Var misnotuð fyrst 6 ára gömul – Reynslusaga frá lesanda

Fyrir um 15 árum var ég fyrst misnotuð. Aðeins 6 ára gömul og algjörlega grunlaus um það að aðili sem var tengdur fjölskyldunni væri að brjóta á mér, lítilli stelpu. Stelpu sem átti það ekki skilið, þar sem enginn á skilið að lenda í svona atviki, hvað þá tvisvar sinnum yfir ævina. Í dag er ég rétt skriðin yfir tvítugs aldurinn og þori fyrst að tala um það, þó ekki opinberlega undir nafni, að ég hafi verið misnotuð tvisvar sinnum, af sitthvorum aðilanum, úr sitthvorri fjölskyldunni.

Fyrsta atvikið komst upp bara óvart, ég kjaftaði bara óvart frá einhverju sem mér fannst svo sjálfsagt og vissi ekki að í rauninni var ég að segja frá stærsta leyndarmáli gerandans, sem varð á endanum kærður. Málið var þó dæmt honum í hag þar sem hann gat notað þá fáránlegu afsökun að hann hefði verið heima hjá sér að taka til á þessum tíma sem þetta átti að hafa skeð, mamma vissi bara um eitt tilfelli sem hún gat greint frá því hún hafði ekki fleiri sannanir, en það var ekki nóg. Kaldhæðnislegt ekki satt? Sárt að vita til þess að hann hafi komist upp með málið því hann vissi nákvæmlega upp á sig sökina, en gat logið einhverju svo einföldu að dómsvöldum og bara unnið málið sísvona.

Ég sem barn gleymdi þessu, sem gerist oft fyrir þolendur á þessum aldri. Ég fór ekki að muna fyrr en um 13 ára aldur, en þá fyrst fóru minningarnar að birtast en mér fannst þetta bara vera ímyndun, þar til ég spurði mömmu og komst að því hvað hefði gerst. Þá mundi ég þetta eins og það hefði gerst í gær. Það sem verra var að þá gerði ég mér grein fyrir því að ég hefði ekki bara einu sinni lent í þessu, heldur tvisvar. Ég hef alla tíð verið með lítið sjálfstraust, fundist ég ógeðsleg, verið lítil í mér og viðkvæm. Hrædd við stráka og fundist ég í raun einskis virði. Þetta er aðeins partur af tilfinningum sem koma upp hjá þolendum nauðgana eða misnotkana. Skömmin sem var yfir mér var svo mikil, mér fannst ég þurfa að bera leyndarmál sem enginn fengi nokkurntímann að vita.

Það var ekki nema tveimur árum síðar sem ég lendi aftur í því að annar aðili, nákominn mér og fjölskyldumeðlimur tók upp á því að brjóta á mér. Aðeins tveimur árum eftir að sá fyrsti hafði gert það. Hverjar eru líkurnar á því? Ég hef oft hugsað til þess að þessi örlög hefði ég aldrei getað forðast, sérstaklega ekki þar sem þetta var báðum megin í fjölskyldunni, en mamma mín og pabbi eru ekki saman og eiga bæði aðra maka. Ég hef svo oft fengið þá hugsun upp í huga minn að ég eigi bara ekki betra skilið, að ég bara hefði ekki getað komist undan þessu og þetta er eitthvað sem ég bara átti að lenda í. Sorglegt hversu mikið þessir gerendur geta eyðilagt þolendur sína. Hversu auðveldlega þeir geta brotið sjálfsmynd þeirra og látið þeim líða illa.

Ég get þó sagt að ég telji mig vera heppna í dag. Ég er svo þakklát fyrir það að ég skuli standa með sjálfri mér í dag, sem ég hef ekki gert áður, og vera ekki verr stödd en þetta. Ég hef komist hjá því að gefast algjörlega upp og vera illa leidd á annan veg, eins og að detta í djúpt þunglyndi og fara út í eiturlyfin. Ég vissulega hef átt það erfitt, og jú glími við þunglyndi, fer til sálfræðings reglulega og tek mín þunglyndislyf, en ég er að vinna í mínum málum og er komin langt á veg, þó svo ég eigi töluvert eftir. Þetta er barátta sem ég ætla mér að vinna.

Ég hef lengi verið reið og bitur, og er það vissulega enn í dag. Ég get ekki horft á þessa tvo aðila í andlitið og látið eins og ekkert sé, þeir mega mín vegna vita það að mér býður við þeim, ég hef notað öll mín ljótustu orð á þá þó svo það í raun láti mér ekki líða betur, það er ekki til orð yfir það hvað mér finnst um þá, en það er vissulega slæmt. Ég hlakka svo til, að geta horft á þá einn daginn og leitt það hjá mér að þeir séu þar, láta þá ekki hafa áhrif á mig. Ég fyrirgef þeim ekki, en ég mun læra það með tímanum að láta þá ekki á mig fá, og geta hunsað þá, því það er svo margt annað gott í mínu lífi sem ég get hugsað um og einbeitt mér að, eitthvað allt annað en þeir tveir.

