“Lágkolvetna lífstíllinn hentar mér” – Svar við mikilli gagnrýni á lágkolvetna lífsstílinn undanfarið

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er í ristjórn heimasíðunnar innihald.is. Elísabet skrifaði í dag pistil um lágkolvetna lífsstílinn sem hefur mikið verið í umræðunni undanfarna daga. Bókin Lágkolvetna – lífstíllinn hefur verið umdeild og næringarfræðingurinn Steinar B. Aðalbjörnsson skrifaði nýlega pistil þar sem hann gagnrýndi Gunnar, þýðanda lágkolvetna bókarinnar. Nú hefur Elísabet stigið fram og sagt frá sinni reynslu af lágkolvetnakúrnum. Við fengum að birta pistilinn með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

Miklar og harðar skoðanir eru á hinum og þessum lífsstílsbreytingum, jafnvel kúrum ef fólk vill kalla svo. Ég er síðustu 13 ár búin að berjast við aukakíló, búin að reyna margt…mjög margt og hefur það gengið misvel.

Fyrir þremur árum síðan, takið eftir –  áður en Gunnar þýddi lágkolvetnabókina tók ég mig til, þá 120kg og undirlögð af verkjum um allan skrokkinn.  Ég ákvað að taka út allt hveiti og allan sykur og breytti þannig algjörlega um matarræði.  Þetta virkaði mjög vel á mig. Ég léttist hratt og leið mjög vel.

Ég byrjaði svo að lyfta 6 mánuðum síðar, mætti í líkamsrækt 5-7 daga vikunnar og ákvað að fara í það sem telst hollt og gott matarræði, allt er gott í hófi.  Smá saman, þrátt fyrir stífa líkamsrækt þyngdist ég um nokkur kíló. Síðustu tvö ár hef ég verið að rokka til og frá um nokkur kíló.  Ekki náð að létta mig og er það ekki líkamsræktinni að kenna heldur mataræðinu. Í rauninni var ég að reyna mitt besta til að fara eftir hollu og góðu matarræði með litlum árangri.

Ég byrjaði daginn á hafragraut og borðaði á 2-3 tíma fresti, en þar sem ég var að neyta kolvetna í höfrum og ávöxtum þá náði ég ekki að halda blóðsykri mínum í jafnvægi. Það varð til þess að fíknin í kolvetni magnaðist upp og á endanum sprakk ég og borðaði allt sem ég komst yfir.  Þetta er einfaldlega það sem getur gerst hjá fólki eins og mér, kolvetnisfíkn.

Að mínu mati er þetta einfaldlega þannig að lágkolvetnafæði henti sumum en auðvitað alls ekki öllum, það er eins með hollt og gott mataræði sem inniheldur jafnvægi próteins, kolvetna og fitu – það hentar sumum en alls ekki öllum.  Í mínu tilfelli hentar það mataræði mér ekki, ég er búin að reyna það og gefa því marga sénsa.

Hér áður fyrr lifði fólk góðu lífi á próteini (kjöti, fisk og egg) og fitu (rjómi og smjör). Það var ekki öll þessi unna matvara, ekkert pasta, endalaust af brauði eða kexpakkar flæðandi út úr heimilisskápunum.  Það voru ekki heldur ávextir ekki nema kannski epli og appelsínur á jólunum.  Ávextir eru hollir fyrir flesta, en í sumum ávöxtum er mjög hátt hlutfall ávaxtasykurs sem flokkast sem kolvetni og því kallar það á meiri kolvetni hjá þeim sem eru kolvetnisfíklar eins og ég.

Fyrir 30-40 árum var offita barna á Íslandi mjög lítil, skoðið bara gamlar skólamyndir, ljósmyndir af forfeðrum okkar. Lágkolvetnafæðið er mjög svo líkt því fæði sem amma mín og afi borðuðu, fæða sem inniheldur mikið magn af próteini og fitu.

Núna í febrúar á þessu ári tók ég mig aftur til, tók út allt hveiti og allan sykur, ég er núna 13kg léttari (tæplega 30kg síðan 2009) og gengur miklu betur.  Það er bara staðreynd að þetta mataræði hentar mínum matarfíkilspúka. Að borða kolvetni í lágmarki er það sem drepur niður kolvetnisfíknina hjá mér.  Um leið og ég leyfi mér kolvetni þá kemur fíknin einum til tveim tímum síðar, trúið mér það er mjög erfitt að berjast við þá fíkn.  Það eru nefnilega freistingar í mat alls staðar.

Margar eru skoðanirnar hjá hinum ýmsu fræðimönnum og/eða líkamsræktarfrömuðum.  Er ekki bara spurning um að leyfa fólki að finna út hvað hentar hverjum og einum og virða þeirra ákvörðun? Það getur enginn sagt við mig að lágkolvetna mataræði henti mér ekki og ég eigi ekki að vera á því. Ég er búin að reyna margt annað og þetta er það mataræði sem mér líður best á og ég er að léttast og það er náttúrulega bónusinn minn.

Mér þykir því miður þegar fólk eins og Steinar B. nánast drullar yfir ákveðna lífsstílsbreytingu, ekki ætla ég að fara út í það að drulla út þá lífsstílsbreytingu sem hann er að „selja“  því ég trúi því að  það er ekkert eitt rétt né rangt í þessu eins og mörgu öðru. Við erum misjöfn og hver og einn verður að finna sína leið. Auðvitað er lágkolvetnafæði ekki það eina sem virkar en það er nokkuð ljóst að það virkar fyrir marga og þekki ég t.d. sykursjúka einstaklinga sem þetta mataræði er að henta svakalega vel.

Auðvitað er það svo að fólk með læknisfræðilega og/eða líffræðilega kvilla á að sjálfsögðu að leita til læknis áður en það fer í stórkostlegar breytingar á sínu lífi. Það gildir hvort sem fólk ætlar að fara eftir lágkolvetnalífsstílnum, neyta mikið magns af fæðubótaefnum, fara að stunda líkamsrækt eða annars konar lífstílsbreytingu.

Virðum ákvarðanir annarra án þess að dæma, eitt virkar fyrir suma og annað fyrir aðra.

Hér getur þú séð pistilinn inn á Innihald.is.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here