Óléttan og afskiptasemin

Þegar ég komst að því að ég væri ólétt ríkti mikil gleði – Eins og líklega flestar konur sem ganga með sitt fyrsta barn kynnti ég mér meðgönguferlið, hvað er ráðlagt og hvað ekki og ég las líklega yfir mig af allskonar fræðsluefni og er enn að. Ég geri það mér til skemmtunar vegna þess að ég hef áhuga á öllu sem tengist meðgöngu en ég passa mig að fara ekki út í neinar öfgar. Ég komst að því eftir að ég varð ólétt að ýmsir aðilar vissu hvernig meðganga “ætti” að vera og svo þreytist fólk ekki á því að segja manni hvernig hlutirnir verði nú eftir að barnið kemur í heiminn. Setningar eins og “Nú verður ekki sofið næstu árin”og “Nýttu nú tímann og sofðu meðan þú enn getur.” Verða ekki þreyttar og ég veit ekki hversu oft þær hafa fengið að fara inn um annað og út um hitt.

Ég er þannig manneskja að ég spyr ef ég þarf ráð, fólk sem þekkir mig veit að ef ég vil vita eitthvað spyr ég bara. Ég og líklega flestar aðrar konur sem ganga með barn hef það á hreinu hvað er ráðlagt að gera á meðgöngu og hvað ekki og svo verður hver kona að gera það upp við sig hvar hún vill draga línuna. Það eru til dæmis sumir læknar sem segja óléttum konum að lita ekki á sér hárið og fara ekki í neglur, ég hef rætt við einn slíkan og aðrir sem fara ekki út í jafn miklar öfgar og tala bara um þetta helsta, áfengi, fíkniefni, hráan fisk ofl.

Það verður hver kona að gera það upp við sig hvað hún vill gera og þannig er það nú bara. Ég er nokkuð viss um að meirihluti kvenna vill barninu sínu allt það besta og gera sitt allra besta bæði á meðgöngu og þegar barnið er komið í heiminn. Ég ræddi við konurnar í mömmuhópnum mínum og hér eru nokkrar setningar sem margar kannast við að heyra á meðgöngu:

Bíddu máttu drekka kaffi? Eða þú ættir nú ekki að drekka kaffi – Þetta bara kemur þér ekki við. Kona sem gengur með barn veit alveg að það er ekki æskilegt að drekka of mikið kaffi. Það er hinsvegar allt í lagi að fá sér einn kaffibolla og þó að kona drykki 5 kaffibolla á dag væri það ekki þitt að skipta þér af því.

– Mynd af máltíð á Facebook og kók inn á myndinni. Ummæli frá fólki:
Passaðu þig nú að drekka ekki of mikið koffein. Það sama á við hérna. Treystu því bara að við vitum hvað er í lagi fyrir okkur og hvað ekki.

Er ekki sushi bannað? Eða mega óléttar konur nokkuð borða sushi? Þessa spurningu hef ég nokkrum sinnum fengið þegar ég gæði mér á sushi. Ég elska sushi en eins og flestir vita er hægt að fá sushi án þess að það innihaldi hráan fisk. Ég borða ekki hráan fisk hvort sem ég er ólétt eða ekki og fæ mér alltaf grænmetis og kjúklinga sushi. Ég held að þetta sé ekki illa meint hjá fólki og hugsanlega spyrja sumir vegna þess að þeir eru ekki vissir en hver er samt tilgangurinn? Það er eins og fólki finnist það allt í einu hafa rétt til þess að skipta sér af öllum sköpuðum hlutum þegar kona verður ólétt. Þó að kona sé ólétt er hún ekki almenningseign. Það er til í dæminu að konur velji að borða allt sem þær langar til á meðgöngu og þá er það líka bara þeirra val.

Er eðlilegt að bumban sé svona lítil? Eða Er þetta eðlilegt?
Ef fólki finnst kúlan á einhverjum vera of stór. Þessu hef ég ekki lent í sjálf en þessi comment hef ég séð með eigin augum á bumbumyndir hjá konum. Það segir sig bara sjálft að þetta er ekki í lagi. Hvað gengur fólki eiginlega til?

Ég myndi aldrei gera þetta ef ég gengi með barn – Það er þá þitt val. Þessi kona treystir sér greinilega til þess. Okkur varðar ekkert um hvað þú myndir eða myndir ekki gera.

