Tíu bestu og verstu sjónvarpsþættir Íslandssögunnar

Stúdentablaðið birti á dögunum skemmtilega lista yfir topp tíu bestu og verstu sjónvarpsþættina sem hafa verið gerðir hérlendis. Listi sem vekur upp skemmtilegar minningar og rifjar upp sjónvarpsefni sem var löngu fallið í gleymsku. Upphaflegu greinina má sjá á vef Stúdentablaðsins.
Eruð þið lesendur sammála þessari upptalningu? Vantar eitthvað inn á listann að þínu mati? Hver er uppáhalds íslenska sjónvarpsþáttaserían þín?
Segðu okkur skoðun þína í ummælum hér að neðan.

10. Þátturinn hans Valtýs
Egill Helga hefur masterað þá tækni að vera með útvarpsþátt í sjónvarpi eins og Kiljan, Vesturfarar og Silfur Egils sanna. En hann er Egill Helga. Það voru Böðvar Bergz, Hansi Bjarna og Valtýr ekki. Útvarpsmenn snéru í sjónvarp með ágætlega vinsælan þátt en útvarp virkar ekki í sjónvarpi. Þeir félagar tóku við símtölum frá fólki úti í bæ nema að innhringjendur voru yfirleitt kona Stjána Stuð. Svo var alltaf einhver móða á aðalmyndavélinni. Hver átti að þrífa það? Var það ég?

9. Gnarrenburg
Eins frábæra hluti og Jón Gnarr hefur gert í gegnum árin á hann algjörlega skilið að lenda á þessum lista með Gnarrenburg. Þarna fékk Jón til sín gesti í skemmtiþætti með skraufþurran Barða Jóhannsson sem hans hægri hönd og væri hægt að spyrja sig: Hver þarf óvini þegar hann á svona vini? Jón hélt að hann gæti komið óundirbúinn, grínast og farið heim. Stofugestir sáu hinsvegar við honum og grínið endaði á hans kostnað.

8. Kallakaffi
Valdimar Flygering var eitt mesta kyntröll landsins á árum áður og átti endurkomu í leiklistarheiminn í þáttunum Kallakaffi. Þættirnir þóttu ákaflega lélegir hefur farið lítið fyrir Valdimari eftir þá. Það er þó ekki bara við Valda að sakast því allt hitt var drasl að auki.

7. Marteinn
Hér voru þættir settir á svið og atriðin tekin upp í beinni. Áhorfendur voru fjölmargir og áttu að lífga upp á þáttinn með dósahlátri. Eðlilegra hefði verið að áhorfendur hefðu hent dósum í Jóhannes Hauk, Eddu Björgu, Kjartan Guðjóns og öll hin sem komu að þessum þáttum.

 

6. Týnda kynslóðin
Þættinum var ætlað að ná til ungs fólks og var á afbragðstíma í opinni dagskrá. Mið-Ísland hefur húmor fyrir sjálfum sér og var þátturinn kallaður Týnda áhorfið á sýningu þeirra. Björn Bragi var útvarpsmaður á FM957 um þetta leyti og kaus læk-kynslóðin hann sjónvarpsmann ársins þó að tölur sýni að þeir sem kusu hafi ekki horft á þáttinn.

 

5. Búbbarnir
Ef það hefði einhvern tímann verið í lagi að skera tuskudýr á háls þá hefði það verið á Búbbana. Enginn hefði trúað því að hægt væri að nýta þessar pirrandi brúður í annað en nálapúða en þau hafa fengið yngri kynslóðina til að brosa hjá Góa í Stundinni okkar.

 

4. Hringekjan
Hér þarf ekkert að útskýra. Ari Eldjárn bjargaði geðheilsu landans með uppistandsinnslögum og er víst að annars hefði verið á tali hjá Vinalínunni á laugardagskvöldum þennan veturinn.

