Opið bréf til flugfarþega – Þetta ættu allir að lesa!

Þetta flotta bréf gengur milli manna á Facebook um þessar mundir. Bréfið birtir maður að nafni Matthew Palmer á Facebook síðu sinni og hér er það þýtt yfir á íslensku. Þetta bréf er opið bréf til allra flugfarþega og það má svo sannarlega rata í umræðu hér á landi líka þar sem við njótum öll þjónustu flugþjóna og flugfreyja þegar við fljúgum.  Hér er bréfið:

Opið bréf til flugfarþega

Mörg ykkar takið ekki einu sinni eftir okkur. Með okkur á ég við flugfreyjurnar/flugþjónana- þetta hressa fólk sem þið kannist við að hafa séð í flugvélunum sem alltaf er að hella kóki í glösin hjá ykkur. Þó að það viti ekki margir eru flugfreyjur og  flugþjónar mjög vel þjálfað fólk og ekki í því einu að bera fram drykki og snarl. Við erum fólkið sem sér um öryggi ykkar og vorum vikum saman í þjálfun, lærðum að taka á móti börnum, slökkva elda, veita skyndihjálp og auðvitað að koma fólki út úr vél, sem getur þýtt að við verðum að geta komið hundrað manns eða fleirum út úr vél á rúmri mínútu eða minna. Flugmálastofnunin krefst þess að við förum árlega á námskeið til að viðhalda færni okkar.

 

Það var ótrúlegt að verða vitni að færni flugfreyja og flugþjóna hjá Asiana Airlines þegar þeir komu farþegum í fullsetinni Boeing 777 frá borði og í öryggi þegar vélin hafði brotlent í San Francisco. Þarna var unnið afrek. Við sem störfum í fluginu dáumst að þeim og erum þakklát að það vorum ekki við sem lentum í þessu. Við hefðum líka getað gert þetta og ef til vill reynir á það einhvern daginn en ekkert okkar óskum okkur að þurfa að takast á við svona aðstæður, að þurfa að horfast í augu við dauðann.

En þú sem ert farþegi þarft líklega nauðsynlega að hringja eða senda þessi sms skilaboð. Þú skalt svo leika þér í símanum  þínum og taka ekki eftir þegar öryggisreglur eru kynntar um borð. Taktu endilega ekki eftir útgöguleiðum. Manstu hvar næsti útgangur er? Það er kviknað í vélinni og farangursgeymslan yfir sætunum hefur fallið niður í fangið á þér. Farþegarýmið er fullt af reyk og þú sérð ekkert. Súrefnisgrímur og vírar slást framan í þig. Á hvern ætlarðu að hrópa?

Ó, þú kallar á flugfreyjuna. Hún sagði halló, góðan dag þegar þú komst um borð en þú tókst ekki undir því að þú varst of upptekin(n) af öðru.

Okkur þykir vænt um að þú skulir fljúga með okkur og það er gaman að heyra hvar þú hefur verið og hvað þú fæst við. Ef þú værir ekki í viðskiptum við okkur gætum við ekki keypt í matinn fyrir okkur og fjölskyldur okkar.

Við gætum ekki heldur staðið við afborgananir af bílunum okkar eða haldið áfram að mennta okkur fram yfir það sem við höfum þegar gert. Við gætum ekki heldur flogið á ýmsa ótrúlega spennandi staði í boði flugfélagsins sem við vinnum fyrir og notið þar lífs og viðurværis sem er alveg sér á parti.

En okkur finnst ekki notalegt þegar okkur er tekið sem sjálfsögðum hlut. Við höfum verið þjálfuð til að takast á við margháttuð neyðartilvik. Áhöfnin á Asiana hafði ekki hugmynd um hvað beið þeirra.  Þetta er dæmi um neyðartilvik sem ekki var fyrirséð. Eftir ellefu tíma flug gæti maður ímyndað  sér að áhöfnin hafi rætt sín á milli hvað þau myndu gera sér til gamans meðan beðið yrði í  San Francisco.  En þau voru öll tilbúin og undirbúin. Hverjum hefði getað dottið í hug að lendingarbúnaðurinn yrði eins og klipptur af þegar hann snerti yfirborð sjávarins og að stélið myndi hreinlega rifna af?

Til allrar hamingju endasentist vélin ekki eftir flugbrautinni.

 

Þegar við sitjum í sætum okkar bæði í flugtaki og lendingu förum við í huganum yfir það sem við höfum lært og kunnum. Hvar er neyðarbúnaður minn? Hvernig á ég að standa að því að koma farþegum frá borði? Hvaða útgönguleiðir á ég að nota ef við lendum í vatni? Hvað á ég að taka með mér til að nota þar til hálp berst? Hugur okkar er hjá áhöfninni á  Asiana.

Og það þurfum við að biðja ykkur, kæru farþega að gera líka. Slökkvið á fjárans tækjunum ykkar og hlustið á okkur. Þið þurfið að hlusta á okkur, ekki bara sjálfra ykkar vegna. Hinir farþegarnir hlustuðu og náðu leiðbeiningunum en þú hefur ekki hugmynd um hvað þú átt að gera og tefur fyrir því að við getum komið öllum út á 90 sekúndum. Vélin verður alelda á 90 sekúndum. Við eigum ekki bara að bjarga þér, við eigum að bjarga öllum og síðan okkur sjálfum.

Þú getur þakkað okkur seinna, þegar þú ert að kveðja okkur. Skildu endilega dótið þitt eftir  ef við þurfum að losa vélina. Það þarf enginn dótið sitt þegar nauðlent er. Ef þú rífur rennuna (vegna þess að þú ert með dótið þitt með þér) verðum við ekki jafn ánægjulegar og þegar við vorum að hella kókinu í glasið þitt.

Heldurðu kannski að þetta hendi þig aldrei? Þú getur auðvitað ekki spurt unglingana tvo sem dóu en þú gætir spjallað við hópinn sem slapp frá flugslysinu.

Þýtt af Hún.is – Bryndís Gyða Michelsen – Hér má nálgast upprunalegu færsluna.

SHARE