„Snemma er okkur gerð grein fyrir því að ef við leggjum ekki okkar til, njótum við aldrei neins afraksturs“

ATH. Þessi grein er aðsend og höfundur greinar er Hrafndís Bára

Hilmar

Hann Hilmar býr í frekar stórri blokk. Já eða bjó í stórri blokk. Honum þótti það bara ágætt. Kannski ekki fýsilegasti kosturinn en á hæðinni sem hann bjó var mjög snyrtilegt og fólkið var gott. Reyndar svo gott og samheldið að þau reyndu eftir fremsta megni að hittast einu sinni í mánuði yfir kaffibolla heima hjá einhverju þeirra og ef vel lá á var jafnvel hent í pönnukökur. Hvað gat Hilmar beðið um meira?

Það var þó eitt sem plagaði hann örlítið. Þannig vildi nefnilega til að bæði húsvörðurinn og formaður húsfélagsins bjó á hæðinni hans. Það eitt og sér var í lagi en þeir áttu það til á þessum samkundum að hafa í flimtingum og gera úr því grín að þeir skoðuðu í pósthólfin hjá íbúum hússins á öðrum hæðum. En Hilmar gerði ekkert með það. Yfirleitt var jafnvel svolítið gaman af að hlusta á þá félaga. “Nú er Eiríkur á efstu hæðinni kominn í bobba. Það hrannast inn MODUS umslögin til hans” sagði Maggi húsvörður og hló. “Fjóla fitubolla á fjórðu hæðinni er greinilega búin að gefast upp á Herbalife kúrnum” segir Ómar formaður, “Lágkolvetnabókin var að koma með póstinum í dag”. Þá hlæja allir og Hilmar hlær með. Jú þetta er nú saklaust hugsaði Hilmar. “Hver er ég svosem að dæma þá”. Öll höfum við gert eitthvað misjafnt um ævina.

Hilmari brá þó heldur við eitthvert sinnið þegar hópurinn var saman kominn. “Hvað haldiði með hana Klöru á sjöttu hæð?” Spyrja þeir félagar nánast einróma og heldur spenntir. “Haldiði ekki að kella hafi verið að fá bréf frá Húð og kyn!”… og saman taka þeir að veina úr hlátri. Hilmir horfir þögull í gaupnir sér en lítur svo upp og spyr: “Hvers vegna eru þið að segja okkur þetta?”.

“Hvers vegna?” endurtekur Maggi húsvörður. “Nú heldurðu að það sé ekki betra fyrir þig að vita þetta? Segjum sem svo að þú hefðir farið upp á hana og ekki vitað þetta. Þá værirðu í vondum málum kallinn minn.” Maggi tekur að hlæja óstjórnlega og þegar Ómar formaður bætir við: “Klara Klamydía!” taka pönnukökurnar að frussast út úr öðrum hverjum manni í stofunni. Hilmar hefur fengið nóg. Hann stendur upp, kveður og fer heim til sín. Hann sest niður fyrir framan tölvuna og skrifar bréf. Það er stutt og einfalt.

“Maggi húsvörður og Ómar húsfélagsformaður skoða póstinn ykkar og segja svo öllum á þriðju hæðinni frá því. Kveðja, Hilmar.”

Því næst prentar hann það út í fjölda eintaka og setur í hvert einasta pósthólf, líka hjá Magga og Ómari og öllum á þriðju hæðinni…

Daginn eftir þegar Hilmar kemur heim eftir langan og kvíðafullan dag í vinnunni mætir honum lesning á tilkynningatöflunni í anddyrinu. Þar er öllum íbúum gert það skylt að láta vita ef það verður vart við ferðir Hilmars, Maggi sé búinn að skipta um lás á íbúðinni hans og Ómar þurfi að afhenda honum uppsögn á leigusamningnum. Hann hafi jú brotið gegn reglum húsfélagsins um dreifingu fjölpósts. Í því sem Snowden er að klára lesturinn sér hann hvar Ómar er að leggja í bílastæðið fyrir utan. Hann stekkur inn og yfir í þvottahúsið og felur sig þar.