Er í lagi að ganga í hælum á meðgöngu? – Ef ég er í hælum er það greinilega í lagi fyrir mig. Það getur eitthvað annað átt við aðrar konur enda erum við misjafnar eins og við erum margar.

– Konur í mömmuhópnum mínum bentu mér einnig á að þær hafa lent í því að fólk setji út á þeirra val að borða ekki ákveðnar fæðutegundir. Það er til dæmis ekki mælt með því að borða A vítamín í of miklu magni á meðgöngu og því velja sumar konur að sleppa því alveg að borða mat sem inniheldur mikið magn A vítamíns. Harðfiskur er ekki ráðlagður í miklu magni og því velja sumar konur að sleppa honum bara alveg. Þær hafa þá lent í því að fólk segir “Iss hvaða rugl er þetta í þér þú mátt alveg borða þetta ég gerði það þegar ég var ólétt.” Þá eru það oftast eldri konur en fyrir nokkrum áratugum var konum ráðlagt að borða lifur og lifrapylsu, sem innihalda einmitt A vítamín, á meðgöngu. Er ekki bara best að skipta sér ekki af matarvenjum annarra? Er það nokkuð okkar mál?

Róleg á hormónunum.
Það er ekkert hægt að skrifa allt á hormóna þó kona sé ólétt. Okkur getur bara einfaldlega mislíkað eitthvað eða orðið reiðar og það tengist hormónum ekkert endilega. Konur eru rosalega misjafnar upp á þetta að gera. Ég hef ekki fundið fyrir miklum skapbreytingum á meðgöngu og ef ég verð reið er oftast góð ástæða fyrir því þó að auðvitað komi dagar þar sem hormónarnir gera mig meira pirraða yfir einhverju en venjulega.

Ertu ekki örugglega að borða fyrir tvo?
Nei, ég er ekki að borða fyrir tvær fullorðnar manneskjur. Barnið er pínulítið og þarf ekki jafn mikla næringu og fullvaxta manneskja (ég)

– Svo er auðvitað til í dæminu líka að fólk segi: Þú ert ekkert að borða fyrir tvo er það? Jafnvel þegar konan er að borða. Manneskja sem segir þetta er hugsanlega með sjálfseyðingarhvöt – Eða bara einstaklega óheppin í orðavali.

– Svo er það þetta klassíska – Fólk sem labbar að manni og klappar manni á bumbuna án þess að spyrja. Jafnvel ókunnugar manneskjur. Þetta er okkar líkami og það er alls ekkert öllum vel við að láta fólk snerta á sér líkamann. Bara alveg eins og þú klappar ekki kunningjakonu þinni á rassinn.

Þú ert alveg að springa! Þetta minntust vinkonur mínar á. Hver er tilgangurinn með þessu?

Passaðu þig nú að borða ekki sykur barnið gæti orðið svo stórt. – Takk fyrir ábendinguna en ég þekki mín takmörk.

Ég myndi fæða án allra deyfinga ef ég væri þú – Já en þú ert ekki ég.

– Ein kona sem ég ræddi við þegar ég skrifaði þennan pistil talaði um að fólk væri að segja henni að halda ekki á barninu sínu. Ef kona á annað ungt barn og langar til að halda á því og knúsa það þá gerir hún það bara. Flestir þekkja sín takmörk og finna hvað er í lagi og hvað ekki.

Við erum allar svo misjafnar og maður þarf ekki að vera taugaveiklaður þó maður sé óléttur. Mér finnst fínt að fara hinn gullna milliveg og ég reyni eins og ég get að forðast að gera hluti sem gætu hugsanlega valdið mér áhyggjum. Ég vel að borða ekki hráan fisk og hrátt kjöt en passa mig líka að ofhugsa ekki alla hluti. Svo lengi sem ég veit að barninu mínu líður vel er ég sátt. Ég reyni að passa mig hvernig ég orða hlutina og auðvitað getur maður gert mistök og sagt eitthvað algjörlega óviðeigandi en maður lærir af mistökunum. Það er nú oft talað um að foreldrarnir viti oftast hvað er best fyrir barnið sitt og það er eflaust ýmislegt til í því.

SHARE