Nú stefnir í að við gefum eitt stykki af þessari frábæru KitchenAid hrærivél  á næstu dögum og ekki úr vegi að koma með góða uppskrif úr Stóru matreiðslubókinni þeirra sem fylgdi með afmælisútgáfunni.   Ef þú ert ekki enn búin að skrá þig í leikinn góða, þá hefur þú tækifæri til þess hér

HVÍTAR SÚKKULAÐIKÖKUR MEÐ TRÖNUBERJUM OG FURUHNETUM

Gerir 9 kökur.  Undirbúningstími: 15 mínútur.  Bökunartími: 30 minútur.

100 gr. hvítt súkkulaði

100 gr. smjör

125 gr. sykur

fræ úr einni vanillustöng ( sjá að neðar )

2 egg

60 gr. hveiti

25 gr. furuhnetur

75 gr. hvítir súkkulaðibitar

50 gr. þurrkuð trönuber

Trönuberjamauk

1 vanillusstöng

200 gr. sykur

250 ml. vatn

175 gr. trönuber

Búið fyrst til trönuberjamaukið.  Kljúfið vanillustöngina að endilöngu og skrapið fræin úr henni.  Leggið þau til hliðar.  Setjið klofnu vanillustöngina á pönnu með sykrinum og vatninu.  Látið suðuna koma hægt upp og hrærið í þangað til sykurinn hefur leyst upp.  Bætið trönuberjum út í og sjóðið í 5 til 10 mínútur þar til að berin hafa rifnað.  Síið trönuberin en haldið sírópinu.  Minnkið það þar til þykktin er nægileg til að hjúpa trönuberin.  Hrærið trönuberin út í og látið kólna.

Forhitið ofninn í 180°  Smyrjið 18 cm ferhyrnt bökunarform og setjið smjörpappír í botninn.  Bræðið súkkulaðið og smjörið í vatnsbaði.  Hrærið þar til að blandan er orðin kekklaus og mjúk.  Takið síðan af hitanum.

Búið til kökurnar.  Þeytið sykur, vanillufræ og egg í hrærivélaskálinni með þeytaranum á hraða 6 þar til að blandan er orðin ljós og þykk.  Hrærið bráðna súkkulaðið og smjörið smátt og smátt saman við.  Sigtið hveitið í hrærivélaskálina og blandið deigið á hraða 4.  Hrærið furuhnetunum, súkkulaðibitunum og þurrkuðu trönuberjunum út í.

Hellið deiginu í formið, sem er tilbúið, og bakið í 30 mínútur þar til rétt stíft í viðkomu.  Látið kólna í forminu þar til kakan er skorin í ferninga.  Berið kökurnar fram með trönuberjamaukinu.

 

SHARE