Þegar ég vann í lottóinu….. tvisvar

Ég á 2 börn, 10 ára gamla dóttur og son sem er 7 ára. Ég hef samt ekki alltaf verið mamma þeirra, þ.e.a.s. ég varð ekki mamma þeirra við fæðingu þeirra. Börnin mín eru bæði ættleidd, dóttirin frá Indlandi og sonurinn frá Tékklandi. Ég varð mamma dóttur minnar mánuði áður en hún varð 1 árs. Þá fengum við langþráða símtalið, símtalið sem sagði okkur að það væri lítil stelpa á Indlandi, og hvort að við vildum fá heilsufarsupplýsingarnar um hana áður en við ákveddum okkur.

Við sögðum já en í hjarta mínu vissi ég að þetta væri það, þetta væri stundin. Við lásum yfir skýrsluna frá lækninum (grátandi), föðmuðum hvort annað og grétum aðeins meira. Tengingin, þessi ótrúlega sterka tenging, kom strax þetta kvöld, og þó að það hafi liðið nokkrir dagar frá símtalinu og þangað til að við fengum að sjá mynd að þá var hún samt orðin dóttir mín, og ég var orðin mamma, ég var loksins orðin mamma.

Að ættleiða kostar ótrúlega þolinmæði og fjall af skriffinnsku, og eftir símtalið tók meiri skriffinnska við. Við þurftum að bíða í 7 mánuði þangað til að við gátum sótt prinsessuna til Indlands og margir hafa spurt hvort sá tími hafi ekki verið erfiður en í raun og veru þá verð ég að segja nei, ekki fyrir mig. Við höfðum gengið í gegnum mjög margt á biðlistatímanum, en þarna var komin endastöð, ég átti litla dóttur sem ég hafði að vísu aldrei hitt, aldrei heyrt hjala, aldrei séð brosa. Ok, jólin og afmælið hennar, það voru erfiðir dagar en í raun og veru þá naut ég þess bara að undirbúa heimilið fyrir nýja fjölskyldumeðliminn og ferðina til Indlands. Það var svo algjör tilviljun að daginn sem við fengum hana í hendurnar voru akkúrat, upp á dag, 6 ár frá því að við sendum inn umsóknina til Íslenskrar ættleiðingar (já, þið lásuð rétt, 6 ár).

Daginn sem við fengum hana þá skalf ég, ég var svo stressuð. Við þurftum að skrifa nöfnin okkar í stóra bók sem var á barnaheimilinu og ég efast um að ég myndi þekkja undirskriftina mína, ég var svo skjálfhent. Ég var þegar farin að elska þetta barn meira en nokkuð annað, og þetta var ein af mínum stærstu sólskinsstundum, en þetta var líka stundin þar sem hún var tekin frá öllu því sem hún þekkti og látin í hendurnar á fólki sem lyktaði öðruvísi en allir aðrir, voru með annan húðlit og töluðu eitthvað mjög skrítið tungumál. Þegar við vorum leidd inn í herbergið þar sem börnin voru þá sá ég strax þessi ótrúlegu ótrúlegu augu horfa á mig. Hún var sett í rúmið sitt og ég beygði mig niður til að tala við hana. Svo ætlaði ég að spyrja eina af fóstrunum hvort að ég mætti taka hana upp en svo hugsaði ég “nei, hún er dóttir mín, núna þurfa þær að spurja mig!”. Þannig að ég tók hana upp og síðan þá höfum við verið óaðskiljanlegar. Og svo allt í einu vorum við lögð aftur á stað á hótelið með hana, biðin búin. Ég man ennþá tilfinninguna á leiðinni, mér fannst allir vera brosandi sem við mættum, litirnir skærari og fallegri.

 

Við vorum ennþá úti á Indlandi þegar við ákváðum að þetta skyldum við sko gera aftur, við myndum ættleiða aftur. Íslensk ættleiðing er með þá reglu að maður þarf að vera heima í 6 mánuði með barnið áður en maður sækir um næsta barn og á símtalsafmælisdaginn hennar (við sem ættleiðum erum nefnilega svo heppin að fá fullt af auka dögum til að halda uppá) þá fórum við aftur á Indlandslistann.

