Elísabet Guðrúnardóttir er að missa húsnæði sitt um mánaðarmótin. Hún hefur búið í 12 ár á Álftanesi með börnum sínum tveimur. Í samtali við Hún.is sagði hún: „Ég  hafði verið eigandi íbúðar í mörg ár þangað til í fyrra. Ég hafði misst úr 3 greiðslur af íbúðinni og þá fór Íbúðalánasjóður beint í það að kaupa íbúðina undan mér. Þeir fengu íbúðina á 10 milljónir á sama tíma og lánið mitt á íbúðinni stóð í 26 milljónum.“ Greiðslubyrðin á mánuði af íbúðinni var um 220.000 krónur á mánuði en inni í því voru fasteignagjöld, hiti, rafmagn og hússjóður en íbúðin er 2ja herbergja.

 

Fyrir utan hversu stuttan tíma það tók að missa íbúðina, segir Lísa að hún hafi ekki fengið neinar viðvaranir. „Þeir hjá Sýslumanni eru skyldugir til að senda fólki 3 bréf til þess að vara við svona aðgerðum og ég fékk ekkert af þessum bréfum. Þegar ég spurði af hverju ég hefði ekki fengið bréfin frá þeim, bentu þeir bara á Póstinn og sögðu að þeir sæju um að flytja póstinn þeirra.“

 

Sjá einnig: „Reiðin eyðilagði allt sem ég snerti“

Lísa, eins og hún er kölluð, hefur verið að leita sér að íbúð núna á Álftanesi og segir hún að það sé alls ekki auðvelt að finna íbúð, sem hún ræður við að borga af og nú sé hún komin í ákveðið þrot.  „Mig langar auðvitað að halda börnunum í sínum skóla þar sem þau hafa fest rætur, en ég hef leitað allsstaðar. Ég er búin að setja inn auglýsingar á allar Facebook síður sem mér datt í hug og á fleiri síður á netinu sem gott er að auglýsa á og fæ lítil viðbrögð.“

 

Þar sem Lísa er einstæð móðir segir hún að það sé ekkert grín að ná endum saman. „Ég er að fá svona 250 þúsund krónur í peningum á mánuði. Það þarf að duga fyrir leigu og öllu öðru tengdu börnunum, sem eru bæði á grunnskólaaldri. Þetta dæmi gengur bara alls ekki upp. Ég leitaði til Garðabæjar en þeir geta ekkert hjálpað mér. Mér fannst það þung skref að fara til þeirra og óska eftir hjálp en svo fannst mér þetta enn erfiðara þegar í ljós kom að þeir gátu ekkert gert.“

 

Eins og staðan er núna er Lísa að fara að verða heimilislaus um mánaðarmótin og segir að þessi staða hennar hafi tekið mikinn toll af henni. Ástandið á leigumarkaði og leigumarkaðsverð er komið upp úr öllu valdi og það bitnar mest á þeim sem hafa minnst á Íslandi í dag.

 

 

SHARE