Ég elska matabloggið hjá henni Berglindi sem heldur úti GulurRauðurGrænn&Salt.  Þar finn ég fjölbreytta flóru af alls kyns uppskriftum og ætla að helga þessari viku blogginu hennar.  Berglind fær einnig til liðs við sig ýmsa aðra blogg-gesti eins og Ragnar „Læknirinn í Eldhúsinu“ og Úlfar Eysteinsson.  Bókin hennar er í miklu uppáhaldi á þessu heimili.  Vonandi náið þið að nýta ykkur vikuseðillinn yfir hausverknum: „Hvað á að vera í matinn í kvöld?“ 

Mánudagur

2013-06-29-14-17-40

Baquette með kjúklingapestó

2 kjúklingabringur, rifnar niður
1/2 bolli basilpestó
1/4 bolli grísk jógúrt
salt og pipar
1 baquette, léttristað og skorið í 3-4 hluta
klettasalat
tómatar, sneiddir
2 kúlur mozzarellaostur, skorinn í sneiðar

Aðferð

 1. Blandið saman í skál kjúklingi, pestó og grískri jógúrt. Saltið og piprið eftir smekk.
 2. Raðið á brauðið klettasalati, tómötum, mozzarellaosti og kjúklingapestói.

 

Þriðjudagur

IMG_8125

Vandræðalega góð kjúklingasúpa með hnetusmjöri og rauðu karrý

1 paprika, skorin í teninga
1 laukur, skorinn í teninga
1 msk engifer, rifið
2 -3 msk rautt karrýmauk (ég notaði Blue dragon red curry paste)
2 dósir kókosmjólk (ég notaði Blue dragon coconut milk)
500 ml kjúklingakraftur (3 kjúklingateningar leystir upp í 500 ml heitu vatni)
2 msk fiskisósa (ég notaði Blue dragon fish sauce)
2 msk púðusykur
2 msk hnetusmjör
1-2 dl grænar baunir, frosnar (má sleppa)
3 kjúklingabringur, skornar í teninga og steiktar á pönnu
1 límóna

Til skrauts
Saxaðar salthnetur
Límónusneiðar
Kóríander
Hrísgrjón, elduð (má nota núðlur)

 1. Léttsteikið lauk, papriku og bætið engifer saman við.
 2. Bætið rauðu karrý, kókosmjólk, kjúklingakrafti, fiskisósu, púðusykri, hnetusmjöri og baununum saman við og hrærið vel í. Leyfið súpunni að malla við lágan hita í 45 mínútur eða eftir því sem tíminn leyfir.
 3. Kreistið safa úr einni límónu út í og bætið einnig kjúklingakjötinu saman við. Smakkið hana til og fyrir þá sem vilja hafa súpuna sterka má bæta 1-2 tsk af minced hot chilli út í.
 4. Setjið súpuna í skálar og toppið með soðnum hrísgrjónum/núðlum, söxuðum salthnetum, límónusneiðum og jafnvel kóríander.

 

Miðvikudagur

2013-08-19-18-13-08

Ítalskur fiskréttur með tómata og basilblöndu
7-800  g hvítur fiskur
safi úr 1/2 sítrónu
ólífuolía
salt og pipar
1 box kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
1 lúka fersk basil, gróft skorin
3 hvítlauksrif, söxuð
rifinn mozzarellaostur
 1. Látið fiskflökin í olíusmurt ofnfast mót. Kreistið sítrónusafa yfir fiskinn. Saltið og piprið. Leggið til hliðar.
 2. Blandið saman í skál tómötum, basil, hvítlauk. Bætið saman við 1 msk af ólífuolíu, saltið og piprið. Geymið í kæli í um klukkustund, ef tími er til, jafnvel lengur.
 3. Látið basilblönduna yfir fiskinn og setjið í 175°C ofn. Eldið í um 15-20 mínútum, takið þá út og stráið osti yfir. Eldið þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram strax.
Fimmtudagur

IMG_1464-2

Ómótstæðilegar núðlur í hnetusmjörsósu

120 ml kjúklingasoð
8 g engiferrót, rifin
45 ml soyasósa, t.d. frá Blue Dragon
50 g hnetusmjör
20 ml hunang
10 g chilípaste, t.d. frá Blue Dragon
3 hvítlauksrif, pressuð
250 g eggjanúðlur, t.d. frá Blue Dragon
1 búnt vorlaukur, saxaður
30 g salthnetur, saxaðar
 1. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum.
 2. Setjið kjúklingasoð, engifer, soyasósu, hnetusmjör, hunang, chilímauk og hvítlauk saman í pott. Hitið þar til hnetusmjörið hefur bráðnað og blandan er orðin heit. Bætið þá núðlunum saman við og blandið vel saman. Stráið vorlauk og salthnetum yfir allt.

