Það verður að segjast að keppnin í ár er svona lala. Það er ekkert eitt lag sem stendur greinilega út sem sigurvegari, enginn mega wow factor. Það gerir þetta bara enn meira spennandi en líka er erfiðara að reyna að spá fyrir um hvaða lög fara áfram. Ég var nú ekkert sérstaklega sannspár í síðustu viku…

Lífið kviknar á ný
Þetta finnst mér æðislegt lag! Það er eitthvað skemmtileg sánd í því, pínu hallærislegt en samt ekki of. Boðskapurinn finnst mér skemmtilegur, að við verðum að standa sterk þótt móti blási. Flytjandann þekki ég ekki mikið til en hún hefur þó fengið töluverða spilun upp á síðkastið á öldum ljósvakans með gamla Geira Sæm slagaranum “Er ást í tunglinu”. Karl Olgeirsson er hinsvegar þekkt stærð í íslensku tónlistarlífi, hefur m.a. verið tónlistarstjóri Frostrósa og samið fjöldann allan af skemmtilegum lögum. Ég spái þessu lagi hiklaust áfram í úrslitin þar sem það gæti gert gott mót EF flutningurinn og sviðsframkoman verða í lagi.

Til þín
Ég batt miklar vonir við þetta lag, án þess að hafa heyrt það því höfundurinn, Trausti Bjarnason, hefur samið mörg mjög falleg lög. Hann samdi t.d. besta íslenska Eurovision lagið að mínu mati, Þér við hlið, sem að Regína Ósk flutti í Söngvakeppninni 2006 en Silvía Nótt rændi sigrinum af henna. Heilum 8 árum síðar er ég ekki ennþá búinn að jafna mig! En aftur að laginu. Það er vissulega fallegt en ekki nógu sterkt fyrir 3 mín gluggann sem gefst í Eurovision. Flytjandinn, Guðrún Árný, er stórkostlegur söngvari og á eftir að skila sínu vel á sviðinu. Ég er ekki svo viss um að þetta lag fari áfram eftir símakosningu í kvöld en það gæti farið áfram á dómnefnd.

Þangað til ég dey
Hér kemur skemmtilegt sólskinslag sem er eflaust innblásið af hinu vinsæla Get Lucky, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Ungir ferskir strákar standa að baki þessu lagi, suma könnumst við úr bláum Ópal. Lagið er ekki slæmt en samt tel ég litlar líkur á að þetta geri eitthvað stórt í kvöld. Gaman að þeir taki þátt og gaman að sjá ung og fersk andlit á skjánum! Þarna ná þeir sér í reynslu á sviði sem vonandi verður svo hægt að byggja á.

Aðeins ætluð þér
Hér er á ferðinni virkilega vel samið popp lag. Mér dettur í hug Shania Twain og árið 1998 í hug þegar ég heyri það. Það er alls ekki slæmt, t.d. dettur mér yfirleitt það sama í hug þegar ég heyri Eurovisionframlög Dana, og þeim gengur nær undantekningalaust vel. Ég hef þrátt fyrir ekki mikla trú á þessu lagi í kvöld. Íslendingar eru þannig að þeir myndu aldrei kjósa þetta lag áfram, en kannski hlýtur það náð í augum dómnefndar. Höfundinn, Maríu Björk, þar ekki að kynna. Hún hefur starfað lengi á sviði tónlistar og kennt mörgum Íslendingum söng.Hún fær einhverja aðstoð við lagagerðina frá Svía sem ég man ekki nafnið á og því kalla margir þetta lag “sænskt popplag”. Flytjandann þekki ég ekki, en hún hefur starfað við tónlist í rúm tuttugu ár, en er hér í fyrsta skipti á algjörum forgrunni.

Enga fordóma

Boðskapur þessa lags er frábær. Textinn er æði, flytjendurnir eru æði og lagið… já það er skemmtilegt. Þetta lag fer áfram í kvöld, það er engin spurning um annað. Ef lagið fer þó alla leið til Danmerkur er ég ekki svo viss um að það geri miklar glorýur, nema að þýðingin á textanum heppnist fullkomlega og hægt að verði að gera eins konar “hype” í kringum það. Heimsbyggðin þarf svo sannarlega á því að halda að vera minnt á það að við eigum að vera fordómalaus! Pollapönk þarf ekki að kynna, meðlimir þess hafa verið á sjónarsviðinu í mörg ár.

Þannig að ég tel að lögin “Lífið kveiknar á ný” og “Enga fordóma” fari áfram í kvöld. Guðrún Árný mun fara áfram á dómnefndaratkvæðum en hvert hitt lagið verður, veit ég ekki.

Minni fólk en og aftur á það að skemmta sér vel í kvöld og láta svívirðingar um flytjendur eða starfsfólk keppninnar á samfélagsmiðlum eiga sig!

evro

Gleðilega Eurovision!

 

Siggi Gunnars er tónlistarstjóri á útvarpssviði Skjásins sem rekur K100 og Retro 89.5  Siggi stjórnar einnig  Seinniparturinn á milli kl. 15 – 18 alla virka daga á K100

 

 

 

SHARE