Byrjum á aðalatriðinu (í mínum huga), Colin Firth er hérna í aðalhlutverki – ef það er ekki nægileg ástæða til þess að skrá sig til leiks þá veit ég ekki hvað!

MV5BNjI0NTAwMTU1NV5BMl5BanBnXkFtZTgwNzkwNjQ0MjE@._V1__SX1537_SY680_

Hér er um að ræða virkilega spennandi glæpafléttu sem skartar þeim Nicole Kidman, Colin Firth og Mark Strong í aðalhlutverkum. Þetta er ein af þeim myndum sem heldur manni í heljargreipum frá upphafi til enda. Segja má að þessi mynd hitti í mark hjá þeim sem gaman hafa af kvikmyndum þar sem ekkert er eins og það sýnist í fyrstu.  Og smátt og smátt kemur sannleikurinn upp á yfirborðið.

Ég sat að minnsta kosti stjörf yfir henni þessari. Það var meira að segja ennþá popp í pokanum mínum þegar myndinni lauk. Það skeður aldrei. Aldrei!

Christine Lucas (Nicole Kidman) vaknar á hverjum morgni alveg minnislaus. Hún man hvorki eftir gærdeginum né fortíð sinni. Hún þekkir ekki manninn sem hún vaknar við hliðina á eða spegilmynd sína.  Maðurinn sem hún vaknar hjá (Colin Firth) kveðst vera eiginmaður hennar. Og reynir hann að útskýra fyrir henni að öll fyrri reynsla og allar minningar hverfi úr kolli hennar í hvert sinn sem hún sefur.

Christine veit vart hverju hún á að trúa, en þegar annar maður, Dr. Nasch (Mark Strong), sem kveðst vinna fyrir lögregluna, hefur samband við hana – ráðleggur henni að treysta engum og fær hana til að halda dagbók þannig að hún geti kynnt sér hana daginn eftir byrja púslin að raðast saman.

Kvikmyndin er afar vel leikin. Dálítið skrýtið að sjá hjartaknúsarann hann Colin minn í svona hlutverki. Já, ég segi ekki meir. Sjón er sögu ríkari.

Þess má geta að Before I Go To Sleep er byggð á á samnefndri bók breska rithöfundarins S.J. Watson sem kom út árið 2011 og fékk frábæra dóma allra gagnrýnenda. Kvikmyndarétturinn seldist eins og skot og hefur bókin nú verið þýdd á meira en 40 tungumálum. Hún kom út hér á landi hjá JPV-útgáfunni, heitir Áður en ég sofna, og er í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar.

Kíktu á stikluna úr myndinni, smelltu í athugasemd hér að neðan og merktu þann sem þig langar að hafa með í bíó. Við drögum út nokkra heppna aðila á fimmtudaginn.

SHARE