Hun.is frétti af 28 ára gamalli stúlku, menntuðum sjúkraliða og sjúkraflutningamanni með EMT réttindi á sjúkrabíl. Hún var greind með einhverfu og vann þá við heimahjúkrun, eftir að hún kom opinberlega fram og sagði frá sjúkdómi sínum var hún rekin úr starfi, vinnuvernd hefur dæmt þetta sem einelti og Bryndís Gyða fékk að heyra í Láru Kristínu Brynjólfsdóttur

 

Segðu mér svolítið frá líðan þinni.
Ég var  alltaf  illa haldin af kvíða, þráhyggju, þunglyndi og áráttuhegðun. Líklega hafði ég öll merki þess að vera einhverf – en vanþekking á einhverfu áður fyrr var gríðaleg og því voru margir sem fengu ekki greiningu. Ég átti ekki marga vini og varð lögð í einelti líklega vegna þess að ég hafði lélegan  skilning á samskiptareglum samfélagsins.

 

Hvað varð svo til þess að þú fékkst greiningu?
Ég snéri mér til DV og sagði þar sögu mína af því að fagmenn á Landspítanum neituðu mér um athugun á því hvort ég væri með einhverfu. Áður hafði ég verið greind þar með ýmiskonar sjúkdóma sem ég var ekki með. En þegar viðtalið birtist fékk ég greiningu á Greiningar- og Ráðgjafarstöð ríkisins og þá kom Landspítalinn líka að málinu og hjálpaði til og hefur veitt mér viðeigandi meðferð.

Varstu vör við einhverjar breytingar hjá samstarfsfólki þínu þegar þú hafðir verið greind?
Já, ég get ekki sagt annað.  Ég heyrði að ég væri athyglissjúk og jafnvel töluðu einhverjir um mig og vanda minn við sjúklinga mína. Þetta var farið að valda yfirmanni mínum erfiðleikum og endaði með því að mér var sagt upp. Ég hafði þó leyst störf mín vel af hendi og þótti dugleg. En líklega var talið betra að reka þann sem varð fyrir eineltinu en alla hina sem beittu því.

Geturðu sagt okkur eitthvað um einhverfu?
Einhverfa er fötlun en ekki sjúkdómur. Það er ekki hægt að lækna einhverfu en lyf eru notuð með góðum árangri til að draga úr ýmsum einkennum hennar. En það er ekki lækning!  Ég á erfitt með samskipti við vini og ættingja, er kvíðin, er með þráhyggju og flest vandamál sem fylgja einhverfu.  Heili minn starfar einfaldlega  öðruvísi en heili annarra. Mér finnst mjög erfitt að vera í hávaða, í björtum ljósum eða innan um marga og vera í þröngum fötum, svo að ég nefni eitthvað af vandkvæðum tilveru minnar.

Hvað viltu segja að lokum?
Ég sagði frá vanda mínum í DV í vor og í ágúst var ég rekin. Þó var ekki sett út á vinnubrögð mín. Ég er einfaldlega einhverf.

 

Er það eðlilegt að Lára hafi verið rekin úr vinnu eftir að hafa greint frá fötlun sinni? Hefur hún ekki rétt á að sinna vinnu sinni eins og aðrir og gera það vel?

SHARE