Þetta pizzabrauð er einfalt og alveg ægilega ljúffengt. Það er um að gera að skella í eitt svona núna þegar jólaundirbúningurinn er í hámarki. Uppskriftin er fengin af Eldhússögum.
Sjá einnig: Jólatrésbrauð
Ljúffengt pizzabrauð
- 2 bréf þurrger (11.8 g bréfið)
- 1 tsk hunang eða sykur
- 3 dl volgt vatn
- 1 tsk salt
- 2 msk olía
- 8-10 dl hveiti
Fylling:
- 2-3 dl góð pizzasósa
- 200 g pepperóni
- ca. 300 g rifinn ostur
- 2 mozzarellakúlur (120 g stykkið)
- heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum eða annað gott krydd
Gerið er leyst upp í volga vatninu ásamt hunangi eða sykri þar til blandan byrjar að freyða, tekur ca. 10 mínútur. Hveiti og salti blandað saman við olíuna. Um það bil helmingnum af þessari blöndu er bætt út í gerblönduna og unnið með hnoðkrók í vél eða í höndum. Smátt og smátt er hveitiblöndunni bætt saman við og hnoðað þar til deigið hefur fengið passlega áferð, hvorki of blautt eða of þurrt. Þá er blautur klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Því næst er deiginu skipt í tvennt og hvor helmingur fyrir sig flattur út í rétthyrning, ca. 25 x 40 cm.
Pizzasósunni er dreift á báða helmingana ásamt pepperóni, rifnum osti og niðurskornum mozzarella. Kryddað með góðu kryddi, t.d. heitu pizzakryddi, oregano og/eða basiliku. Þá er pizzunum rúllað upp frá langhliðinni og þær lagðar á ofnplötu klædda bökunarpappír. Rúllurnar eru penslaðar með vatni eða olíu og kryddaðar með saltflögum, pizzakryddi eða oregano. Rúllurnar látnar hefast í 30 mínútur. Ofn hitaður í 200 gráður og rúllurnar bakaðar í 30-35 mínútur.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.