Sinnir fólk sem reykir foreldrahlutverkinu verr en hinir sem ekki reykja? Kannanir leiða í ljós að margt bendir til að svo sé.

Það hefur verið sýnt fram á skaðsemi reykinga fyrir börn í móðurkviði. Nýlegar rannsóknir leiða einnig í ljós að reykingafólki hættir til að hugsa verr um börnin sín en hinum sem ekki reykja.

Þar sem nikótínið hefur völdin eru yfirleitt minni peningar til  að gleðja börnin með gjöfum, t.d. jólagjöfum, minna til fatakaupa og minna fé til matarkaupa.  Sumir stórreykingarmenn greindu frá því að þeir hefðu jafnvel lagst svo lágt að stela úr sparibauk barna sinna til að geta keypt sér tóbak.

Lyfjafyrirtækið Pfizer gerði rannsóknina sem hér er vísað til og tóku  6,271 reykingarmenn þátt í henni.  Það kom rannsakendum á óvart að hluti aðspurðra sagðist myndu borga allt að fimmfalt núverandi verð fyrir sígarettur frekar en vera án þeirra.

Rannsakendur voru slegnir þegar fjöldi fólks sagðist frekar myndu draga úr lífsgæðum barna sinna en láta sig vanta tóbakið. Um fimmtungur aðspurðra sagðist kaupa lélegri föt og skófatnað handa börnunum svo að til væru peningar fyrir tóbaki- í stað þess að hætta að reykja.

Einnig er það áhyggjuefni að 17% aðspurðra  sagðist hafa dregið úr matarinnkaupum til þess að eiga fyrir tóbaki og 9% (350 manns) sögðust hafa stolið peningum úr sparibauk barnanna sinna.

Tæplega 13% foreldranna voru hætt að fara með börnin í tómstundastarf eftir skóladaginn og um 7% leyfðu börnunum ekki lengur að fara í skólaferðalög- vegna fjárskorts. En þessir foreldrar héldu áfram að reykja.

Í ljós kom að margir foreldrar höfðu miklar áhyggjur af fjárhag heimilisins en höfðu samt ekki þrótt til að hætta að reykja.

Um þúsund manns sögðust hafa tekið út af lífeyrissparnaði sínum til að geta keypt sér tóbak og margir keyptu sér frekar tóbak en mat.

Dr Sarah Jarvis, sem hafði eftirlit með rannsókn Pfizer lyfjafyrirtækisins segir að yfirleitt geri reykingarfólk sér alveg grein fyrir hvað þessi fíkn er mikil fjárhagsbyrði en samt leita tiltölulega fáir sér hjálpar sem er í boði og er án endurgjalds.

Reykingar eru mjög ávanabindandi og mikill meiri hluti reykingarmann segist vilja hætta. Yfirleitt hefur fólk reynt fjórum sinnum að hætta áður en það tekst.

Þessi rannsókn var gerð í Bretlandi og þar í landi eru aðilar sem hægt er að snúa sér til ef fólk vill aðstoð. Hér á landi er líka hægt að fá aðstoð og má t.d. benda á vefinn www.reyklaus.is og feta sig svo áfram til reyklausrar tilveru!

SHARE