Að þessu sinni kemur matseðill vikunnar héðan og þaðan.  Ég geri ráð fyrir að landinn sé búin að liggja yfir grillinu þessa sólríku helgi.  Fiskur og salöt er alltaf klassískt eftir helgar og helst eitthvað létt.  En það er gott að geta tekið saman matseðill og verslað inn fyrir vikuna og sparað manni þannig tíma.

 

 

Mánudagur

gulur1

Tortilla með nautakjöti, ananas- og jalapenossalsa

Fyrir 4
800 g nautakjöt
12 tortillur

Marinering
½ búnt kóríander
4 jalapenos í sneiðum
1/2 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
1 msk lime safi
1 msk ólífuolía
1 msk worcestershire sósa
2 tsk sjávarsalt
1 tsk pipar

 1. Látið öll hráefnin fyrir marineringuna í matvinnsluvél og blandið þeim vel saman. Leggið kjötið á disk og nuddið marineringunni vel inn í það. Látið plastfilmu yfir og marinerið í um klukkustund. Gerið ananas og jalapenossalsa á meðan.

Ananas- og jalapenossalsa
15 jalapenos í sneiðum
½ laukur
2 hvítlauksrif
240 ml kjúklingakraftur
200 g ananas, skorinn í litla bita
60 ml ólífuolía
2 tsk sjávarsalt

 1. Látið jalapenos, lauk, hvítlauk og kjúklingakraft saman í matvinnsluvél og blandið vel saman. Hellið blöndunni yfir á heita pönnu. Hrærið út í ananas, ólífuolíu og salti. Látið sjóða í 1 mínútu og hrærið reglulega i blöndunni.
 2. Hellið yfir í skál og leyfið henni að kólna áður en þið berið hana fram. Smakkið hana síðan til með salti.
 3. Grillið kjötið í ca. 4 mínútur á hvorri hlið. Látið það síðan standa í smá stund á skurðarbretti og skerið það síðan í munnbita.
 4. Berið nautakjötið á tortillu með ananas- og jalapenossósu, ásamt grænmeti að eigin vali.

Gulur Rauður Grænn & Salt

Þriðjudagur

loly

Spínat salat með mozzarella og tómótum

1 poki spínat
1 bakki tómatar
1 poki ferskur mozzarella ostur
Balsamik síróp
Ólífuolía
salt og pipar
1 pakki núðlusúpa(nota hana stundum)

Svo er bara að smella þessu saman. Spínat í skál, skera tómatana í báta og rífa mozzarella kúlurnar yfir. Síðan tek ég núðlurnar úr pakkanum og brýt þær niður og rista á pönnu smá tíma, dreifi þeim svo yfir salatið. Að lokum dreifi ég ólífuolíu yfir og balsamik sírópinu og krydda með smá salti og pipar.

Það er tvennt í þessu – annars vegar að láta tómatana standa á borðinu í allavega sólarhring því þá verða þeir svo rauðir og sætir á bragðið og svo er það að auðvitað getið þið notað furuhnetur eða einhverjar aðra hnetur í salatið í staðinn fyrir núðlurnar. En ég nota stundum hnetur þegar ég ætla að gera extra vel við okkur en þess á milli er algjör snilld að nota núðlurnar því þær eru svo ódýrar og það er svo gott að fá smá svona í salatið sem er smá bit í með.

Loly.is

Miðvikudagur

min_img_2310

Gratíneraður þorskur með blómkálsgrjónum

 • 1 lítið blómkálshöfuð, rifið niður á grófu rifjárni
 • 600 grömm þorskur (ég var með þorskhnakka)
 • 1 lítil dós Kotasæla
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 2 msk majones
 • 1 tsk karrý
 • 1 msk hunangsdijon sinnep (eða venjulegt dijon sinnep)
 • 1 rauð paprika, skorin smátt
 • 1/2 púrrulaukur, skorinn smátt
 • Ólífuolía, salt, nýmalaður pipar og Krydd lífsins (Frá Pottagöldrum eða annað gott krydd)
 • Rifinn góður ostur, ég notaði Óðals ost

Aðferð: Byrjið á að hita ofninn í 180 gráður með blæstri. Rífið blómkálið á rifjárni og dreifið því jafn í botninn á eldföstu móti. Kryddið með salt og pipar og dreypið yfir smá ólífuolíu og um 1 msk af vatni. Bakið í ofni í ca. 10 mínútur – eða á meðan þið útbúið restina af réttinum.

