Við þekkjum öll umræðuna um það „hvað á að vera í matinn í kvöld“ og hversu leiðinleg þessi umræða getur verið. Ein aðferð til þess að sporna við því að þurfa að ræða þetta aftur og aftur, er að gera matseðil fyrir alla vikuna sem hægt er að fylgja. Þá sleppur þú við að taka þessa ákvörðun á hverjum degi og kemst líka hagstæðar frá matarinnkaupunum.

Vikumatseðill 28. júlí – 4. ágúst 
Mánudagur

min_img_5953

Taco súpa

 • 500 gr nautahakk
 • 2 rauðlaukar
 • 2 paprikur
 • 3 hvítkauksrif
 • 2 tómatar
 • 1 lítil sæt kartafla
 • 3 msk tacokrydd
 • 1 kjúklingateningur
 • 1 krukka mild chunky salsa (350 gr)
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1 l vatn
 • 2 msk rjómaostur, ég nota philadelphia light
 • 2 msk rjómi

Aðferð: Skerið rauðlauk, papriku og hvítlauk smátt. Hitið stóran pott og brúnið nautahakkið í pottinum. Bætið grænmetinu út í og látið krauma þar til það mýkist aðeins. Kryddið með tacokryddinu og setjið gróft skorna tómatana út í. Setjið salsasósuna, tómatpúrru, kjúklingatening og vatn út í og hleypið suðunni upp. Skerið sætu kartöfluna í litla teninga og bætið út í. Látið sjóða við hægan hita í 20-30 mínútur. Bætið þá rjómanum og rjómaostinum saman við og smakkið til með salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Mér finnst svo gott að stappa aðeins sætu kartöflurnar í súpunni með gamaldags kartöflustappara, áður en ég ber hana fram þá þykknar súpan aðeins. Súpan er góð strax, en enn betri daginn eftir svo það er upplagt að gera auka fyrir nestið eða í matinn seinna. Berið súpuna fram með meðlætinu góða og kreistið dálítinn límónusafa yfir hverja skál. Njótið í botn!

Þriðjudagur

min_img_3154

Grilluð bleikja með rjómabökuðu blómkáli og pikkluðu epla- fennelsalati

Rjómabakað blómkál

 • 1 lítll blómkálshaus eða 1/2 stór (ég vigtaði ekki blómkálið)
 • 1 laukur
 • Nokkrir piccolo tómatar eða kirsuberjatómatar
 • 1,5 dl rjómi
 • Rifinn parmesan ostur
 • 1 msk Ólífuolía, salt og pipar

Aðferð: Allt skorið í hæfilega bita og sett í eldfast mót. Velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Rjómanum hellt yfir og vel af rifnum parmesan osti stráð yfir. Bakað við 200 gráður í 20 mínútur. (Á meðan restin af réttinum er útbúin)

Pikklað epla- og fennelsalat

 • 1 epli
 • 1 fennelhöfuð
 • 1 dl hvítvínsedik
 • 2 msk sykur (eða önnur sæta)
 • Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð: Eplið og fennelið er skorið í frekar litla teninga og sett í skál. Edikið hitað í potti ásamt sykrinum þar til hann leysist upp (ekki sjóða edikið). Edikblöndunni hellt yfir eplið og fennelið og blandað vel saman. Kryddað með smá salti og pipar. Ef fennelið hefur falleg blöð er upplagt að nota dálítið af þeim með. Gefa gott bragð og eru falleg. Geymið við stofuhita á meðan bleikjan er grilluð.

Bleikjan

 • Tvö væn glæný bleikjuflök skorin í tvennt (samtals 550 gr)
 • Ólífuolía, sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Aðferð: Hreinsið bleikjuna, beinhreinsið hana og skerið hvort flak í tvennt. Þerrið hana vel með eldhúspappír, penslið með ólífuolíu og kryddið með salti og pipar báðum megin. Hitið grill eða grillpönnu á hæsta mögulega styrk þar til fer að rjúka. Grillið bleikjuna í 1-2 mínútur á fiskihliðinni og snúið henni svo við og grillið í 2 mínútur á roðhliðinni áfram á hæsta styrk. Slökkvið undir og leyfið bleikjunni að jafna sig í 5-10 mínútur. Berið fram með rjómabakaða blómkálinu og setjið vel af epla- og fennel salatinu yfir bleikjuna.

