“Mér var nauðgað af samstarfsmanni, ég þurfti að hætta í vinnunni en hann hélt sinni.”

Síðastliðið vor útskrifaðist ég úr menntaskóla og var að leita að vinnu. Ég hafði ekki hugmynd um hvar ég ætti að reyna fyrir mér. Mig langaði að fara í nám í mannfræði en fann ekki vinnu sem gæti tengst því námi.

 

Ég hafði heyrt um tilboð Disney handa menntaskólanemum frá fólki sem hafði unnið hjá Disney fyrirtækinu og fannst það hljóma vel. Auk annars mátti maður fara í garðana eins og maður vildi, veðrið var gott og þarna fékk ég ráðrúm til að finna mér farveg til framtíðar. Þetta hljómaði vel.

 

Ég fékk vinnuna og fór suður um miðjan ágúst. Þegar búið var að kynna mér allar aðstæður fór ég að vinna á Main Street U.S.A. í Magic Kingdom.

Þegar ég var búin að vinna þarna í þrjár vikur nauðgaði samstarfsmaður minn mér.

 

Það er engin ástæða til að fara út í ítarlegar lýsingar á því sem gerðist og ég ætla bara að stikla á stóru. Við fórum saman í teiti og fórum yfir í íbúðina hans. Ég sagði nei en hann hætti ekki.

 

Í tvo mánuði þagði ég um þetta og sagði herbergisfélögum mínum að kvöldið hafi verið fínt. Satt að segja vissi ég ekki hvað ég átti að hugsa. Fyrst sagði ég við sjálfa mig að þetta hafi allt verið misskilningur, kannski hafi hann ekki heyrt í mér og ásakaði sjálfa mig.  Ég hefði átt að æpa og hrópa, berja hann og hlaupa út. Auðvitað átti maður að berja manninn sem ætlaði að nauðga manni. Var mér þá ekki nauðgað?  

 

Ég reyndi að ræða við hann um hvað gerðist þarna um kvöldið og hélt að við myndum geta verið áfram vinir og gleymt þessu. Kannski hélt ég bara að það væri auðveldara að vera vinur nauðgara míns en þurfa að horfast í augu við að hafa verið nauðgað.

 

Þegar ég reyndi að tala við hann sagðist hann hafa verið svo drukkinn þarna um kvöldið að hann myndi ekki eftir neinu. Ég trúði honum ekki og þar með hættum við að ræða saman. Ég varð þó að eiga samskipti við hann í vinnunni og var sífellt minnt á að ég ynni á ánægjulegasta stað á jörðu. Mér leið mjög illa og grét mikið og oft óskaði ég þess að ég myndi slasast nægilega til að geta farið aftur heim – og ég þyrfti ekki að gefa skýringar á af hverju ég hætti.

 

Loskins ákvað ég að tala við einhvern eftir að ég sá til hans í teiti. Hann kom í Halloween teiti til vinkonu minnar og var í gervi óperudraugsins. Ekki bætti búningurinn úr óhugnaðinum að horfa á hann reyna við hverja stúlkuna á fætur annarri og ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að segja starfsfélögum mínum frá því sem hafði gerst.

 

Ég fékk tíma hjá fulltrúa í þjónustuveri starfsfólks hjá Disney og var bjartsýn. Auðvitað hlusta þau á mig. Við erum í Disney, fyrirtækinu sem einbeitir sér að sakleysi barna og hamingju. Varla myndu þetta fyrirtæki vilja hafa mann sem sakaður er um nauðgun í starfsliði sínu?

 

Ég sagði frá því sem gerðist þarna um kvöldið og þjónusutufulltrúinn, sem var kona sagði ekkert og virtist hlusta með samúð. Þegar ég sagði henni að við hefðum drukkið breyttist svipur hennar frá því að sýna samúð í ásökunarsvip eins og hún vildi segja að ég hafi gert mistök. En ég sagði nei við hann hvað eftir annað en hann hlustaði ekki.

