Í samningi Sameinuðu þjóðanna, um rétt barna, er sagt að ung börn og unglingar eru sjálfstæðir einstaklingar með viðhorf sem á að taka alvarlega. Þau hafa allan rétt til þess að láta sínar skoðanir í ljós og eru hæf til þess að gefa upplýsingar um sína reynslu og skoðanir.

Því miður er staðreyndin sú að það er ekki alltaf tekið mark á því sem ungt fólk hefur að segja. Oftar en ekki er ungur aldur og lítil lífsreynsla, notuð sem afsökun til þess að taka ekki mark á skoðunum ungs fólks, sama hvort einstaklingurinn sé 15 ára eða 25 ára. Börn, unglingar og unga fólkið, sem er ekki talið hafa næga lífreynslu til að hafa marktækar skoðanir, er uppfullt af hugmyndum um hvernig megi breyta og bæta samfélagið. Unga fólkið er jú framtíð þessa lands og þess vegna ætti að taka mun meira mark á þeim.

Ungur aldur og lítil lífsreynsla ætti ekki að vera nein afsökun fyrir því að skoðanir ungs fólks sé ekki marktæk. Það er að sjálfsögðu stór munur á lífsreynslu hjá einstaklingi sem er 60 ára og einstaklingi sem er 20 ára, en báðir mynda sínar skoðanir útfrá sinni þekkingu.

Í sumum tilfellum er skoðun 20 ára einstaklingsins mikilvægari heldur en hjá þeim sem er 60 ára, því sá sem er 20 ára hefur myndað skoðanir út frá því hvernig hann sér framtíðina fyrir sér og tekur mið á því hvernig samfélagið rúllar dag frá degi. Við viljum ekki gera lítið úr skoðunum eldra fólks, en oftast finnast okkur viðhorf þeirra vera „í gamla daga“ og það er eins og það megi ekki breyta því hvernig allt var gert.

Eldri einstaklingar ættu að kenna þeim yngri og leyfa skoðunum þeirra að koma í ljós en ekki loka á þau því þau eru svo ung. Það ætti að hvetja unga fólkið að koma sínu á framfæri og jafnvel að leyfa ungu fólki að taka þátt í stjórnsýslu sveitafélaganna.

Sem dæmi má nefna var myndað ungmennaráð í Strandabyggð sem er skipuð tveimur nemendum úr grunnskóla og þremur eldri einstaklingum sem hafa náð 18 ára aldri. Þessu ungmennaráði er ætlað að hjálpa ungu fólki á svæðinu að koma sínum skoðunum og tillögum til skila til sveitafélagsins. Fulltrúar í ungmennaráðinu fá þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og læra á stjórnkerfi sveitarfélagsins. Markmiðið er svo að efla tengsl á milli nemenda og sveitastjórnarinnar.

Hægt væri að útfæra svona ungmennaráð í öllum sveitafélögum á landinu. Það væri kannski til þess að fleira ungt fólk mundu koma sínum skoðunum á framfæri.

Við teljum að raddir unga fólksins heyrist ekki nógu vel og því ætti að breyta, hvetja unglingana að láta í sér heyra varðandi brennandi málefni en ekki kæfa niðrí þeim vegna þess að lífsreynsla þeirra er of stutt.

Höfundar: Elísabet Bjarnadóttir, Ragney Líf Stefánsdóttir, Stefanía Gunnarsdóttir og Þórhildur Dana Marteinsdóttir, nemar í Tómstunda og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.

SHARE