 

Miðvikudagur

min_img_2275

Einfalt sumarsalat með brokkolí, jarðarberjum og piparosti

 • 1 höfuð Lambhagasalat, frekar smátt skorið
 • 1/2 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 msk hvítvínsedik
 • 1 avocadó, skorið í litla teninga
 • 1 lítið höfuð brokkolí, hlutað niður og skorið í litla munnbita
 • 1 bakki jarðarber skorin í fjóra hluta
 • 1 pakki rifinn piparostur
 • Ólífuolía, svartur pipar og smá sjávarsalt

Aðferð: Byrjið á að skera rauðlaukinn í þunnar sneiðar, setjið í skál og hellið yfir hann 1 msk af hvítvínsediki og hrærið af og til í lauknum meðan restin af salatinu er útbúið. Við þetta mýkist laukurinn, verður aðeins sætari og ramma laukbragðið hverfur. Blandið öllu hinu saman í stórri salatskál og setjið laukinn síðast saman við, ásamt edikinu. Hellið smá ólífuolíu yfir og sáldið örlitlu sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar yfir.

 

Fimmtudagur

min_img_3033

Fljótleg satay kjúklingaspjót

 • 2-3 vænar kjúklingabringur
 • 1 krukka satay sósa (Ég nota Blue Dragon satay sósu úr glerkrukku)
 • 1 msk sojasósa
 • 1 hvítlauksrif, smátt saxað eða rifið
 • Sítróna, skorin í tvennt
 • 1/2 kjúklingateningur
 • Krydd t.d Pasta Rossa eða Chilli explosion (Ég notaði bæði)

Aðferð: Byrjið á að skera kjúklingabringurnar í litla bita. Ég sker bringuna í tvennt á langveginn og sker hana svo í átta jafna bita. Setjið kjúklingabitana í skál. Hellið helmingnum af satay sósunni yfir kjúklinginn ásamt sojasósunni, hvítlauknum og safanum úr hálfri sítrónu. Blandið þessu vel saman og þræðið upp á teina og kryddið svo.  Grillið á vel heitu grilli í 10-15 mínútur og snúið nokkuð oft. Afganginn af satay sósunni hita ég rólega upp í potti ásamt 1 dl af vatni, 1/2 kjúklingatening og safanum úr hálfri sítrónu og ber fram með kjúklingaspjótunum.   Ég bar spjótin fram með kúskús og salati ásamt satay sósunni sem ég hitaði upp.

 

Föstudagur

min_img_5860

Grillborgarar með fetaostafyllingu

 • 500 gr hreint ungnautahakk
 • 2 tsk worchestersósa
 • 4 msk fetaostur í vatni eða fetakubbur
 • Sjávarsalt, nýmalaður pipar og ólífuolía

Aðferð: Blandið worchestersósunni saman við nautahakkið. Skiptið kjötinu jafnt í fjóra hluta. Takið hvern hluta og skiptið honum í tvennt. Fletjið hlutana út með fingrunum þannig að úr verði átta frekar þunnir borgarar. Myljið 1 msk af fetaosti í miðjuna á fjórum borgunum. Leggið þá hinn helminginn af kjötinu yfir og pressið saman með fingrunum og gætið að kantarnir festist vel saman svo osturinn leki ekki út.  Penslið borgarana með ólífuolíu og kryddið vel með salti og pipar.  Grillið á vel heitu grilli í u.þ.b fimm mínútur á hvorri hlið.  Berið fram með því grænmeti og sósum sem ykkur þykir best. Létt jógúrtsósa passar einkar vel við borgarann að mínu mati ásamt rauðlauk, lárperu, vel þroskuðum tómötum og lambhagasalati.

 

Laugardagur

min_img_3710

Grillaður lax með himneskri marineringu

Marinering:

 • 2 msk dijon sinnep
 • 1 msk hunang
 • 4 msk sojasósa
 • 6 msk ólífuolía
 • 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
 • Lax – ég var með tvö frekar lítil flök og dugði marineringin vel á þau
 • Saxaður vorlaukur til að strá yfir að lokinni eldun

Aðferð: Breinhreinsið laxaflökin og skerið þau í passlega bita. Hrærið öllu innihaldinu í marineringuna saman og hellið helmingnum af marineringunni yfir laxinn. Látið standa í 10 mínútur og grillið svo á vel heitu grilli, fyrst á fiskhliðinni, snúið honum við eftir 2-3 mínútur og klárið að elda á roðhliðinni. Takið laxinn af roðinu og berið fram með restinni af marineringunni, söxuðum vorlauk og t.d einföldu fersku salati.

