að athuga hvort hvassir hlutir eða steinar leynist í þeim áður en farið er í þá. Varist krumpað innlegg og slitið fóður.Fótaaðgerðafræðingar ráðleggja gjarnan um rétta stærð og lögun.

Forðast skal sokka eða sokkabuxur sem leggjast í fellingar eða eru með grófum saumum. Einnig sokka með stífri teygju, því hún getur hindrað blóðflæðið. Aldrei ætti að nota slitna eða götótta sokka – þeir eru algeng orsök sáramyndunar.

Hvenær á að leita aðstoðar vegna fótakvilla?

Ef minnstu sár og/eða afrifur eru á fótum.

Ef sykursýki hefur varað í mörg ár og fætur aldrei verið skoðaðir, sérstaklega ef sykursýki er ekki í góðu jafnvægi.

Ef viðkomandi á erfitt með að skoða eða hugsa um fæturna.

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi umhirðu fóta.

Hvar er hjálp að fá?

Aðstoðar má leita víða. Eðlilegast er að snúa sér fyrst til heimilislæknisins. Hann mun síðan leiðbeina um áframhaldandi meðferð:

a) á göngudeild sykursjúkra,
b) hjá hjúkrunarfræðingum sem sérhæfðir eru í sykursýki,
c) hjá löggiltum fótaaðgerðafræðingum. Þeir eru á einkastofum, vistheimilum aldraðra og á sjúkrahúsum víðsvegar um landið.

Hvers er að vænta þegar fætur eru skoðaðir?

Viðkomandi er beðinn um að fara úr sokkum og skóm svo hægt sé að skoða fætur og fótleggi. Spurt er um heilsufar. Mikilvægasta ástæða þeirra spurninga er að sá sem skoðar fæturna, fái sem gleggsta mynd af heilsufari viðkomandi, svo hægt sé að veita bestu meðhöndlun.Ennfremur má vænta eftirfarandi spurninga:Nánari upplýsingar er einnig hægt að fá hjá Samtökum sykursjúkra.

Hefurðu fengið fótasár?

Hvernig hirðir þú um fætur þína?

Skoðar þú fæturna reglulega og eftir hverju leitar þú?

Hvernig gengur að halda blóðsykrinum í lagi?

Hér gefst gott tækifæri til að spyrja spurninga og leita ráða. Eftirfarandi próf verða gerð og ekkert þeirra veldur óþægindum eða sársauka.
Taugaboðapróf Sá sem skoðar notar einföld áhöld til að athuga hvort um tilfinningaleysi eða dofa sé að ræða í fótum. Það er gert með því að þrýsta áhaldi fremst á tærnar, á tábergið og hælinn. Viðbrögð eru athuguð og hvort munur finnst á heitu og köldu á húðinni.

Blóðflæðismæling Púls í fótum og fótleggjum er athugaður til þess að fylgjast með blóðstreymi. Tæki gætu verið notuð til að hlusta eftir blóðstreymi í slagæðum fóta og fótleggja. Bl&o acute;ðþrýstingur gæti verið tekinn á sama hátt og venjulega, nema í þessu tilfelli yrði hann tekinn á fótum.

Fótaskoðun Athuga verður hvort á fótum sé líkþorn, hörð húð, kvillar í nöglum eða annað athugavert og bent á viðeigandi meðhöndlun.

Við vonum að þessar upplýsingar hafi hjálpað til að skilja betur nauðsyn þess að hugsa vel um fæturna. Hikið ekki við að leita ráða ef minnsti grunur leikur á að um sykursýki geti verið að ræða – sérfræðingar í sykursýki eru til þess að hjálpa.

Upplýsingar um fótaaðgerðastofur er að finna í símaskránni.

Þessar upplýsingar eru úr bæklingi sem var gefinn út af Samtökum sykursjúkra í samvinnu við Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga. Styrktaraðili Lyra sf., sérverslun fyrir sykursjúkra.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE