Rakst á alveg hreint frábæra grein inná vefsíðunni barnið okkar sem Ingibjörg Baldursdóttir heldur úti.
Við höfum áður fengið hana í viðtal og birt greinar frá henni enda vel menntuð á sviði barna og brjóstagjafa, einnig nálgast hún hlutina á skemmtilegan en fræðandi hátt.
Ég held að við könnumst flestar við þetta króníska samviskubit yfir öllum sköpuðum hlut sem er alveg óttalega leiðinlegt.
Við fengum að birta þessa frábæru grein frá Ingibjörgu og mælum í leiðinni með síðunni barnið okkar sem má finna allavega fróðleik og skemmtilegar greinar.
– – – – – – – – –
Ég hlustaði fyrir nokkrum árum á útvarpsviðtal þar sem umfjöllunarefnið var samviskubit kvenna. Talað var um að konur hefðu krónískt samviskubit yfir einhverju sem þær ættu að vera að gera eða gerðu ekki nógu vel…ALLA ævi ! Akkúrat, hugsaði ég, þetta er það sem ég þjáist af. Talaði svo um þetta við móður mína sem var þá komin yfir áttrætt og ennþá í fullri vinnu við þýðingar og hún staðfesti þetta, mér til mikillar skelfingar. „Já ég hef alltaf samviskubit á hverjum degi yfir því að gera ekki nógu mikið“ ! Sagði hún og dæsti.
Svo las ég grein í Mogganum árið 1998. Hún fjallaði um ofurkonuna sem var aðframkomin. Frábær grein um margra barna móður sem gerði allt… saumaði öskudagsbúningarna á krakkana sína, bakaði fyrir foreldrafundi, heimilið tipp topp og hún sá um aldraða foreldra sína. Þetta var nokkurnveginn lýsingin á mínum metnaði. Þess vegna brá mér að lesa framhald greinarinnar þegar hún lýsti því að hafa farið til heimilislæknis og greinst með streitueinkenni og háþrýsting. Hmmm.. hugsaði ég, best að fara að hugsa sinn gang. Þó áttu nokkur ár eftir að líða þar til ég náði þeim hugsanagangi að allur þessi metnaður skiptir bara ósköp litlu máli.
Þessar væntingar sem að við gerum til okkar sjálfra og höldum að aðrir geri lika, eru oft alltof miklar. Við verðum helst að hafa aflað okkur góðrar menntunar, vera í frábæru formi, í góðri og skemmtilegri vinnu, sinna heimilinu óaðfinnanlega, verja gæðatíma með börnunum okkar og miklu fleira….. en er þetta raunhæft?
Ég á fjóra frábæra krakka og eftir því sem börnin urðu fleiri og verkefnum í daglegu lífi fjölgaði, áttaði ég mig á því að ég þyrfti að einfalda lífið eins mikið og ég gat. Þess vegna er Betty Crocker orðin besta vinkona mín og stundum kremið hennar líka. Ég er steinhætt að baka fyrir foreldrafundi, hleyp venjulega inn í 10-11 og gríp kex og kanilsnúða og hef heldur ekkert samviskubit þegar ég og börnin mín úða í síg heimabökuðu brauðunum og heimagerða húmmusinum sem aðrar mæður töfra fram.
Öskudagsbúningarnir eru annaðhvort keyptir eða gerðir heima af börnunum sjálfum sem er nú ennþá skemmtilegra. Ég hef heldur ekki samviskubit yfir því að ég sé að stórskemma börnin mín af því að þau séu ekki í öllum mögulegum tómstundum. Þau fá bara að ráða því sjálf. Er alveg sama þó að dóttir mín sex ára sé ekki farin að spila á fiðlu, þakka reyndar fyrir það vegna þess að taugakerfi mitt er of viðkvæmt fyrir skræka fiðlutóna forskólabarns…en það er bara ég. Hún hoppar i ballett sæl og glöð en ég hef heldur ekki neinn metnað að hún verði sólodansari íslenska ballettflokksins. Vil bara að börnin séu hamingjusöm !
Það sem við mömmur eigum að gera er að forgangsraða, fá aðstoð og viðurkenna að við komumst ekki yfir allt einar. Stórsniðugt að skipta verkum með maka sínum og gera lífið léttara fyrir alla. Þiggja hjálp sem aðrir bjóða, það er engin uppgjöf heldur merki um að vita sín mörk og gera lífið auðveldara. Nauðsynlegt að hafa sinn dekurtíma og rækta vinskap við gamla vini. Það að komast aðeins frá getur skipt öllu og merkilegt nokk, kemur maður miklu sáttari mamma til baka!
Ég fæ stundum samviskubit yfir því að komast ekki yfir allt sem ég hef lofað mér eða öðrum. Þetta gerist æ sjaldnar og ég er að reyna að komast yfir það. Ég er engin ofurkona, bara venjuleg mamma sem að reynir bara að gera sitt besta.
Höfundur: Ingibjörg Baldursdóttir