Leikarinn Tómas Lemarquis tók sig vel út á rauða dreglinum í London þegar kvikmyndin X-Men: Apocalypse var frumsýnd í byrjun vikunnar.

Tómas fer með hlutverk í myndinni og er þetta stærsta verkefni hans til þessa. Hann fer með hlutverk Caliban sem er stökk­brigði sem hef­ur þann hæfi­leika að geta skynjað önn­ur stökk­brigði og numið staðsetn­ingu þeirra.

Stórstjarnan Jennifer Lawrence var að vanda glæsileg þegar hún spókaði sig í London.

Tökur á myndinni fóru fram í Montreal á síðasta ári og var Tómas umkringdur stjörnum við gerð myndarinnar. Bryan Singer leikstýrir myndinni og beitti hann nýjust 3D-tækni við tökurnar. Þá eru aðalleikararnir ekki af verri endanum; þau Jennifer Lawrence, James McAvoy og Michael Fassbender.

Tómas var staddur í útlöndum þegar amk náði tali af honum í gær og baðst undan viðtali. Hann sagði í samtali við mbl.is í fyrra að það hefði verið „æðislegt“ að vinna með Bryan Singer og neitaði því ekki að spennandi væri að vinna meira í Hollywood. „Aldrei að vita hvort það komi fleiri X-Men mynd­ir, þetta er ein af mestu mjólk­ur­kúm Hollywood,“ sagði Tómas þá en samkvæmt upplýsingum amk hefur hann nú komið sér vel fyrir í borg englanna og er með mörg spennandi verkefni á teikniborðinu.

Fréttin birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE