Áður fyrr var komið illa fram við geðveika, talið var að þeir væru haldnir illum öndum, þeim var misþyrmt, þeir voru lokaðir inni í búrum og útskúfaðir úr mannlegu samfélagi og jafnvel voru dæmi um að þeir væru pyntaðir til bana. Þetta stafaði að verulegu leyti af ótta við hið óþekkta, fólk hræddist undarlega hegðun sumra geðveikra og kirkjunnar menn kyntu undir með hugmyndum um að illir andar hefðu tekið sér bólfestu í þessum sjúklingnum. Þessu til viðbótar kom algert ráðaleysi lækna gagnvart alvarlegum geðsjúkdómum, menn höfðu einfaldlega engin úrræði til lækninga. Menn hafa alltaf óttast hið óþekkta, sem er á vissan hátt skiljanlegt, en fordómar í garð annarra eru óafsakanlegir. Fordómar gagnvart geðveikum eru enn til staðar þó að þeir hafi minnkað, og í heiminum er mikið af fordómum gegn fólki sem á einhvern hátt er öðruvísi en fjöldinn á viðkomandi svæði; þar má nefna kynþátt, trúarbrögð og tungumál sem vel þekkt dæmi. Það er talið göfugt og verðugt viðfangsefni að berjast gegn fordómum en samt eru þeir allt í kringum okkur.

Flestir vísindamenn eru þeirrar skoðunar að geðsjúkdómar stafi af truflunum á taugaboðefnum og viðtökum þeirra í heilanum. Í mörgum tilfellum vitum við hvaða boðefni eiga í hlut og getum bætt líðan sjúklinganna með lyfjum sem hafa áhrif á viðkomandi boðefnaflutning. Við vitum líka að margir geðsjúkdómar eru arfgengir. Eftir því sem vitneskja okkar um starfsemi heilans í heilbrigðum og sjúkum vex, aukast möguleikarnir á að finna lyf eða annað sem getur læknað geðsjúkdóma. Það er því enginn munur á geðsjúkdómum og mörgum öðrum sjúkdómum að þessu leyti. Miklar framfarir hafa orðið á þessu sviði á undanförnum árum og áratugum og þær halda áfram.

Sjá einnig: Andleg vanlíðan og líkamlegir verkir

Eitt af því sem hrjáir sumt fólk er ofsóknarkennd (á erlendum málum paranoia), sem einnig er kölluð ofsóknaræði, ofsóknarárátta eða sjúkleg tortryggni. Þetta getur verið á ýmsum stigum, allt frá því að vera viss persónuleikagerð eða persónuleikatruflun yfir í það að vera hluti af alvarlegum geðsjúkdómum. Það sem einkennir ofsóknarkennd er að viðkomandi einstaklingur er stöðugt tortrygginn gagnvart öðrum og óttast að þeir skaði sig, hann er haldinn afbrýðissemi, hann er langrækinn, hann mistúlkar orð og gerðir annarra sem fjandsamleg í sinn garð og hann á erfitt með að mynda náin tilfinningatengsl við aðra. Talið er að þetta hrjái 0,5-2,5% fólks. Í sumum tilvikum þegar karlmenn misþyrma eiginkonum, sambýliskonum eða unnustum sínum, liggur rót vandans í ofsóknarkennd. Þeir sem eru haldnir ofsóknarkennd gera sér sjaldnast grein fyrir því að eitthvað sé að og þegar ástandið er á háu stigi hafa þeir iðulega ranghugmyndir um eigið ágæti. Ofsóknarkennd getur fylgt ýmsum alvarlegum sjúkdómum í miðtaugakerfinu og má þar nefna ýmiss konar sturlun (psychosis), geðklofasýki, þunglyndi og Alzheimers sjúkdóm. Aldraðir geta þjáðst af ofsóknarkennd þó að ekki sé um Alzheimers sjúkdóm að ræða. Í sjaldgæfum tilfellum kemur ofsóknarkennd sem aukaverkun lyfja. Í sinni verstu mynd lýsir ofsóknarkennd sér þannig að sjúklingnum finnst allt umhverfið vera eitt allsherjar samsæri gegn sér, ef hann sér fólk á tali er hann sannfærður um að það sé að brugga sér launráð, hann fær hótanir í fjölmiðlum, reynt er að eitra fyrir honum, fjölskyldan situr um líf hans og sömuleiðis ríkisstjórnin og jafnvel geimverur. Slíkum sjúklingi líður að sjálfsögðu mjög illa og hann þjáist mestan hluta sólarhringsins.

Á vægu stigi þarf ofsóknarkennd ekki að trufla líf fólks mjög mikið, það getur oftast sinnt sínu starfi en hætt er við erfiðleikum í samskiptum við maka, fjölskyldu og vini. Á alvarlegri stigum er ofsóknarkennd oftast eitt af einkennum sjúkdóms í miðtaugakerfi og þá er mikilvægt að greina þann sjúkdóm og gefa viðeigandi meðferð. Meðferðin getur verið viðtalsmeðferð, lyf eða blanda af þessu tvennu.

 

SHARE