 

3. Mið-Ísland
Þarna er svo einfaldlega hægt að spyrja sig hvað í ósköpunum fór úrskeiðis. Svarið er svo sem einfalt. Allt. Þarna voru uppistandararnir mættir í sjónvarpið og héldu að það væri jafn einfalt og að fá þúsund læk fyrir einhverja grein sem þeir skrifa í Fréttablaðið. Niðurstaðan var ófyndnir sketsar sem voru illa leiknir og á mörkum þess að hafa verið leikstýrt. Andrésar andar-sketsinn naut, verðskuldað, mikillar hylli en annað var svo mislukkað að þættirnir hafa verið skopefni Mið-Íslands í uppistandi allar götur síðan, sem er fyndið og fá þeir klárlega prik fyrir.

 

2. Landsins snjallasti
Á upphafstímum Skjás 1 mátti sjá margar áhugaverðar tilraunir. Sumar voru fínar en aðrar ekki. Þátturinn Landsins snjallasti var þó sendur út einhverjum árum eftir þennan tilraunatíma og er því með engu móti hægt að verja þessa hörmung. Hinn geðþekki Hálfdan Steinþórsson, sem hafði synt tignarlega í Djúpu lauginni, att saman fólki innan sömu starfsstéttar til að finna þann snjallasta, til dæmis landsins snjallasta smið. Þátturinn var jafnvel leiðinlegri en lýsingin á honum og vermir því annað sætið á þessum lista.

1. Hamborgaraþátturinn með Simma og Jóa
Þessi þáttur er það alversta sem datt inn í stofur landsmanna. Simmi og Jói voru þarna á hátindi frægðarinnar, voru einskonar vinir þjóðarinnar eftir góða frammistöðu í Idol-inu. Þeir nýttu sér allt þetta goodwill og keyrðu af stað í þátt sem var aldrei neitt annað en auglýsing fyrir hamborgarastað sem þeir voru að fara að opna. Ríflega 50 mínútum var í alvörunni varið í að fara austur á land og skoða skyrköku. Þó dómnefnd ætti framundan 40 tíma flug til andskotans myndi hún frekar horfa á fólk sofa en að smella þessu á sem afþreyingu.

Þættir sem bönkuðu á dyrnar: Tríó, Fagur fiskur, Flikk flakk, Heiti potturinn, Tobba, Bingó, Rósa, Ertu skarpari en skólakrakki? Heimsókn, Reykjavíkurdætur, Ferðastiklur Láru og Ómars, Megatíminn, Kvöldþátturinn, Dagvaktin, Stutt í spunann, Stóru málin, Veiðibræðurnir Gunni Helga og bróðir hans, Örlagadagurinn, Samfarir Báru Mahrens, Vertu viss, ástarþátturinn með Ásdísi Olsen, Óupplýst lögreglumál, Ying og Yang og Idol Extra.

Topp 10 bestu

10. Atvinnumennirnir okkar
Auðunn Blöndal stóð sig vel í hlutverki umsjónarmanns og tók helstu atvinnumenn okkar á hús. Þættirnir voru misjafnir eins og gestgjafarnir voru margir en allir mjög vel heppnaðir.

 

9. Hulli
Gallsúr og frumleg hugmynd sem sló heldur betur í gegn. Skopstæling Hugleiks Dagssonar af sjálfum sér fékk mann heldur betur til að hlæja og í raun er fáránlegt að þessir þættir hafi aldrei verið gefnir út. Það er þó fagnaðarefni að von sé á annarri seríu.

8. Fastir liðir eins og venjulega
Þessir þættir eru bara klassík og eldast svo miklu betur en aðrir þættir frá gamla tímanum. Gríðarlega skemmtilegt hvernig hlutverkum var snúið á hvolf og deilt á staðalímyndir.

 

7. Hæ Gosi
Ótrúlega vel heppnuð kómedía sem því miður allt of fáir hafa séð. Fyrstu tvær seríurnar skila Hæ Gosa á þennan lista. Uppáhalds karakter dómnefndarinnar var Hrafn sem Hjálmar Hjálmarsson lék en Helga Braga, Kjartan og Árni Pétur Guðjónssynir, Hannes Óli og fleiri fóru á kostum. Þættirnir hafa verið kallaðir hinir íslensku Klovn og standa algjörlega undir þeim stimpli.

6. Með afa
Örn Árnason var 26 ára þegar hann byrjaði að leika afa og ól hann upp kynslóð dómnefndarinnar. Hann var einhvern veginn afi allra barna á Íslandi og foreldrar biðu eftir því að hann birtist á skjánum svo þeir gætu farið aftur að sofa, því afi var mættur til að passa.

 

5. Á tali með Hemma Gunn
Hemmi fór einu sinni til BBC til að fræðast um dagskrárgerð með það fyrir augum að gera þáttinn sinn enn betri. Þegar Hemmi hafði svarað spurningunni hvað hann væri með mikið áhorf, var hann spurður, af hverju segir þú okkur ekki frekar hvað þú ert að gera? Það voru allir að horfa og Hemmi Gunn var vinsælasti maður landsins.

 

4. Pressa
Frábærir þættir sem svínvirkuðu í þrjár seríur og hefðu mátt vera fleiri. Sara Dögg Ásgeirsdóttir átti stórleik í aðalhlutverki þáttanna og Kjartan Guðjónsson var frábær í starfi ritstjóra og æsifréttamanns. Skemmtilegasti karakterinn var þó Gestur sem Þorsteinn Bachmann lék. Dásamlega óþolandi týpa sem allir þekkja.

 

3. Sönn íslensk sakamál
Ótrúlega mögnuð dagskrárgerð sem var síðan toppuð með hinni fullkomnu frásagnarrödd Sigursteins Mássonar.  Þættirnir eldast líka alveg ótrúlega vel enda viðfangsefnið hverju sinni nálgast af kostgæfni og fullkomnun. Björn B. Björnsson átti hugmyndina að gerð þessara snilldarþátta og framleiddi þá ásamt því að leikstýra þeim flestum.

 

2. Næturvaktin
Georg Bjarnfreðarson og Ólafur Ragnar Hannesson eru mögulega bestu karakterar íslenskrar þáttagerðar. Daníel Sævarsson var einnig frábær og saman mynduðu þessir félagar tríó sem fengu landsmenn til að grenja úr hlátri aftur og aftur. Besta atriði seríunnar var þegar Georg tapaði í skák fyrir Daníel og Ólafur sturlaðist af kæti. Gríðarlegur fjöldi frasa festust í lingói Íslendinga og hafa verið þar síðan.

 

1. Fóstbræður
Það líður varla sá dagur að maður heyri ekki tilvitnun í Fóstbræður. Við vorum aldrei meira sammála en þegar kom að því að velja 1. sætið á þessum lista. Íslenskum húmor var breytt með þessum sex þáttaröðum og vorum við kynnt fyrir karakterum sem eiga eflaust eftir að lifa með þjóðinni um ókomna tíð.

Við vildum velja Nonna og Manna á listann og þá mögulega ansi ofarlega en vegna þess að hann var erlend framleiðsla fannst okkur hann ekki geta komið til greina. Þessir þættir bönkuðu svo á dyrnar: Imbakassinn, Ástríður, Stundin okkar með Gunna og Felix, Biggest loser Ísland, Mótorsport, Heilsubælið, Stiklur, Nýjasta tækni, Orðbragð, Kompás, Sigtið, Viltu vinna milljón? (þegar Þorsteinn J. var spyrill) Idol stjörnuleit 1, Konfekt, Fólkið í blokkinni, Steindinn okkar, Íslensk kjötsúpa, 10 bestu, Venni Páer, 70 mínútur, Hljómskálinn og Latibær.

Dómnefndina skipuðu Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, Daníel Geir Moritz, ritstjóri Stúdentablaðsins og Elvar Geir Magnússon, ritstjóri fótbolti.net. Listarnir náðu því ekki að vera vísindalega sannaðir þó að þeir hafi komist nálægt því, og eru að sjálfsögðu settir saman til gamans.

Greinin var upphaflega birt á Stúdentablaðinu

SHARE