ATH. Þessi grein er aðsend og skoðanir eða fullyrðingar í greininni þurfa ekki að endurspegla álit ritstjórnar.
Ég hef mikið velt ákveðnum hlutum fyrir mér undanfarið, einfaldlega vegna þess að mér er misboðið. Mig langaði að deila minni reynslu með öðrum og í leiðinni velta ýmsum spurningum upp.
Það er nú þannig með mig eins og flesta aðra að ég fer stundum til læknis, ég nýti mér heilbrigðisþjónustu og allt gott og blessað með það. Hinsvegar hefur það komið fyrir mig og aðra eins og ég komst að eftir að ræða þetta við annað fólk, að heilbrigðisstarfsfólk og í einu tilviki, læknir greinir mig án þess að hafa nokkuð fyrir sér, rannsóknir eða annað. Ég ætla samt sem áður að byrja á því sem gerðist fyrir um það bil ári síðan.
Það var þannig að ég var á leið til annars land, þar sem ég var að fara í nám og að vinna í um það bil ár. Nokkrum vikum áður en ég fór, skellti ég mér til læknis og svo fór ég í tjékk í húð og kyn bara til að vera örugg áður en ég fór út að ekkert væri að hrjá mig. Það var lítið mál og ekkert var að eins og ég bjóst við en það sem fór í mig var það sem hjúkrunarfræðingurinn á húð og kyn sagði við mig. Hún sagði og nú hef ég eftir henni orðrétt vegna þess að þetta sló mig:
[quote]Þú ert nú svo auðvitað ekkert að fara að sofa neitt hjá þarna á Möltu, það er bara algjör vitleysa enda allt morandi í HIV.[/quote]
“Þú ert nú svo auðvitað ekkert að fara að sofa neitt hjá þarna á Möltu, það er bara algjör vitleysa enda allt morandi í HIV.” Ég varð bara orðlaus og einhvernveginn sagði ekkert. Í dag hefði ég að sjálfsögðu spurt manneskjuna hvernig í ósköpunum hún fengi það út og hvort hún hefði rannsóknir á blaði sem sýndu það og einnig hvort hún gæti ekki bara þá sagt mér nákvæmlega tíðni HIV á Möltu.
Ég auðvitað fór beint heim og athugaði með þetta, ég þurfti ekki annað en að googla þetta til að sjá að tíðni á HIV er lægri í Möltu en til að mynda á Íslandi. Þessi heilbrigðisstarfsmaður hræddi þarna, unga stúlku með einhverju sem hún setti fram sem staðreynd, án þess að hafa NOKKUÐ fyrir sér í því. Ég get ekki séð betur en að þetta álit hennar byggist einungis á fordómum. Finnst þér í lagi að fagmaður segi svona og grípi það algjörlega úr lausu lofti? Í fyrsta lagi segir engin eðlileg manneskju ungri stúlku að stunda bara ekki kynlíf í ár en hvað þá vegna þess að það sé allt morandi í HIV í landinu sem hún er á leið að búa í. Er ekki betra að ráðleggja bara að nota varnir?
Eru það ekki almennar vinnureglur hjá fagfólki og þá sérstaklega læknum og hjúkrunarfólki að styðjast við læknavísindi, staðreyndir og rannsóknir? Ekki persónulegar skoðanir, fordóma eða getgátur?
Þegar læknir segir manneskju að hún sé með MS.
Atvikið sem sagt var frá hér fyrir ofan er þó bara eitt af nokkrum svipuðum atvikum sem ég hef lent í en það var hinsvegar mun verra þegar móðir mín lenti í því að vera “greind” með MS, án þess að hafa sjúkdóminn. MS er eins og allir vita mjög alvarlegur sjúkdómur sem þú losnar ekki við. Til að vera greind/ur með sjúkdóminn þarftu oftast að fara í margar rannsóknir og greining tekur oft nokkur ár. Þetta veit ég í dag. Móðir mín fór til kvensjúkdómalæknis og var að klæða sig úr, þegar læknirinn sá eða fannst að hún væri eitthvað skrýtin í handleggnum. Hún haltraði á þessum tíma og hann fór að spyrja hana hvað væri í gangi. Hún sagði honum eins og var, að henni væri illt í bakinu og það leiddi niður í fót og að hún væri dofin í hendinni.
Læknirinn, sem er mjög þekktur kvensjúkdómalæknir hér á landi, segir þá við hana að hún sé ÖRUGGLEGA með MS og toppaði þetta allt saman með því að segja að hann hefði mjög sjaldan rangt fyrir sér!
Eins og auðvelt er kannski að ímynda sér fær maður sjokk þegar maður fær svona fréttir, en mamma fór auðvitað til annars læknis og þá kom í ljós að það sem amaði að henni var brjósklos og klemmd taug í hendinni. Hún þurfti að bíða í nokkrar vikur til að komast að hjá öðrum sérfræðingi og þessar vikur voru hreint helvíti.
Það sem ég vil segja er, læknar og heilbrigðisstarfsfólk, eru manneskjur sem við leitum til og oft í neyð. Við treystum þeim og trúum að þeirra álit sé á rökum reist. Mér finnst EKKI í lagi að greina manneskju eða segja þú ert ÖRUGGLEGA með einhvern sjúkdóm sem er alvarlegur án þess að hafa gert á því rannsóknir og mér finnst heldur ekki í lagi að troða sínum persónulegu skoðunum eða fordómum eða hræðsluáróðri á ungt fólk. Það eru svartir sauðir í öllum stéttum, en þessi stétt þarf að vera virkilega meðvituð um það að fólk treystir á manneskjurnar sem vinna í heilbrigðisgeiranum.
Læknir getur fengið kvíðasjúkling til sín og ef þú ætlar að giska á eitthvað sem er kannski ekki rétt þá ertu að umturna lífi manneskju í jafnvel nokkrar vikur. Þú veist ALDREI hvernig sjúklingurinn er andlega séð og auðvitað er hræðilegt fyrir alla að fá sjúkdómsgreiningar en við erum að tala um þegar þær eru ágiskun og jafnvel ekki réttar. Ég ætla að vona það að svona hagi ekki margir læknar sér en þetta er til í dæminu, því miður og af því hef ég og aðrir í kringum mig reynslu.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar, hér eru líf í húfi.