Skerið þorskinn í hæfilega bita, kryddið með salti, pipar og Kryddi lífsins.  Saxið blaðlaukinn og paprikuna smátt. Hrærið saman innihaldið í sósuna (kotasæluna, sýrða rjómann, majones, karrý, sinnep) og smakkið hana til með kryddinu, salti og pipar.  Takið blómkálið útúr ofninum og lækkið hitann á ofninum í ca.160 gráður. Leggið fiskstykkin ofan á. Dreifið sósunni þá yfir fiskinn og þar ofan á paprikunni og púrrulauknum.  Dreifið að lokum rifnum ostinum yfir og bakið í um það bil 20-25 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.  Berið fram t.d með léttu salati eða spírum. Ég mæli sérstaklega með blaðlauksspírum frá Ecospira, það er milt og gott laukbragð af þeim og þær pössuðu mjög vel með réttinum.

Eldhúsperlur.com

Fimmtudagur

min_img_5020

Ítölsk grænmetissúpa (fyrir 4)

 • 1 stór púrrulaukur, skorinn í tvennt eftir endilöngu og svo þunnar sneiðar
 • 3-4 hvítlauksrif, smátt söxuð eða í þunnar sneiðar
 • 1 kúrbítur, skorinn í þunnar ræmur
 • 2 stórar gulrætur, skornar í tvennt eftir endilöngu og svo í þunnar sneiðar
 • 2 tsk ítölsk kryddblanda, t.d timian, oregano og basil
 • 1,5 l grænmetissoð (grænmetiskraftur og vatn)
 • 2 bollar pastaslaufur
 • 1 dós baunir, t.d canellini eða kjúklingabaunir
 • Fersk basilika og steinselja, smátt söxuð (má sleppa)
 • Ólífuolía, salt og pipar

Aðferð: Hitið olíu í potti við meðalháan hita og steikið grænmetið þar til það mýkist aðeins. Kryddið með ítölsku kryddunum, salti og pipar. Bætið grænmetissoðinu út í.   Hleypið suðunni upp og setjið pastað saman við. Látið sjóða í 10-15 mínútur.  Skolið baunirnar í sigti og bætið þeim svo út í.  Sjóðið aðeins áfram og smakkið til með salti og pipar.  Þegar súpan er eins og þið vijlið hafa hana stráið yfir ferskum kryddjurtum og blandið saman við. Berið fram rjúkandi heita.

Eldhúsperlur.com

Föstudagur

IMG_9696

Epla- og ostafylltar kjúklingabringur

Fyrir 4-5
4 – 5 kjúklingabringur
salt og pipar
2 epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í litla teninga
½ tsk hvítlaukssalt
200 g rifinn ostur
3 msk brauðrasp
2 msk ólífuolía
480 ml kjúklingasoð
2 msk kalt vatn
1 msk sterkja, t.d. hveiti
fersk steinselja, söxuð

Skerið vasa í þykkasta hluta kjúklingabringunnar. Saltið og piprið bringurnar.

Setjið eplabita, rifinn ost, brauðmylsnur og hvítlaukssalt saman í skál og blandið vel saman. Skiptið fyllingunni niður á kjúklingabringurnar.

Látið olíu á pönnu og steikið kjúklingabringurnar við meðalhita á um 5 mínútur á hvorri hlið. Gott er að loka fyrir fyllinguna með tannstönglum meðan bringurnar eru steiktar. Bætið því næst kjúklingakraftinum út á pönnuna og leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingabringurnar eru fulleldaðar.

Takið kjúklinginn af pönnunni og setjið á disk. Bætið vatni og sterkju út á pönnuna, hitið að suðu og hrærið stöðugt þar til sósan hefur náð æskilegri þykkt. Hellið smá af sósunni yfir kjúklingabringurnar og skreytið með steinselju. Berið kjúklingabringurnar fram með sósunni og t.d. tagliatelle og góðu salati.

