Þessi pavlova er bæði sparileg og æðislega gómsæt. Hún sómir sér vel á hvaða veisluborði sem er, uppskriftin er fengin af Eldhúsperlum.

Sjá einnig: Jólapavlova

min_img_7648

Pavlova með mokkarjóma og daimkurli

 • 6 eggjahvítur
 • 300 gr sykur
 • 1 tsk vanilluextract
 • 1 tsk borðedik eða hvítvínsedik
 • 2 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður, ég nota blástur því marengsinn er bakaður á tveimur plötum. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja aðeins að freyða. Bætið sykrinum hægt og rólega saman við á meðan þið þeytið áfram. Þeytið í 1-2 mínútur eftir að sykurinn er allur kominn saman við. Bætið þá vanillu, ediki og maíssterkjunni saman við og þeytið örstutt saman við. Skiptið marengsinum jafnt á tvær smjörpappírsklæddar bökunarplötur og myndið hringi sem eru u.þ.b 20 cm í þvermál. Setjið plöturnar inn í ofn og lækkið þá strax hitann í 120 gráður. Bakið í 75 mínútur. Opnið þá hurðina á ofninum og leyfið marengsinum að kólna alveg inni í ofninum. Sniðugt að baka pavlovurnar að kvöldi og leyfa þeim að kólna inni í ofni yfir nótt.

Fylling:

 • 7 dl rjómi
 • 1 tsk instant kaffiduft leyst upp í 1 msk af sjóðandi vatni
 • 2 msk hreint kakóduft
 • 3 msk flórsykur
 • 1 tsk vanilluextract
 • 2 pokar Daimkurl
 • Jarðarber eftir smekk

Aðferð: Rjóminn, kaffið, kakóið, flórsykur og vanilla sett saman í skál og þeytt þar til næstum stífþeytt. 1 poki af daimkurli sett út í. Helmingurinn af rjómanum settur á milli marengsbotnanna og hinn helmingurinn settur ofan á. Skreytt með restinni af daimkurlinu, jarðarberjum og bræddu súkkulaði.

Ofan á:

 • 50 gr suðusúkkulaði
 • 1/2 dl rjómi

Aðferð: Brætt saman í potti eða örbylgjuofni við vægan hita. Leyft að kólna alveg og svo hellt yfir tertuna að lokum.

SHARE