 

Sunnudagur

img_0328

Kjúklingur í ólífu og bjórsósu með ofnbökuðum rósmarínkartöflum

Rósmarínkartöflur:

 • 3 bökunarkartöflur
 • Salt, pipar, rósmarín og ólífuolía

Aðferð:

Kartöflurnar skornar í frekar þunna báta. Settar á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Ólífuolíu hellt yfir og kryddaðar með salt, pipar og rósmarín. Bakað í 200 gráðu heitum ofni í 40 mínútur. (Ég byrjaði á að gera kartöflurnar og setti kjúklinginn svo inn í ofn með kartöflunum þegar þær höfðu verið í 10 mínútur í ofninum. Þá er allt tilbúið á sama tíma)

Kjúklingur í ólífu- og bjórsósu (fyrir 3 – 4):

 • 5 kjúklingalæri
 • 1 laukur, frekar smátt saxaður
 • 1 krukka hakkaðir tómatar (ég nota frá Sollu, finnst þeir langbestir)
 • 1 lítill bjór (tæpur, það má taka frá svona 2-3 sopa)
 • 1 lítil krukka grænar fylltar ólívur
 • 1 dl rjómi
 • 1/2 kjúklingateningur
 • 3 litlir vorlaukar, smátt saxaðir.

Aðferð:

Ofn hitaður í 200 gráður. Byrjið á því að snyrta kjúklingalærin vel og þerra þau með pappír. Ég sker alltaf vel af fitunni frá sem er ”aftaná” lærinu. Hitið pönnu og setjið örlítið af olíu eða smjöri á hana. Saltið og piprið kjúklinginn vel og brúnið á pönnunni á báðum hliðum. Takið kjúklinginn af pönnunni og geymið á diski. Ef mikil fita hefur farið af kjúklingnum á pönnuna er gott að hella aðeins af henni. Laukurinn er svo steiktur á sömu pönnu þar til hann mýkist aðeins. Því næst er tómötunum, bjórnum, kjúklingateningnum og ólívunum hellt út á. Leyft að malla aðeins og sjóða niður í ca. 5 mínútur á góðum hita og smakkað til með salt og pipar. Kjúklingalærin eru svo sett út í sósuna og rjómanum hellt yfir.

Ég setti pönnuna svo inn í 200 gráðu heitan ofn og leyfði þessu að malla þar í 30 mínútur. Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn má einfaldlega hella sósunni í eldfast mót og raða kjúklingalærunum svo þar ofan á og svo inn í ofn. Þegar rétturinn er tekinn úr ofninum er vorlauknum stráð yfir. Þetta er svo að sjálfsögðu borið fram með ísköldum bjór.

Eftirréttur

min_img_5699

Rabarbarapæ með engifer og svörtum pipar

 • Botninn:
 • 3 dl spelt, ég notaði fínt og gróft til helminga
 • 1/4 tsk salt
 • 3 msk sykur
 • 100 gr kalt smjör skorið í litla bita
 • 1/2 dl vatn (sett smám saman út í, gæti þurft aðeins meira eða aðeins minna)
 • Fylling:
 • 1 msk smjör
 • 7 dl saxaður rabarbari
 • 1 dl sykur (smakkið rabarbarann, stundum þarf meira og stundum minna)
 • 1/2 tsk engiferduft
 • 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar
 • 3 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl
 • 1 egg
 • 1 msk grófur demerara sykur/hrásykur

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður og gerið botninn. Myljið smjörið saman við mjölið, sykurinn og saltið með fingrunum þar til frekar vel blandað saman og smjörið komið í litla bita, á stærð við poppbaunir. Bætið vatninu smám saman út í eftir þörfum og vinnið saman með höndunum þar til deigið loðir saman og er ekki of blautt. (Athugið að nota alls ekki allt vatnið ef deigið er komið saman). Hnoðið deigið létt saman með höndunum. Setjið deigið á smjörpappír og leggið aðra smjörpappírsörk ofan á. Fletjið út með kökukefli þar til laglegur um það bil hringur hefur myndast og fyllir nánast út í bökunarplötu. Fjarlægið efri smjörpappírsörkina af útflöttu deiginu og leggið deigið á smjörpappírnum á bökunarplötu. Geymið á meðan fyllingin er útbúin.

Bræðið smjör á pönnu við meðalhita. Bætið rabarbara, sykri, engifer, pipar og maíssterkju út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur á meðalhita eða þar til sykurinn leysist upp og vökvinn sem kemur af rabarbaranum þykknar aðeins. Hellið rabarbara blöndunni á miðjuna á deiginu og dreifið aðeins úr en gætið þess að skilja eftir smá kant. Flettið köntunum á deiginu upp á fyllinguna og athugið að þetta á ekki að vera fullkomið. Penslið kantana með eggi og stráið hrásykrinum yfir kantana og rabarbarann. Bakið neðarlega í ofni í 20-25 mínútur. Leyfið að kólna í 10-15 mínútur áður en pæið er skorið. Berið fram volgt með góðum vanilluís.

eld logo

SHARE