 

Loksins sagði fulltrúinn við mig: „Jæja, góða nú ertu búin að læra að vera ekki að flækjast úti með einhverjum strákum um miðjar nætur. Þú veist hvað þeir vilja.“

 

Lestu þetta aftur og við skulum líta á það.

 

Menntaður ráðgjafinn var að gefa í skyn að það væri mér að kenna að samstarfsmaður minn ákvað að nauðga mér og ég hefði ekki átt að láta mér detta í hug að vera nálægt nokkrum manni eftir að dimma tók. Ekki nóg með það. Hún ráðlagði mér líka að ég ætti alltaf að gera ráð fyrir því að hver einasti karlmaður væri nauðgari þar með taldir þeir sem ynnu í Disney World. Samskipti mín við alla karlmenn eftir sólsetur ættu að vera fjandsamleg að öðrum kosti væri það sem gerðist mér að kenna.

 

Ég sagðist telja að nei væri nei jafnt á nóttu sem degi. Þetta fannst henni greinilega of róttækt og ansaði því ekki en hélt áfram að tína til málsbætur fyrir nauðgarann. Hún spurði mig hvaðan hann væri og ég sagði eins og var að hann væri frá Frakklandi. Þá sagði hún að líklega væri hér um menningarmismun að ræða og Frakkar hefðu önnur viðhorf til ástarinnar en við hefðum.

 

Þá varð mér alveg ljóst að þessi kona myndi ekki hjápa mér í þessu máli.

 

Samt sagði ég henni að ég hefði áhyggjur af stúlkunum sem hann væri að reyna við og vissi ekki hvað gera skyldi. Hún hélt greinilega að ég væri afbrýðissöm af því hann skipti sér ekkert af mér og sagði mér að mæta í næsta teiti vel uppfærð og reyna að gera hann afbrýðissaman.

 

“Þú ert falleg og flott og getur áreiðanlega fengið hvaða strák sem er.”

 

Ég varð gjörsamlega klumsa. Af hverju í ósköpunum skyldi ég vilja gera þann sem nauðgaði mér afbrýðissaman? Ef ég nú færi eftir þessu ráði og hann nauðgaði mér aftur myndi mér sennilega vera sagt að ég hefði nú ekki átt að klæða mig á svona kynæsandi hátt.   Ég sagði ekkert, fór og lét ekki sjá mig þar aftur en klagaði framkomu hennar.

 

Næstu daga var ég í taugaáfalli, hringdi loks í foreldra mína og sagði þeim hvað hafði gerst. Þau sögðu mér að tilkynna þetta til stjórnar fyrirtækisins og buðust til að borga undir mig flugið heim. Það varð úr að ég var um kyrrt í viku til viðbótar til að ganga frá málum.

 

Það var jafngott að ég ætlaði mér viku í verkefnið því að það var greinilega ekki hægt að komast að því hvar maður gæti greint frá árás af þessu tagi. Í öllum þeim pappírum sem maður fékk í sambandi við ráðningu hjá fyrirtækinu var hvergi getið um hvert maður gæti snúið sér ef maður yrði fyrir kynferðisárás.

 

Ég reyndi að hringja í allar deildir sem mér gat dottið í hug að myndu fást við mál af þessu tagi en var færð frá einum síma til annars þangað til ég gafst upp og fór í móttökuna í húsinu þar sem ég bjó og spurði vörðinn þar hvort hann vissi hvar maður gæti tilkynnt um nauðgun. Hann sagðist ekki hafa hugmynd um það en lét mig hafa símanúmer í deild sem ég var búin að hringja til. Loksins spurði ég konu sem var næsti yfirmaður minn og hún gat sagt mér hvern ég ætti að tala við.

 

Ég fékk tíma hjá Cheri sem sá um ýmis mál starfsmanna. Hún vildi að ég skrifaði lýsingu á atburðunum, hvað ég gerði og beið eftir viðtalinu. Því miður tók hún enn verr á málum en ráðgjafinn hafði gert.

