ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Mig langar að vera hreinskilin og segja ykkur nákvæmlega hver ég er.

Síðustu mánuði hef ég verið að velta fyrir mér ferlinu sem við förum í gegn um frá því við fæðumst, þar til við höfum fundið hver við erum. Strax við fæðingu er okkur troðið í föt eftir því hvernig kynfæri við erum með. Það er talað um stelpur sem prinsessur og krútt, en stráka sem töffara sem dæmi. Í dag hafa einhver lönd tekuð upp þriðja kynið, og finnst mér það þvílík snilld. Ástæðan er einföld. Það sem við erum með í buxunum á ekki að skipta okkur í flokka.

Hugarástandið skiptir meira máli. Ef manneskju finnst hún ekki í réttum líkama ætti það ekki að hafa jafn mikil áhrif á hana og það gerir. Í dag finnst mér að við eigum að geta verið nákvæmlega þau sem við viljum, án þess að þurfa að „koma út úr skápnum“ varðandi hitt og þetta. Hverjum kemur það við hvoru kyninu þú hrífst af? Jú, auðvitað þeirri manneskju sem þú hrífst af. Ekki ömmu þinni eða frænku, þetta skiptir þær rosalega litlu máli. En eins og heimurinn er í dag verða allir að vita allt opinberlega, annars eru allir hissa á öllu og vita ekkert hvernig þeir eiga að vera. Það er ástæðan fyrir þessum status.

Eftir margra mánaða pælingar í hinu og þessu hef ég áttað mig á því að ég á ekki heima undir flokkunum „kvenkyn“ eða „karlkyn“. Í byrjun þessarar annar í skólanum, í kynjafræðitíma, vorum við beðin um að skrifa stuttan texta um það kyn sem við erum, og hvernig við upplifum það kyn. Ég skrifaði: „Kynið mitt er ég sjálf. Ég er sett í flokk kvenmanns vegna útlits. Ég gæti verið eitthvað allt annað, meira framandi. Enginn myndi vita það því það væri mín upplifun, og enginn sér eða veit mína upplifun.“

Ég, stelpan Steinunn Ósk, er ekki stelpa. En ég er heldur ekki strákur. Hvað þá? Nei, ég er ekki „það“. Ég er einfaldlega „fljótandi persónuleiki“ eins og það myndi kallast á íslensku, eða „gender-fluid“. Einfaldasta skýringin á því væri sú að ef þú tekur ferkantað ílát og setur vatn í það, og hallar því svo á mismunandi vegu, þannig upplifi ég mig. Suma morgna vakna ég og mér finnst ég einfaldlega rosalega karlmannleg. Þá klæði ég mig ef til vill eins karlmannlega og mér hentar. Svo næsta dag vakna ég og hugsa „hvaða bull var þetta í mér í gær, auðvitað er ég bara kvenmaður“ og klæði mig samkvæmt því. Svo koma dagar inn á milli þar sem mér er einfaldlega drullusama. Þá finnst mér ég hvergi eiga heima, en það truflar mig ekki. Ég er bara ég. Mér finnst ég eiga að geta verið bara eins og ég vill án þess að vera að hafa áhyggjur af því að vera sett í flokka. Við erum öll svo mismunandi að það er ekki hægt að ætlast til þess að ALLIR passi í einhverja tvo flokka. Það er bara fáránlegt.

Hvernig væri þetta allt ef við fengjum að ráða sjálf um leið og við gætum, öllum fötum sem við klæddumst sem börn, leikföngin sem við lékum okkur með, krakkana sem við lékum við? Við myndum ekki flokka okkur eftir kynfærunum sem við erum með. Við værum kannski flokkuð einhvern veginn, en það væri á mun betri hátt. Við gætum verið nákvæmlega sú manneskja sem við vildum alltaf vera. Við fengjum meira frelsi og það yrði mun minna um kvenfyrirlitningar og þess háttar.

En það sem ég bið um, er að ég fái að vera ég án þess að vera spurð út í það hvers vegna ég máli mig ekki, hvers vegna ég klæði mig svona og hinsegin. Ég ætla ekki að fara fram á að önnur fornöfn séu notuð um mig, en ég vil geta notað bæði svöng og svangur um sjálfa mig, án þess að vera leiðrétt vegna þess að ég er með kvenmanns-kynfæri. Annað sem ég væri meira en til í, er að þið færuð að (allavega reyna) að kalla mig Lex. Það gæti verið furðulegt og erfitt til að byrja með, og ég tek alveg tillit til þess. No hard feelings. Lex er það nafn sem ég kýs sem „unisex“ gælunafn, eða þannig. Ég er bara komin með nóg af feluleikjum og vil fá að vera ég.

Takk, bless 🙂

SHARE