Þarf að setja fæðinguna af stað?

newborn ungbarn barn baby

Það þarf ætíð að vera góð ástæða fyrir gangsetningum.

Algengasta ástæða gangsetningar er lengd meðganga, þ.e. meðganga sem staðið hefur fullar 42 vikur miðað við ómskoðun eða fyrsta dag síðustu blæðinga.

Einnig getur verið um að ræða sjúkdóma hjá móðurinni sem gefa ástæðu til að flýta fæðingu, eins og til dæmis meðgöngueitrun, sykursýki og rhesus-ónæmingu, eða sjúkdómar hjá barninu eins og t.d. sýking, vanskapnaður, litningagallar og vaxtartruflun.

Sjá einnig: Þremur vikum eftir fæðingu gerðist nokkuð óhugsandi

Hvernig er fæðingu komið af stað?

Það eru nokkrar aðferðir sem geta komið til greina. Þær eru:

  • Losað um belgi

Ljómóðir eða fæðingarlæknir losar varlega líknarbelginn frá innra fleti leghálsins og aðlægu innra borði legsins. Þetta er einungis hægt að gera ef mýking og stytting hefur þegar orðið á leghálsinum og er umdeilt hvort losun belgja flýtir í raun fyrir fæðingunni.

  • Líknarbelgurinn rofin

Þetta er hægt að gera bæði fyrir og eftir að hríðir eru hafnar. Gat er gert á líknarbelginn þannig að legvatnið byrjar að renna. Til þess að þetta sé gert þarf leghálsinn að vera byrjaður að opnast og nauðsynlegt er að góð lega sé á höfði barnsins, eða sitjanda þegar um sitjandafæðingu er að ræða, þannig að ekki sé hætta á að naflastrengurinn fljóti niður með legvatninu.

  • Stílar

Stílar sem innihalda efnið prostaglandin og verka beint á leghálsinn til að mýkja hann og stytta. Stílar eru notaðir ef leghálsinn hefur ekkert byrjað að mýkjast og opnast. Stílunum er komið fyrir innst í leggöngunum upp við leghálsinn.

  • Innrennslislyf í æð

Innrennslislausn í æð með lyfinu Syntocinon (oxytocin) er notuð. Er það notað bæði við að koma hríðum af stað og við að örva hríðir í fæðingu sem er byrjuð, ef hríðirnar eru of veikar eða óreglulegar. Innrennslislyfið fer um slöngu í æð á handlegg og er slangan tengd tæki sem stjórnar nákvæmlega hve mikið magn af Syntosinon er gefið. Fylgjast þarf vel með hríðastyrk og hjartslætti barnsins meðan lyfið er gefið því hríðarnar geta orðið of kröftugar svo blóðflæði skerðist til barnsins. Ef hjartsláttur barnsins sýnir streitumerki þarf að bregðast við með því að minnka innrennslið og stöku sinnum þarf að ljúka fæðingunni í skyndi með keisaraskurði. Ef hríðarnar fara vel af stað og halda áfram er oft hægt að skrúfa fyrir lyfjagjöfina og þá heldur fæðingin áfram af sjálfu sér. Oft þarf þó að nota Syntocinonrennsli þar til fylgjan er fædd.

Sjá einnig: Meðgönguþunglyndi eða fæðingarþunglyndi

Eru einhverjar aukaverkanir af gangsetningu?

Ein af aukaverkununum við að koma fæðingu af stað er að fæðingin getur dregist á langinn með sársaukafullum og veikum hríðum. Notkun Syntocinons veldur einnig aukinni hættu á of hörðum hríðum þannig að blóðflæði skerðist til barnsins. Auk þess er aukin hætta á að við fæðinguna þurfi að nota sogklukku eða töng, eða gera þurfi keisaraskurð. Þar fyrir utan þarf að notast við sérstakan tækjabúnað svo sem hjartsláttarsírita til að fylgjast með hjartslætti barnsins í fæðingunni og hríðunum. Því þarf fæðingin að gerast á fæðingardeild með reyndu starfsfólki.

Getur maður sjálfur ákveðið hvenær og hvernig þetta er gert?

Sjálfsagt er að bera fram óskir varðandi gangsetninguna ef þörf er á henni. Sú aðferð sem notuð er við gangsetninguna er þó háð ýmsum aðstæðum, t.d. hvernig ástand legháls konunnar er, það er að segja hvort legháls sé stífur eða mjúkur, lokaður eða byrjaður að opnast. Jafnframt þarf að meta nánar legu höfuðsins eða sitjandans (við sitjandafæðingu). Þetta þarf ljósmóðir eða læknir alltaf að meta áður en ákveðið er hvaða aðferð er best í hverju tilviki. Auk þess geta verið til staðar ákveðnir sjúkdómar hjá móður, eins og til dæmis asthmi, sem getur haft þá þýðingu að hún megi hvorki fá Syntocinon né Prostaglandínstíla. Af þessum orsökum getur verið erfitt að koma fyllilega til móts við óskir verðandi móður en með góðri samvinnu tekst yfirleitt að komast að samkomulagi.

Er fæðingin sársaukafyllri ef henni er komið af stað?

Yfirleitt eru hríðir sársaukafyllri við gangsetningu en eðlilega fæðingu. Oft koma hríðirnar með þéttara millibili og eru sterkari strax frá byrjun þannig að konan nær ekki að mynda þol gegn sársaukanum. Verkjalyfjanotkun er því almennari hjá konum í gangsetningu en eðlilegri fæðingu.

Er hægt að gera kröfu um keisaraskurð í staðinn?

Það eru ekki margir læknar sem eru samþykkir slíku. Keisaraskurður er alltaf læknisfræðileg ákvörðun. Þó getur til dæmis verið að fyrri fæðing konu hafi verið henni svo mikið erfiði og áfall, að ástæða sé til þess að hún fari í keisaraskurð vegna sálrænna ástæðna. Keisaraskurður er eftir sem áður skurðaðgerð með þeirri áhættu sem þeim fylgja.

Fleiri heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

SHARE