Það að hafa þagað yfir þessu leyndamáli í öll þessi ár gerði ekkert gott fyrir mig. Ég vann ekki í sjálfri mér eins og ég þurfti að gera og leyndarmálið nagaði mig að innan. Leyndarmálið hafði svo mikil áhrif á mig andlega að það varð til þess að líkamlegar afleiðingar urðu, ég fór að glíma við líkamskvilla sem engin útskýring var á. Það var alveg sama hvaða lyf, krem eða sprautur ég fékk, þá gat læknir aldrei útskýrt fyrir mér hvað væri að mér, sem var virkilega sárt. Þar til ég fór til rétta læknisins. Hann vissi nákvæmlega hvað var að mér þrátt fyrir það að ég hafði ekki sagt eitt einasta orð. Ég get þakkað honum fyrir það að hafa hjálpað mér sem mest, en þá fyrst fór ég að segja frá því sem hafði gerst fyrir mig, og var það þegar ég var orðin 19 ára gömul. Fyrir mér er það langur tími, það tók mig 11 ár til þess að segja frá, en ég veit að það eru svo ótrúlega margir aðrir sem eiga sama leyndarmál og ég, og hafa haldið því mikið lengur inní sér heldur en ég. Það er alltaf þessi skömm sem hvílir yfir fólki sem hafa lent í kynferðislegu ofbeldi, skömm sem á ekki að vera til staðar því þetta er ekki þolendunum að kenna. Það er eitthvað sem ekki allir vita og gerir mig svo sorgmædda því að ég var í nákvæmlega sömu stöðu.

Frá því að ég sagði fyrst frá var öllum stuðningi lofað úr öllum áttum, en ég sá með tímanum að það var erfiðara að gera en að segja. Með tímanum fjaraði þessi stuðningur burt, þeir sem lofuðu mest, brutu loforðin. Mér hefur verið sagt að vera ekki að deila þessu með neinum, að vera ekki að segja hverjum sem er og einn fjölskyldumeðlimur gekk svo langt að segja mér að fara ekki á stað svipaðan og Stígamót til að fá hjálp, því sú manneskja þekkti fagaðila þar, og var hrædd um að fagaðilinn myndi kjafta og þá væri það svo mikil skömm fyrir manneskjuna. Það er greinilegt að ekki var hugsað um minn hag, heldur sinn eigin.

Ég hef fengið að kynnast því að um leið og maður segir frá eru alltaf einhverjir sem reyna að þagga niður í manni, reyna að fá mann til þess að gera ekki of mikið mál úr þessu og halda að maður jafni sig á korteri. Þetta er ekki svo auðvelt, en um leið og þetta er komið út, er ekki aftur snúið. Hvort sem þú hefur stuðning foreldra þinna eða ekki, systkina eða ekki, fjölskyldumeðlima eða ekki, skaltu alltaf standa fast á þínu. Það var brotið á mér og ég ætla ekki að leyfa NEINUM að telja mér trú um annað. Það sem skiptir máli númer 1,2 og 3 er að segja frá, því þú munt alltaf hafa einhvern stuðning í kringum þig, hvort sem það er vinur eða fjölskyldumeðlimur.

Mig langaði að koma þessu á framfæri vegna þess að ég veit að það eru alltof margir þarna úti sem ekki vilja segja frá. Sé brotið á þér áttu allan rétt á stuðningi og hjálp, þú átt ekki að þurfa að ganga í gegnum þetta ein/n. Stattu með sjálfum/sjálfri þér og ekki gefast upp, því þegar uppi er staðið getur þú verið sterkari aðilinn, þú mátt ekki láta þennan geranda eyðileggja líf þitt. Ég á gott líf í dag, á æðislega vini og virkilega gott fólk er í kringum mig. Ég á mína erfiðu daga, jafnvel tímabil en ég get sagt að ég sjái alls ekki eftir því að hafa sagt frá mínu leyndarmáli, þar sem leiðin lá algjörlega upp á við eftir á. Ég hef ekki alltaf fengið allan þann stuðning sem ég þarfnast, en það gerir mig sterkari fyrir vikið þar sem ég veit að ég stend með sjálfri mér og það skiptir svo miklu máli. Svo ég hvet þig, hver sem þú ert kæri þolandi, að segja frá.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here