Hver er uppskriftin að hamingjusömu lífi? – Skyldulesning!

Hver er uppskriftin að hamingjusömu lífi?  

Dr. Todd Kashdan segir hér frá sex meginþáttum sem hann segir að ráði hamingju fólks.

 

Heimspekingar hafa löngum velt fyrir sér hvar leyndardómurinn um hamingju fólks liggur. Nú segist Dr. Todd Kashdan hafa fundið „Hamingjuformúluna“. Hann telur að þegar þeir sex þættir sem hann hefur greint vinni rétt saman taki hamingjan völdin.

Er eitthvert vit í „Hamingjuformúlunni“? 

Þættirnir sex eru: 1) njóttu hverrar stundar, 2) vertu áhugasöm (samur), 3) gerðu eitthvað sem þér þykir gaman að gera, 4) hugsaðu um aðra, 5) ræktaðu vináttuna og 6) hugsaðu um líkama þinn.

Dr Kashdan telur og segir að það sé engin leyndardómur bak við það að líða vel. Hins vegar þurfi fólk að sjá til þess að þættirnir sex séu til staðar. Maður þarf að setja sér að njóta hverrar stundar, vera áhugasamur um menn og málefni, vera með fjölskyldu sinni og rækta hana, gera eitthvað sem maður hefur mikla ánægju af, hugsa um og til annarra og huga að vellíðan líkama síns.  Ef fólk hugar að þessum þáttum er það á réttri leið til lífshamingjunnar.

Þetta kemur þó ekki af sjálfu sér, maður þarf að vinna í þessum þáttum og skapa sína eigin hamingju. Það gerir enginn fyrir mann.

Lítum nánar á „Hamingjuformúluna“

Njóttu hverrar stundar – taktu eftir ilmi, hljóðum og því sem daglega ber fyrir augun og þú hafðir ekki einu sinni tekið eftir. Minntu sjálfa(n) þig á fegurðina kringum þig.

Vertu forvitin(n) og áhugasöm(samur)  – athugaðu dag hvern eitthvað sem þú hefur ekki áður kynnt þér, er „dularfullt“, flókið og þú veist ekki svörin við.

Gerðu eitthvað sem þér þykir gaman að gera-  við erum glöð og hamingjusöm þegar við gerum eitthvað sem skiptir okkur máli og okkur finnst gaman að gera. Finndu þér eitthvað sem fellur að þessari skilgreiningu bæði í vinnunni og utan hennar

Hugsaðu um aðra- hrósaðu samferðarmönnum þínum, vertu notaleg(ur) og hlustaðu. Þetta eru engin geimvísindi. Athuganir hafa leitt í ljós að fólki líður sjálfu betur þegar það hefur hjálpað öðrum til að líða vel. Settu þér að vera þannig að fólki líði vel í samskiptum við þig.

Ræktaðu vináttuna-  ætlaðu maka þínum, vini eða fjölskyldu sérstakan tíma daglega. Þeir sem hafa rannsakað mannfólkið og líðan þess segja einum rómi að hamingjusamasta fólkið eigi traust og gott samband við einhvern annan.

Hugsaðu um líkama þinn-  nei, þú þarft ekki að spá í að líkamsfitan sé 3% eða að þú getir gert einhverjar stórbrotnar þrekæfingar. Að hugsa um líkama sinn snýst fyrst og fremst um það að borða hollan mat að minnsta kosti þrisvar á dag og hreyfa sig daglega í að minnsta kosti hálftíma.

 

 

Heimildir 

SHARE