Hverjir eiga helst á hættu að fá slitgigt?

Slitgigt er sjúkdómur í liðamótum sem flestir fá þegar aldurinn færist yfir. Átta af hverjum tíu sem náð hafa fimmtugsaldri eru með slitgigt. Hún hefst með því að brjóskið í liðunum þynnist og eyðist að lokum alveg. Samtímis því bólgnar liðpokinn og vökvinn í liðnum eykst en við það gildna liðamótin. Slitgigt getur ráðist á alla liði en algengust er hún í hryggjarliðum, höndum og fótum, ekki síst í mjöðmum og hnjám.

Hvernig finnur maður fyrir slitgigt?

Á byrjunarstigi slitgigtar finnur fólk fyrir minniháttar óþægindum og eymslum sem aukast eftir því sem sjúkdómurinn ágerist.
Einkennin eru greinilegust þegar fólk hreyfir sig úr kyrrstöðu, þegar það hyggst beita höndinni, stendur upp úr stól eða rís úr rekkju að morgni.
Þegar fólk er komið í gang og liðamótin eru farin að hitna dregur úr eymslunum. En þegar fólk ætlar að slaka aftur á koma verkirnir að nýju og þá gjarnan hálfu verri.

Sjá einnig: Vefjagigt, hvað er nú það?

Hverjir eiga helst á hættu að fá slitgigt?

Þeir sem hafa fundið fyrir sársauka í liðamótum sem börn eða orðið fyrir beinbroti nærri stóru liðamótunum fá slitgigt fyrr en aðrir.
Feitt fólk sem ofgerir liðamótum sínum árum saman með álagi vegna þyngdar.
Mikil erfiðisvinna flýtir einnig fyrir slitgigt.

Hvernig er slitgigt meðhöndluð?

Í vægari tilvikum geta lyf dregið úr verkjum, en þegar þau hætta að virka verður fólk að leita læknis sem ákveður hvort ástæða sé til skurðaðgerðar. Aukið langlífi og bætt tækni við skurðaðgerðir hefur hert á kröfum til sjúkrahúsa um að skipta um mjaðma- og hnjáliði. Þegar verkirnir eru orðnir daglegt brauð eykst áhugi fólks á að gangast undir slíkar aðgerðir.
Slitgigt í hnjám og mjöðmum getur valdið fólki miklum erfiðleikum í daglegu lífi. Það hættir að geta sinnt vinnu sinni, getur ekki stundað útivist og líkamsrækt og neyðist jafnvel til að gefa tómstundaiðjuna upp á bátinn.
Algengt er að fólk finni fyrir verkjum allan sólarhringinn. Hvort sem það er mjaðma- eða hnjáliður sem er ónýtur þá er honum skipt út og í staðinn komið fyrir gervilið með skurðaðgerð. Svo til strax eftir aðgerðina hefst endurhæfing sem beinist að því að endurheimta fyrri vöðvastyrk og læra að lifa með nýja liðinn. Talið er að gerviliðir endist í allt að tuttugu ár.

Hvernig er slitgigt sjúkdómsgreind?

Röntgenmynd sýnir glöggt hvort slitgigt sé að hefjast. Oft er þó lítið samræmi milli verkjanna sem fólk finnur og þess hversu greinilega slitgigtin sést á röntgenmynd. En það eru verkirnir sem fólk finnur og hreyfihömlunin sem fylgir þeim sem staðfestir að um slitgigt sé að ræða.

Framtíðarhorfur

Þrátt fyrir stórstígar framfarir og aukna möguleika á því að skipta um liði eru þeir því miður fjölmargir sem þurfa að þola stöðugar kvalir af völdum slitgigtar. Þeir sem haldnir eru þessum erfiða sjúkdómi ættu samt að vera í reglulegu sambandi við lækni og fá hjá honum upplýsingar um nýjar aðferðir og lyf sem geta degið úr kvölunum og gert lífið bærilegra.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á 

SHARE