Því miður er það þannig í ættleiðingar heiminum að lönd opnast og lönd lokast. Indland sem sagt lokaðist og þegar við vorum búin að vera 2 ár á þeim lista þá þurftum við að taka ákvörðun, ætluðum við að hætta við, taka áhættuna og vera áfram á Indlandslistanum eða skipta um land. Við gátum ekki hugsað okkur að hætta við og frekar en að taka áhættuna á að vera á Indlandslistanum og tíminn mundi renna út fyrir okkur þá skiptum við um land. Við ákváðum því að færa okkur yfir á Tékklandslistann og aftur hófst skriffinnska og svo biðin eftir ógleymanlega símtalinu. Það símtal kom eitt kvöldið þegar við vorum búin að bíða í 4 ár. Ég var rétt búin að setja bjúgu í pott þegar okkur var sagt að það væri drengur úti í Tékklandi. Þó ég hefði verið búin að bíða eftir þessu símtali í allan þennan tíma og búin að ganga í gegnum þetta allt áður þá var geðshræringin alveg sú sama (og eftir þetta þá munu bjúgu alltaf minna mig á þessa yndislegu stund, þannig að Bjúgnarækir, ég á flottustu bjúgna-söguna). Við lásum yfir heilsufarsupplýsingarnar  og sáum að þetta var sonur okkar, auðveldari ákvörðun hef ég ekki tekið. Daginn eftir sögðum við dóttur okkar að hún var að verða stóra systir (hún vissi af ferlinu allan tímann þannig að þetta kom henni ekki á óvart), við stóðum öll saman við tölvuna þegar við sáum fyrstu myndirnar af honum (hlógum þegar við sáum prakkarasvipinn) og svo fékk hún að segja ömmum sínum fréttirnar, hún hafði verið að eignast bróðir.

Núna tók allt öðruvísi ferli við. Þegar maður ættleiðir frá Indlandi þá byrjar pappírsvinnslan þar ekki fyrr en maður hefur sagt já, þetta er barnið mitt, (þess vegna þurftum við að bíða í 7 mánuði eftir að sækja hana) en í Tékklandi er pappírsvinnslan búinn þegar foreldrar hafa verið paraðir saman við barn. Þess vegna höfðum við bara mánuð til að undirbúa allt. Fæðingarorlof, kaupa föt og leikföng fyrir soninn og undirbúa herbergið hans, kaupa flugmiða, bóka hótel, vegabréf…. Þannig að þessi mánuður leið mjög fljótt. Sonurinn varð þriggja ára 2 vikum eftir símtalið. Guð hvað ég hefði gert allt til að vera með honum þann dag, en ég vissi að héðan í frá þá yrðum við alltaf saman á afmælinu hans, þetta yrði síðasta afmælið hans þar sem hann hefði ekki fjölskyldina sína hjá sér.

Það er rosalega vel haldið utan um allt þetta ferli í Tékklandi. Við byrjuðum á því að mæta á fund með ættleiðingaryfirvöldum, hittum alveg yndislegan lögfræðing þar sem við fórum yfir hvernig ferlið yrði næstu daga. Svo tókum við lest í bæinn þar sem barnaheimilið hans var. Þegar við flugum til Indlands, flugum yfir borgina þar sem dóttirin var þá hugsaði ég „einhversstaðar, á bak við eitthvað af þessum ljósum, ert þú.“ Og þegar lestin nálgaðist litla bæinn í Tékklandi þar sem sonurinn var, þá starði ég út um gluggann, reyndi að sjá hvort að við færum fram hjá barnaheimilinu, hvort að ég gæti séð inn um glugga.

Daginn eftir var svo komið að stóru stundinni. Við byrjuðum á því að hitta yfirmanneskjuna á heimilinu og annað dásamlegt fólk sem hafði séð um son okkar. Við fengum upplýsingar um hann, hvað honum þótti skemmtilegt, hvað hann vildi vildi borða og hvernig persóna hann væri. Ég verð samt að viðurkenna að ég að ég hefði ekki tekið glósur þarna þá hefði ég ekki munað neitt, hugurinn var á efri hæðinni þar sem hann var. Svo allt í einu var sagt „eruð þið tilbúin?“ og inn í herbergið var leiddur lítill og mjög hræddur drengur sem vildi alls ekki hitta þetta ókunnuga fólk, fjölskylduna sína.  Næstu dagar fóru í aðlögun, við heimsóttum hann á barnaheimilið og smátt og smátt opnaði hann sig við okkur, en það tók tíma, mikinn tíma og ennþá meiri þolinmæði. Eftir 4 daga sóttum við hann í síðasta skiptið á barnaheimilið.

Hann hafði átt uppáhalds fóstru á heimilinu og þegar við sóttum hann í síðasta skiptið þá var hún hjá honum, en þegar hún gerði sér grein fyrir að hann kæmi ekki aftur þá fór hún, gat ekki kvatt. Ég heyrði einu sinni að þessar yndislegu, óeigingjörnu konur sem ynnu á þessum heimilum gerðu þetta gjarnan, færu ef þær gætu ekki kvatt börnin án þess að gráta, vegna þess að þær vildu að börnin finndu að þetta væri hamingjustund, að eitthvað gott væri í vændum. Þær setja sem sagt börnin í forgang, fram yfir sjálfa sig.

Ég mun aldrei gleyma tilfinningunni þegar við löbbuðum heim á hótelið, dóttirin hoppandi og skoppandi í kringum okkur og hann, ábyggilega hrikalega stressaður en rólegur í kerrunni sinni, bæði börnin mín.

SHARE