Íslenskar druslur sofa hjá ímynduðum drengjum

Flestir hafa séð greinina sem birtist í Fréttablaðinu fyrr í dag eða umræðu í kringum hana.
Ég rakst á þessa frábæru og kaldhæðnu frásögn í Akureyrarvikublaðinu sem Sóley Björk Stefánsdóttir skrifaði og mátti til með að deila því áfram.

,,Í Fréttablaðinu í morgun er sagt frá því að yfirlæknir á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans efist um að Íslendingar smitist frekar af klamydíu en fólk í öðrum Evrópulöndum – hins vegar séu hlutfallslega fleiri klamydíusmit greind hér á landi en í öðrum Evrópulöndum vegna þess að hér sé eftirlit betra en í samanburðarlöndunum.
Í fréttinni kemur fram að klamydían herji á stúlkur en þær séu einnig mikið að glíma við kynfæravörtur. Stúlkurnar séu jafnvel með króníska klamydíu án þess að vita af því. Stúlkurnar geta í kjölfarið orðið gríðarlega óhamingjusamar því klamydía getur leitt til ófrjósemi.
Hvergi í umfjölluninni – hvorki á forsíðu, síðu sex eða í innskotboxunum er minnst á stráka. Sex sinnum er talað um stúlkur, sex sinnum er talað um konur, þrisvar er talað um ungmenni, þrisvar um ungt fólk og einu sinni um Íslendinga.
Ég spyr: Hjá hverjum eru allar þessar íslensku dömur að sofa? Og gera þær sér grein fyrir skaðanum sem þær eru að valda með því að vera að smitast svona af klamydíu?
Það er víst ekki vanþörf á því að minna á að Drusluganga verður gengin frá Akureyrarkirkju á laugardaginn kl. 14!”

Sóley Björk Stefánsdóttir

SHARE