Í gegnum ár og aldir hefur mismunun vegna litarhátt verið mjög mikil, og oft á tíðum verið stórmál, en ekki oft tekið á því. Fullt af einstaklingum af erlendum uppruna hafa orðið fyrir slíkum fordómum, og hefur það mjög oft ekki haft góðar afleiðingar. Þetta er ekki aðeins á Íslandi heldur líka víða um heim. Slíka fordóma má rekja aftur til blökkumanna í Bandaríkjunum, þar sem þeir voru taldir heimskir, latir og vondir. Þeir voru notaðir í þrælavinnu, og voru lægsta stétt samfélagsins vegna litarháttar. En þetta hefur lagast töluvert, en samt sem áður eru þessir fordómar enþá að særa mjög margar einstaklinga.
Mig langar til þess að segja ykkur frá minni reynslu af mismunun og hver áhrifin eru.
Lilja Kolbrún Þorvarðardóttir heiti ég og er ættleidd frá Indlandi, og kom til Íslands árið ´95, og var þá 6 mánaða gömul.
Ég á tvö yngri systkini sem eru einnig ættleidd frá Indlandi, ég á einn bróðir sem er 16 ára (´97) og er hann smáhöfði og einhverfur síðan á ég eina systir sem er 12 ára (´01).
Við búum í litlu bæjarfélagi á Snæfellsnesi og höfum við búið þar síðan við komum til landsins. Okkur finnst frábært að búa hér, það er rólegt og fullt af góðu fólki, líf okkar hefur samt sem áður ekkert alltaf verið dans á rósum. Ég og systkini mín höfum gengið í gegnum margt og mikið tengt mismunun.
Þegar ég byrjaði í leikskóla, þá voru hin börnin mjög oft að gefa mér auga og benda á mig vegna þess að ég væri svo öðruvísi á litinn en þau. Ég var ekki jafn mikið að pæla í því á þeim aldri en þegar ég varð eldri þá fór ég að taka meira eftir þessu. Þetta fór versnandi þegar ég fór í grunnskóla, ég var kölluð svertingji af nokkrum börnum og krakkar héldu áfram að gefa mér auga og benda á mig rétt eins og í leikskóla, og er ég ekki aðeins að tala um í skólanum heldur líka utan skóla.
Það má segja það að systir mín hefur gengið í gegnum verri hluti en ég á þessum aldri. Krakkar hafa auðvitað breyst með tímanum og oft hefur verið talað um að krakkar í dag séu ókurteisari og dónalegri, og persónulega þá finnst mér það vera satt. Síðan systir mín byrjaði í grunnskóla þá hafa börn strítt henni vegna litarháttar, og með tímanum þá varð þetta verra. Krakkar eru að kalla hana svertingja og ,,niggara‘‘, og hafa oft skilið hana ,,útundan‘‘.
Hún hefur komið grátandi heim, og skyndilega brotnað niður þegar maður til dæmis var að rífast við hana útaf einhverju smámáli, því þetta er ekki eitt af því auðveldasta að geta gleymt og grafið.
Ég var reyndar aldrei kölluð ,,niggari‘‘ en ég var hinsvegar kölluð svertingji og væri svo ,,horuð‘‘, að þegar fólk myndi snerta mig þá myndi ég brotna í sundur, vegna þess að ég væri svo grönn. Ég er bara feginn að ég skuli ekki vera að eyða mínum peningum í ljósabekki eins og mjög margir gera.
Móðir mín hafði lent í því að vera spurð ,,talar hún íslensku?‘‘ vegna þess að ég var brún að hörundslit, og var ég þá um 3 ára gömul, og var það heldur ekki seinasta skiptið. Ég hef oft lent í því að afgreiðslufólk bæði á veitingastöðum, verslunum og skemmtistöðum hafa talað ensku við mig, og getur það stundum verið frekar þreytandi.
Bróðir minn hefur bæði gengið í gegnum mikla stríðni vegna fötlun sinnar og líka vegna hörundslit. Hann hefur sínar þarfir og sitt eðli, og þótt hann sé fatlaður þá hefur hann tilfinningar eins og allir aðrir, og skilur alveg hvað þessi börn eru að tala um við hann. Það er líka eitt af því sem foreldrar ættu að fræða börnin sín, um fatlanir einstaklinga, því þeir ættu heldur ekki að vera að ganga í gegnum slíka stríðni.
Í dag er ég að nálgast tvítugs aldurinn og er ég enþá að líða þennan mismun, og systkinin mín líka, og er það mest megnis frá yngri kynslóðinni. Mér finnst foreldrar ekki fræða börnin sín nóg og mikið um aðra kynþætti, sem hafa annan hörundslit, aðra siði og fleira. Fordómar af þessu tagi valda miklu óöryggi og vanlíðan. Það er einum of mikið af fordómum til, þetta er ekkert nema smámunasemi sem er alveg auðveldlega hægt að taka á með því að fræðast meira um aðra kynþætti.
Við systkinin höfum þó lært að hundsa svona fordóma, og vitum að við erum ekkert öðruvísi heldur en aðrir, og getum við þakkað fjölskyldu okkar og vinum fyrir það! J
Kæri lesandi góður ég væri til í að þú myndir hugleiða þetta, því þetta er framkoma sem enginn ætti að líða.
Takk fyrir mig!