 

“Svo að þú varst að drekka?”

 

Já, ég er eldri en tuttugu og eins og þá er löglegt að fá sér í glas. 

 

“Af hverju öskraðirðu ekki? Ef herbergisfélagar hans hefðu verið heima hefðu þeir heyrt í þér.”

 

Þakka þér kærlega fyrir frábært innsæi þitt. Eins og ég hafi ekki ásakað sálfa mig nóg fyrir þetta atriði!

“Af hverju ýttirðu honum ekki af þér? Þú sagðir að hann hafi nú ekki verið stór.”

 

 Ég varð stjörf. Ég átti ekki von á nauðgun.

 

“Af hverju hefurðu beðið svona lengi með að segja frá þessu? Ertu ekki bara að klaga þetta núna af því þig langaði að eiga hann fyrir kærasta en hann kærir sig ekkert um þig?”

 

 Farðu til fjandans.

 

“Af hverju hringdirðu ekki strax í lögregluna?”

 

Það er nákvæmlega vegna alls þess sem þú hefur verið að segja við mig. 

 

Réttara er að segja að þetta er það sem ég hugsaði því að ég gat ekki talað fyrir gráti. Mér var tilkynnt að málið yrði athugað og með það fór ég úr viðtalinu og flaug heim.

 

Um það bil viku eftir að ég var komin heim barst mér bréf frá Disney fyrirtækinu. Þar sagði að kæra mín væri í gögnum ráðgjafans. Ég hringdi í skrifstofuna sem sér um samskipti við starfsfólkið og spurði hvar málið væri statt. Mér var sagt að málinu væri lokið en þeir gætu ekki sagt mér hvernig tekið hefði verið á því. Ég hringdi í vinnufélaga minn og spurði hana hvort hún hefði nýlega séð nauðgarann í vinnunni. „Já, ég sá hann í gær og hann virtist hafa það gott.“

 

Alveg finnst mér ólíðandi hvað Disney fyrirtækið tók illa á málum. Hjá þessu fyrirtæki vinna mörg þúsund manns í Orlando. Þar af búa mörg þúsund ungmenni á umráðasvæði Disney undir litlu sem engu eftirliti

 

Þessir unglingar fá engar leiðbeiningar um hvert á að kæra nauðgun og greinilega er enginn í færum til að taka á málum ef einhverjum tekst að koma kæru til skila. Satt að segja finnst mér að framkoma Disney fyrirtækisins sé jafnvel ömurlegri en nauðgarans og ég hef áhyggjur af þeim sem hafa lent þar í svipuðum málum og ég.

 

Síðust níu mánuðir hafa verið ótrúlega erfiðir. Það er ekki auðvelt að gleyma “Disney”. En mér hefur tekist í gegnum allt sem yfir mig gekk og ég stóð undir að öðlast meira sjálfstraust en ég átti áður.

Það er erfitt að biðja alla sem lesa þessa frásögn að hætta að eiga samskipti við fyrirtæki sem er svo ráðandi á afþreyingarmarkaðnum. En ef nógu margir frétta af hvað Disney fyrirtækið tekur illa og ekki á kynferðisglæpum starfsmanna sinna er von til að það myndi móta aðgerðaráætlun um hvernig tekið verður á glæpum af þessu tagi.

 

Þessa grein birti  á síðunni xojane.com og hér getur þú séð upprunalegu færsluna. Okkur fannst greinin til þess fallin að þýða hana og birta okkar lesendum.   Eins og þolendur nauðgana vita er oft mjög erfitt að segja frá ofbeldinu, það er enn erfiðara þegar fólk efast um þig og segir hluti sem fylla þig af sektarkennd sem þú ættir alls ekki að þurfa að hafa. Það skiptir engu máli þó þolendur hafi fengið sér í glas, í hvernig fötum þeir eru eða hvernig þeir haga sér um kvöldið. Það er ENGIN afsökun fyrir nauðgun, ENGIN!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here