Hann er búinn að sitja þar góða stund og veit ekki sitt rjúkandi ráð þegar Klara á sjöttu hæð kemur inn.

“Klara! Mikið er ég feginn að sjá þig. Heldurðu að það sé möguleiki að ég geti fengið að koma inn hjá þér og vera nokkrar nætur á meðan ég reyni að finna aðra íbúð og ganga frá mínum málum?”

Klara horfir á hann eitt augnablik hálf gáttuð en segir svo: “Nei sko… hérna… vinkona mín er búin að vera að suða um að fá að leigja með mér…. og sko… ef ég leyfi þér svo að koma og vera… þá sko… verður hún mega fúl. En þú veist… ógisslega kúl þú veist… takk fyrir bréfið mar.

Svo tók hún þvottabalann sinn og fór.

Nú voru góð ráð dýr. Hilmar náði ekki að hugsa heila hugsun svo forundran var hann á viðbrögðum Klöru. Klöru Klamydíu…. Hann var þó ekki farinn að skilja þetta af neinni alvöru þegar Eiríkur á efstu hæðinni kemur inn með fangið fullt af óhreinum sokkum. Hilmar sprettur upp bakvið þurrkarann þar sem hann sat með slíkum látum að Eiríkur kastar frá sér sokkafjallinu svo það dreifist út um allt þvottahús. “Eiríkur!” galar Hilmar. “Þú leyfir mér nú að koma með þér upp þó ekki væri nema til að fá að hringja nokkur símtöl og reyna að redda mér úr þessari klípu.”

Eiríkur horfir á hann en tekur svo til við að týna saman sokkana og mokar þeim jafnharðan inn í lúna þvottavélina. “Eiríkur?” spyr Hilmar aftur….

Að lokum skellir Eiríkur aftur hurðinni á vélinni, snýr sér við og segir mæðulega: “Þú veist það Hilmar minn, að Ómar er mágur minn.” Með þeim orðum hvolfdi hann óhóflegu magni af þvottadufti í hólfið á þvottavélinni, setti í gang og gekk út.

Hilmar horfði á eftir honum út og stóð enn í sömu sporum þegar Fjóla kom inn með miklum sviptingum. Hún snarstoppaði í dyragættinni, lét frá sér þvottabalann og sparkaði honum inn á undan sér. “Þú þarna ormurinn þinn! Þú braust reglur og þú skalt ansvítast til að bera ábyrgð á því! Hunskastu héðan út eða ég sæki Ómar.”

Hilmari hafði hvorki fyrr né síðar haft áhuga á að mótmæla Frú Fjólu og ákvað að þetta væri heldur ekki rétti tíminn. Svo hann smeygði sér framhjá henni og stökk fram.

Hann stóð góða stund í anddyrinu áður en hann opnaði dyrnar að hjólageymslunni, fór þar inn og settist bakvið óskilgreinanlega hrúgu af hjólum….

Það er okkur gert í æsku að lesa söguna um Litlu gulu hænuna. Hvers vegna? Jú því snemma skal okkur gerð grein fyrir því að ef að við leggjum ekki okkar til njótum við aldrei neins afraksturs. Það er leitt að sjá að þessi einfalda lífsregla sem okkur er svo annt um að kenna börnunum skuli vera löngu horfin okkur sjálfum.

Tókstu eftir því að á einum tímapunkti hætti ég að tala um Hilmar og fór að tala um Snowden? Ef ekki þá gerði í það minnsta undirmeðvitundin þín það. Svo ef þú þykist ekki skilja myndlíkinguna þá afneitar þú að einhverju leyti rökhugsun þinni og skynsemi… og sá sem það gerir er illa staddur.

Höfundur greinar: Hrafndís Bára

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here