Við birtum í gær myndband af harkalegri handtöku í miðbæ Reykjavíkur. Margir hafa gagnrýnt handtökuna og nú hefur verið greint frá því að ríkissaksóknari muni skoða málið. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf út tilkynningu í gær sem við birtum ásamt myndbandi af handtökunni.
Dv.is greindi frá því fyrr í dag að lögreglumaðurinn sem handtók konuna á myndbandinu hafi áður brotið af sér í starfi sínu sem lögreglumaður. Samkvæmt DV hefur lögreglumaðurinn áður verið til rannsóknar vegna brota í starfi. Árið 2011 ók unnusta hans á ungan dreng og afturkallaði maðurinn aðstoð lögreglu en annar lögreglumaður hafði tilkynnt um atburðinn í neyðarlínu 112.
“Nóttina eftir áreksturinn var drengurinn með mikil uppköst og síðar kom í ljós að hann var með heilahristing.” – Segir í frétt DV um málið.
Árið 2010 hafði sami lögreglumaðurinn reynt að hafa áhrif á aðra lögreglumenn eftir að kærasta hans var stöðvuð fyrir ölvunarakstur. Maðurinn krafðist þess ítrekað að málið yrði látið niður falla en varð ekki að ósk sinni og fékk alvarlegt tiltal og aðvörun.
Eftir atburðinn og birtingu myndbandsins hefur lögreglumaðurinn verið leystur undan vinnuskyldu meðan ríkissaksóknari fer yfir málið.
Þú getur séð myndbandið hér.