Kynjafræðiáfangi – Klám, kynbundið ofbeldi og fleira

ATH. Þessi grein er aðsend, í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is.

Í Verkmenntaskóla Austurlands á vorönn þessari var stofnaður nýr áfangi, Kynjafræði 103 og ég ætla að skrifa um þann áfanga. Í áfanganum eru tveir kennarar, Margrét Perla Kolka Leifsdóttir og Ingibjörg Þórðardóttir. Í fyrstu viku vorannar fengum við kynningu um áfangan, um hvað við værum að fara að læra og hvernig þessi áfangi gæti gagnast okkur. Ég ætla hér að fjalla um það sem ég hafði mestan áhuga á í þessum áfanga og það helsta sem ég lærði í þessum áfanga.

Markmið áfangans er að vekja nemendur til vitundar um stöðu kynjanna í samfélaginu, orsakir og afleiðingar kynjaskekkjunnar, að nemendur geti bæði skoðað sitt persónulega líf út frá kynjasjónarmiðum og ekki síður frá samfélagslegu sjónarhorni, að nemendur skoði helstu birtingarmyndir ójafnréttis í samfélaginu á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi.
Námsmatið finnst mér mjög skemmtilegt, nemendur þurfa að skila inn dagbók vikulega og svo er safnmöppu skilað í annarlok. Facebook hópur var stofnaður og nemendur þurfa að vera virkir þar að setja inn greinar og skrifa ummæli við greinar frá öðrum. Aðeins eitt próf var í áfanganum en það fólst í því að skilgreina hugtök tengd kynjafræði.

Í heilar þrjár vikur lærðum við um klám og klámvæðingu. Næstu þrjár vikur eftir að hafa lært um klám, klámvæðingu og erótík lærðum við um stjórnmál og völd. Ég, persónulega, hef ekki mikinn áhuga á stjórnmálum nema þá að líta á þau í gegnum kynin og mál sem tengjast ofbeldi eða minnihlutahópum. Völd í stjórnmálum og fjölmiðlum kom mér þó á óvart. Það eru miklu fleiri karlmenn í stjórnmálum og fjölmiðlum, ég tek til dæmis útvarpsstöðina FM957, þar vinna sautján karlmenn og þrjár konur.

Í þrjár vikur eftir stjórnmála og valda fræðslu lærðum við um staðalímyndir. Samkvæmt Jafnréttisstofu eru staðalmyndir eða staðalímyndir fyrirfram ákveðnar hugmyndir um útlit og/eða eiginleika fólks sem tilheyrir ákveðnum hópi eða stétt innan samfélagsins, eins og hvernig það á að hegða sér og hvaða störf eru við hæfi þess. Sumar staðalímyndir hafa neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna og samkvæmt 1. Gr. jafnréttislaga 10/2008 á að vinna gegn þeim.
Vændi og mansal var næst á dagskrá. Við horfðum á brot úr mynd sem heitir Human trafficing, þar sem sett var upp dæmi um mansal, t.d ungar stúlkur sem voru lofað fyrirsætubransa, en svo var það nú ekki fyrirsætubransi, heldur vændi.
Við lærðum einnig um samkynhneigða og transfólk og að lokum um kynbundið ofbeldi.
Kynhneigð fólks ákvarðast af því hvort það hrífist kynferðislega af körlum eða konum og hvors kyns einstaklingurinn sjálfur er.
Á íslensku tölum við um gangkynhneigð, samkynhneigð og tvíkynhneigð.
Aðrar flokkanir á kynhneigðum eru til, en engin þeirra hefur náð að festa rætur í vestrænni menningu.
Við lærðum um fordóma gagnvart kynhneigð og alskyns staðalímyndir einnig.

Ég hef fengið mikið útúr kynjafræði, ég hef lært mikið og lít öðruvísi á alskyns hluti og hugtök sem við höfum lært um í þessum áfanga. Það getur verið erfitt í þessum tímum, andlega að setja sig í spor þeirra sem verða fyrir fórdómum, ofbeldi og það sem hefur komið fram í þessum áfanga. En samt sem áður er þetta líka mjög skemmtilegur áfangi, við horfðum á fræðslumyndina „Fáðu Já!“ og var hún bæði sorgleg en einnig mjög fyndin og skemmtileg. Krakkarnir í áfanganum eru skemmtilegir og opnir um það sem er tekið fyrir í tímum, það er mikið um hópverkefni og það þéttir hópinn, allir fá að segja sínar skoðanir og eru þær virtar.

Afhverju ætti þessi áfangi að vera kenndur í fleiri skólum? Ég hef bara skrifað brot úr áfanganum hér, með því að kenna þennan áfanga í fleiri skólum getum við dregið úr ofbeldi á ýmsu tagi, ranghugmyndum sem geta jafnvel leitt til ofbeldis og gert betri manneskjur úr okkur. Þessi áfangi gerir mann mjög skilningsríkan.
Ég vil þakka fyrir þá ákvörðun að hafa þennan áfanga í Verkmenntaskóla Austurlands og þakka fyrir góða kennslu og lesningu ykkar.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here