Hvers vegna verðum við of feit?

Þeim Íslendingum sem eru of þungir fjölgar stöðugt og of feitt fólk verður sífellt feitara.

Nýlega var gerð rannsókn þar sem skoðaðar voru breytingar á tíðni offitu og ofþyngdar meðal 45-64 ára Reykvíkinga 1975-1994.

Á tímabilinu jókst hlutfall of feitra karlmanna á aldrinum 45-54 ára úr 45,8% í 53,6 % og 55-64 ára karlmanna úr 46,2% í 52,5 %. Hlutfall of feitra kvenna á sama aldri jókst úr 29,0% í 39,0% í yngri hópnum og úr 34,2% í 45,5% í eldri hópnum.

Sjá einnig: Offita og yfirþyngd á Íslandi

Tíðni offitu jókst einnig á þessu tímabili. Meðal yngri karla jókst tíðni offitu úr 10,4% í 19,2% og í eldri hópnum úr 11,7% í 16,7%. Meðal yngri kvenna jókst tíðnin úr 8,6% í 14,6% og frá því að vera 11,2% árið 1975 í að vera 24,5% árið 1994.

Samkvæmt niðurstöðunum voru um það bil 70% karlmanna í báðum aldurshópum annað hvort of feitir eða of þungir og um það bil 53% kvenna í yngri hópnum.

Einnig var nýlega gerð rannsókn á holdarfari 9 ára skólabarna á Íslandi. Náði rannsóknin yfir tímabilið 1938-1998. Á þessu tímabili jókst hlutfall of þungra stúlkna úr 3,1% í 19,7% og of þungra drengja úr 0,7% í 17,0%. Tíðin offitu jókst að sama skapi úr 0,4% í 4,8% meðal stúlkna og úr 0,0% í 4,8% meðal drengja. Þróunin er mjög hröð síðustu áratugina.

Sjá einnig: Matarfíkn er sjúkdómur

Sömu þróunar hefur orðið vart í öðrum löndum og hefur hún leitt til þess að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) skilgreinir offitu sem faraldur er nær til alls heimsins.

Og ekkert bendir til þess að þessi þróun sé að snúast við. Öðru nær!

Hverjar eru ástæður aukakílóanna?

Aukakíló og offita stafa af því að meðalorkuneysla er hærri en sem nemur meðalorkuþörf, mælt yfir langan tíma.

Eftir því sem þyngdin eykst hækkar orkuþörfin. Það er nefnilega ekki aðeins fita sem bætist á líkamann heldur er hluti aukinnar þyngdar til kominn vegna líffæra og vöðva sem brenna orku.

Eftir því sem við fitnum meira eykst fitubrennslan einnig. Fita úr fituforða líkamans losnar út í blóðrásina; því stærri sem fituforðinn er þeim mun meiri fita fer út í blóðið, og því meiri fita sem er í blóðinu þeim mun meiri fitu brennum við.

Nýtt jafnvægi næst með auknum líkamsþunga þegar orkunotkun og fitubrennsla hefur aukist í sama hlutfalli og orka og fita í fæðunni.

Það þarf lítið út af að bregða til að raska jafnvæginu milli orkuneyslu og orkunotkunar og við slíka röskun fitna sumir. Nokkrum kalóríum of mikið á hverjum degi, mánuðum eða árum saman, getur orðið að mörgum aukakílóum á endanum. Þetta snýst um hárnákvæmt jafnvægi sem við getum með engu móti stjórnað með viljastyrknum einum saman.

Margir mismunandi lífeðlisfræðilegir þættir hafa áhrif á þessa stjórnun til lengri tíma og valda því að sumum hættir fremur til að fitna en öðrum. En sem betur fer höfum við ýmsa möguleika til að bregðast við þessu á náttúrlegan hátt, þannig að við höldum réttri líkamsþyngd án þess að svelta eða lifa meinlætalífi.

Erfðir og umhverfi

Það er samspil arfbundinnar hneigðar og vissra umhverfisþátta sem veldur því að fólk þyngist of mikið.

Sú mikla aukning sem orðið hefur á offitu meðal Íslendinga á síðastliðnum áratugum stafar af breytingum í samfélaginu og lífsmáta okkar – ekki síst mataræðinu – og því hvernig við hreyfum okkur. Þessir breytingar eiga sök á því að þægilegasti lífsmátinn er jafnframt sá sem veldur því að við innbyrðum meiri orku og notum minni orku.

Matur er ódýrari en hann var, einkum feitur matur. Stórmarkaðir, sjoppur og matsölustaðir eru á hverju götuhorni og girnilegur, feitur matur alls staðar aðgengilegur.

Nútímafólk á Íslandi er yfirleitt ekki háð líkamlega erfiðri vinnu til að framfleyta sér. Flestir vinna kyrrsetustörf.

Það er ekki einu sinni nauðsynlegt að hreyfa sig í frítímum. Bílar og almenningssamgöngur valda því að við þurfum ekki að reyna á kraftana. Þörf okkar fyrir spennu og hraða svölum við með því að horfa á sjónvarp eða myndbönd, leika okkur á Netinu eða í tölvuleikjum.

Við þurfum ekki að hreyfa okkur út úr húsi til þess að fá félagsskap. Símar, farsímar, tölvupóstur og spjallrásir sjá fyrir því.

Arfbundnar hneigðir

Sumir fitna mikið, aðrir dálítið og enn aðrir fitna alls ekki, þó svo að lífsvenjur séu hinar sömu með tilliti til mataræðis og hreyfingar. Það er vegna þess að hjá sumum er það „í ættinni“ að fitna en hjá öðrum ekki.

Arfbundin hneigð til að fitna kemur fram í verri orkunýtingu (m.a. hægari efnaskiptum í hvíld) og skertri hæfni til að brenna fitu (og þar með tilhneigingu til að safna fituforða). Erfðir hafa áhrif á ótalmarga og mismunandi lífeðlisfræðilega þætti sem ráða heildarnýtingu orkunnar, fitubrennslunni og stjórnun matarlystar og þar með því hvort við fitnum eða ekki.

Fólk sem er of feitt og er ákveðið í að grenna sig, hefur marga möguleika til að ná kjörþyngd og halda henni, með því að notfæra sér megrunarkúra, breytt mataræði, hreyfingu, lyf og sálfélagslegan stuðning.

Það er síðan stjórnvalda að stuðla að þeim samfélagslegu breytingum sem geta snúið þróuninni við. Til þess þarf pólitískar ákvarðanir, sem m.a. auðvelda aðgang fólks að rétt samsettri fæðu og gera fólki kleift að iðka holla hreyfingu sem hluta af daglegu lífi sínu.

Fræðsla er mikilvæg en dugir ekki ein sér. Fleiri kennslustundir í íþróttum í grunn- og framhaldsskólum, tölvuleikir barna þar sem líkamleg áreynsla er nauðsynleg, hollari matur í mötuneytum, áskorun til matvælaframleiðenda um betra skyndifæði, borgarskipulag sem gerir ráð fyrir hjólandi og gangandi vegfarendum, aðstaða til líkamsræktar á vinnustöðum o.s.frv.

Með aukinni fræðslu má fá hvern og einn til að vanda valið betur, en þó aðeins miðað við þá möguleika sem þjóðfélagið og umhverfið bjóða upp á.

Með pólitískum ákvörðunum stjórnvalda má breyta umhverfinu þannig að rétti kosturinn sé jafnframt sá sem auðveldast er að velja – eða að minnsta kosti auðveldara en nú er.

 

Sjá fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

SHARE