Aðalinngangur

Síðbúinn föstudag í snjókomu og sudda, lá leið mín í nýbyggingu Framhaldssskóla Mosfellsbæjar sem var tekin í notkun í janúar á þessu ári. Þar voru a2f arkitektar með kynningu á byggingunni, en tillaga þeirra var valin úr hópi aðsendra hugmynda í samkeppni um skólann sem blásið var til árið 2010. Kynningin var hluti af vísindaferð sem farin var á vegum Arikitektafélags Íslands (AÍ), í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) og Félag húsgagna- og innanhússarkitekta (FHÍ).

Í hönnunarferlinu fengu a2f arkitektar til liðs við sig hóp af fólki úr ólíkum starfsgreinum. Má þar nefna Verkfræðistofuna Eflu sem sá um hljóðhönnun, að hluta til í samstarfi við Bryndísi Bolladóttur textílhönnuð, en hún bjó til vegglistaverk sem jafnframt gegna hlutverki hljóðvistar í húsinu.

Skólalóðin var í höndum Birkis Einarssonar landslagsarkitekts og um lýsingu sá Drekafluga slf. Burðarþolshönnun og lagnahönnun var í höndum verkfræðistofunnar Verkís.

Eins og fram kemur á heimasíðu a2f arkitekta var markmið þeirra með hönnun skólans að skapa einstaka, vandaða og fagra byggingu sem félli vel inn í hið fjölbreytta bæjarlíf Mosfellsbæjar og það hefur þeim svo sannarlega tekist. Byggingin er einstaklega falleg og björt með skemmtilega hráu yfirbragði. Í miðrýminu þar sem lofthæðin nær upp í tæpa 11 metra er loftið klætt steinull með ljósu filti og festingarnar sjást greinilega til að undirstrika hráleikann. Litrík verk Bryndísar Bolladóttur sem hún kallar “Kúla” og “Lína” njóta sín bæði á hrárri steypunni og á speglum og mynda andstæðu við hlýleikann í lerkinu sem skólinn er mestmegnis klæddur með að utan. Viðarklæðningin heldur áfram innanhúss, en þar er notuð fura sem hentar betur innan dyra en passar mjög vel við lerkið. Lerkið er ómálað og viðhaldsfrítt, en í byrjun var þó borið á það vatnsþynnanleg málning, svokölluð lasúr, í gráum lit. Það jafnar út gránunina í timbrinu sem óhjákvæmilega á eftir að eiga sér stað. Litir í kúlum Bryndísar poppa svo upp hér og þar í byggingunni eins og í gluggum, stólum og geymsluskápum fyrir nemendur.

Skemmtilega uppbyggileg orð sem lýsa skólastarfinu bregður fyrir í gluggum innra rýmis: auðlindir, árangur, virðing, gleði, frjálslyndi og nánd.
 Arkitektarnir lögðu upp úr því að tengja skólann við miðkjarna Mosfellsbæjar og tilvonandi Menningarmiðstöð sem á að rísa skammt frá skólanum. Jafnframt var tekið mið af þeirri hugmyndafræði skólans um að nemendur séu virkir þátttakendur í eigin námi og öðlist með því móti meira sjálfstæði og frumkvæði. Með þetta að leiðarljósi voru útbúin svokölluð klasarými, bæði opin og lokuð, staðsett jafnt inni sem úti, en hægt er að ganga út á hverri hæð hússins. Klasarnir eru vettvangur fyrir óhefðbundnar og verkefnamiðaðar kennsluaðferðir sem hvetja til nýsköpunar og samskipta. Þeir eru 6 talsins og skiptast í: 
4 bóknámsklasa, 1 raungreinaklasa og 1 listgreinaklasa.

Sérstaða byggingarinnar felst tvímælalaust í vistvænni vottun sem er ennþá í ferli hjá BREEAM, alþjóðlegu umhverfisvottunarkerfi fyrir byggingar. Þetta þýðir að byggingin var byggð í sátt við umhverfið og vistfræði þess með orkusparnað og vellíðan notenda í huga. Þetta samræmist vel skólastarfinu þar sem lögð er áhersla á umhverfi og auðlindir. Að hluta voru umhverfisvæn byggingarefni notuð sem ekki eru hættuleg heilsu manna og auðvelt er að endurvinna og farga. Í því sambandi má nefna timburklæðningu, línóleumdúk inni í kennslustofum og kúlur Bryndísar sem búnar eru til úr íslenskri ull. Jafnframt er loftræstingin náttúruleg sem þýðir að ekki eru notaðar rafknúnar viftur til þess að fá hreyfingu á loftið, heldur voru hönnuð sérstök inntaks og úttaksop sem gera það að verkum að drifkraftur myndast þegar heitt og kalt loft mætist og rokið úti hjálpar líka mikið til. Stuðlað var að hámarksnýtingu dagsbirtu í samræmi við reglur BREAM um vinnulýsingu, ásamt almennum aðgerðum til orkusparnaðar.

Samgöngustefna skólans hvetur til þess að notaðar séu vistvænni samgöngur. Þannig að starfsfólk og nemendur eru hvött til að nota strætó, ganga eða hjóla í skólann og er þeim umbunað fyrir það. Í hönnuninni endurspeglast þessar áherslur, sem dæmi má nefna:  Sturtuaðstaða fyrir starfsfólk sem kemur á hjóli í vinnuna, greiðfærar leiðir fyrir hjólandi og gangandi eru á lóð að húsinu og reiðhjólastæði eru staðsett við bygginguna.

Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif vistvænna bygginga á innra starf og líðan nemenda og starfsfólks. Sömuleiðs sýna rannsóknir á námsárangri fram á allt að 20% meiri framfarir í skólabyggingum þar sem dagsbirta er góð, 26% betri námsárangri í lestri, og er almennt talið að hægt sé að auka almennan námsárangur um 25%  ef húsnæði uppfyllir almenn skilyrði um vistvæna byggingu.

Það er því til mikils að vinna og óskandi að fleiri vistvænar byggingar eigi eftir að rísa hér á landi í nálægri framtíð, ekki síst skólabyggingar. Eftirtektarvert er hversu mikið vægi áherslur í innra starfi höfðu á framvindun hönnunarferlisins eins og raunin er í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

www.a2f-arch.com
www.vbr.is
Halldór Laxness: Heimsljós – Höll sumarlandsins, Kafli 17

SHARE