Gulur Rauður Grænn & Salt

Laugardagur

img_4245

Límónumarineruð laxaspjót

 • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
 • 1/2 dl ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
 • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
 • 1/4 tsk sykur
 • salt og pipar
 • kóríander, saxað smátt (fyrir þá sem eiga erfitt með kóríander er hægt að nota steinselju í staðinn)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.  Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Ég var smá áhyggjufull yfir því að laxinn myndi festast við grillið. En klári yfirgrillarinn minn, húsbóndinn á heimilinu, kláraði þetta með glans eins og alla grillun!  Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það. Ég hugsa líka það sé örugglega jafn gott að setja bara heil marineruð laxaflök á álbakka og grilla ef maður leggur ekki í spjótin.

Mangó- og avókadósalsa
salsa1
Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:
 • 1 stórt mangó, skorið í teninga
 • 1-2 avókadó, skornir í teninga
 • 1/2 rauðlaukur, fínsaxaður
 • 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
 • 1/2 límóna (lime)
 • 2 msk góð ólífuolía
 • 1 msk hvítvínsedik
 • salt og pipar
 • ferskt kóríander, saxað

Skerið grænmeti og ávexti eins og segir til í uppskriftinni hér að ofan. Bætið við chili og verið óhrædd við að nota það! Ég notaði hálft chili, hélt að salsað yrði sterkt en svo var alls ekki. Bætið við safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið salsanu varlega saman. Geymið í ísskáp. Þetta salsa er algjör snilld! Ég ætla að prófa það með fleiri réttum, held að það gæti til dæmis verið gott með kjúklingatortillas.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið með hvítvínsglasi!

Eldhússögur.com

Sunnudagur

slide1

 Grillaðar marineraðar lambakótilettur, hasselback kartöflur með brúnuðu smjöri, grískt salat og graslaukssósa

Marinering á lambakjöt:

 • 8 lambakótilettur (ég gleymdi að athuga vigtina en þetta voru 8 vænar sneiðar, með lundum, ég lét saga þær í tvennt fyrir mig, þetta dugði mjög vel fyrir 3 fullorðna og 1 barn)
 • 2 hvítlauksrif, smátt söxuð
 • 1 msk saxað rósmarín
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 tsk salt og 1 tsk pipar
 • 1 dl ólífuolía
 • 1 dl rauðvín

Öllu blandað saman og hellt yfir lambakjötið, ég setti þetta í rennilása plastpoka og lét standa við stofuhita í 1,5 klst. Má líka gera daginn áður og láta marinerast í ísskáp. Kjötið er svo grillað á útigrilli í um það bil 5-6 mínútur á hvorri hlið við frekar háan hita. Ég stráði svo saxaðri steinselju yfir kjötið þegar það var tilbúið. Það er nú ekkert möst samt.

Litlar hasselback kartöflur með brúnuðu smjöri:

 • Um það bil 10-12 frekar litlar kartöflur, skolaðar og þerraðar (Ég reiknaði með þremur kartöflum á mann)
 • 75 grömm smjör, brúnað
 • Salt, pipar og rósmarín.

Raufar skornar í kartöflurnar, smjörið brúnað og hellt yfir, Saltað og piprað og nokkrar rósmaríngreinar settar með. Bakað í ofni við 180 gráður í 60 mínútur.

Grískt salat:

 • 1 agúrka, kjarnhreinsuð og skorin í sneiðar
 • 2 öskjur kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
 • 1/2 lítil krukka ólívur
 • 1/2 krukka grillaðir ætiþistlar (Ítalía ætiþistlar, fást í Bónus og Hagkaup)
 • 1/2 krukka salat feti, vatnið sigtað frá
 • Salt, pipar, 1 msk hvítvínsedik, 2 msk ólífuolía og þurrkað oregano

Öllu blandað saman í skál, ólífuolíu og ediki skvett yfir og smakkað til með salt, pipar og óreganó.

Graslaukssósa:

 • 2 dl ab mjólk
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1/2 búnt graslaukur, smátt saxaður (þessi sem fæst í plastbökkunum)
 • 1/2 tsk hunang
 • 1 tsk hvítvínsedik
 • Salt og pipar

Öllu blandað saman og smakkað til með salti og pipar.

Eldhúsperlur.com

 

SHARE