Það getur stundum tekið á að vera í sambandi

Það getur stundum tekið á að vera í sambandi. Sumir makar eiga það til að krefjast mikils af manni og efast títt um að manni þyki vænt um þá.

Fyrir nokkrum árum var ég með manni sem við skulum bara kalla Braga. Hann var pínu dramatískur og átti það til að fá „köst“ yfir ólíklegustu hlutum. Einn morgun var ég eitthvað miður mín í vinnunni eftir enn eitt rifrildi okkar. Sigga, vinkona mín, sá að ég var óhress og settist hjá mér.

„Hvað er að?“ spurði hún. „Þú hefur setið döpur á svip við skrifborðið þitt frá því í morgun en varla komið nokkru verk. Er ekki allt í lagi?“

„Æ, Sigga,“ svaraði ég, „ég veit ekki hvað ég á til bragðs að taka. Við Bragi rifumst heiftarlega í gærkvöldi.“

„Nú, hvað gekk á?“

„Hann er bara svo dramatískur stundum, segir að ég gefi sér aldrei neitt og sýni honum aldrei að ég elski hann,“ svaraði ég og bætti við: „Hann er sannfærður um að mér þyki bara ekkert vænt um hann.“

„Guð minn eini, maður segir ekki svona við kærustuna sína,“ sagði Sigga og tók utan um mig. „Hvað vill hann svo sem að þú gefir sér? Hvaða gjöf gæti sannfært hann um ást þína?“

„Ég spurði hann nákvæmlega þessarar spurningar, rétt áður en hann skellti svefnherbergishurðinni á nefið á mér,“ svaraði ég og saug upp í nefið. „Hann öskraði innan úr herberginu að ég væri ófær um að sýna ástúð og það eina sem gæti sannfært hann um ást mína væri ef ég færði honum eitthvað sem fer úr 0 upp í 100 á örfáum sekúndum!“  Ég leit upp til Siggu. „Ég hef ekki efni á að kaupa nýjan bíl, hvað þá einhvern sportbíl.“

„Bíl?“ sagði Sigga og skellti upp úr. „Blessuð vertu, vinan, komdu við í Rúmfatalagernum og gefðu honum baðherbergisvog!“

Bragi hló ekki þegar ég færði honum vigtina. Þess ber vart að geta að við hættum saman skömmu síðar.

 

SHARE