 

Föstudaagur

dsc_0131

Pizza bianca með heimagerðri hvítlauksolíu, klettasalati og parmaskinku

Fyrir speltpizzabotninn

500 g gróft spelt
300 ml vatn
15 g ferskt pressuger
4 msk jómfrúarolía
4 tsk sjávarsalt

Aðferð

 1. Blandið saman öllum hráefnunum í hrærivél og hnoðið deigið 10-15 mínútur.
 2. Látið deigið hefast í tvær til þrjár klukkustundir.
 3. Fletjið það svo út mjög þunnt.
 4. Forbakið í eina til tvær mínútur í ofninum eða á grillinu.
 5. Raðið svo álegginu á botnana og bakið aftur í fjórar til fimm mínútur.

Hvítlauksolían

3 dl jómfrúarolía
10 hvítlauksrif
1 tsk gróft salt

 1. Merjið hvítlaukinn smátt með saltinu í mortéli og setjið í krukku. Ef þið notið hvítlaukskvörn bætið þið saltinu við eftir á.
 2. Hellið svo olíunni yfir hvítlaukinn.
 3. Lokið krukkunni og hristið vel saman. Geymist lengi.

Pizza Bianca
1 speltbotn – sjá ofan.
Handfylli mozzarellaostur
2 msk hvítlauksolía
5-6 sneiðar parmaskinka
2 handfyllir klettasalat
2 msk þurrsteiktar furuhnetur

Aðferð

 1. Penslið hvítlauksolíu á botninn og dreifið ostinum ofan á.
 2. Bakið í fjórar til fimm mínútur þangað til osturinn er bráðinn.
 3. Raðið síðan álegginu ofan, fyrst klettasalatinu og svo þunnt skorinni parmaskinku.
Laugardagur

2013-07-17-18-46-00

Smáborgarar með brie, sultuðum lauk og chillí mayo

Smáborgarar
1 kg nautahakk
3 tsk worchestershire sósa
1/2 bolli brauðmylsna
salt og pipar
brieostur
tómatar
lambahagasalat
hamborgarabrauð

Sultaður laukur
2 stórir laukar, skornir í sneiðar
2 msk ólífuolía
4 msk púðusykur

Chillí mayo
1 bolli mayones (t.d. Hellmans)
1/4 bolli chillí sósa (t.d. sabal oelek)
safi úr einu lime

Aðferð

 1. Borgararnir: Blandið saman í skál nautahakki, worchestershire sósu og brauðmylsnu. Saltið og piprið. Mótið borgarana og látið þá vera örlítið stærri en hamborgarabrauðin, þar sem þeir skreppa örlítið saman þegar þeir eru grillaðir. Takið til hliðar.
 2. Laukurinn: Látið olíu á pönnu og steikið laukinn við vægan hita í um 15 mínútur eða þar til hann er byrjaður að brúnast lítillega. Kryddið með salti og pipar. Bætið því næst púðusykrinum út í og steikið áfram við vægan hita í um 15-20 mínútur.
 3. Chillí mayo: Blandið öllum hráefnunum saman í skál. Athugið að þetta er sterk sósa og mjög góð með hamborgurunum. Ef þið viljið ekki hafa sósuna of sterka, notið þá minna af chillí sósunni.
 4. Grillið borgarana og látið brieostinn á þegar að þeir eiga um 2 mínútur eftir af grilltímanum.
 5. Setjið um 1 msk af sósu á hamborgarabrauð, því næst kál og tómatsneiðar, hamborgarana með brieostinum og endið á góðu magni af sultuðum lauk.
Sunnudagur

2013-01-14-18-47-45-4

Grillaðar lambalærissneiðar með tómatsmjöri

8 lambalærissneiðar
3 msk. olía
1-1 ½ tsk. chili-flögur (smakkið til)
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 tsk. kummin, steytt
1 tsk. paprikuduft

Aðferð

 1. Raðið lærissneiðum í ofnskúffu.
 2. Blandið saman olíu og kryddi og penslið sneiðarnar á báðum hliðum með blöndunni.
 3. Grillið á meðalheitu grilli í 3-4 mín. á hvorri hlið.
 4. Berið fram með tómatsmjörinu og t.d. grilluðu grænmeti, salati og kartöflum.

Tómatsmjör
250 g mjúkt smjör
1 dl sólþurrkaðir tómatar
1 tsk. tómatmauk
1 tsk. tímían
1-2 hvítlauksgeirar
1 tsk. nýmalaður pipar
2 msk. balsamedik

Aðferð
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel. Setjið smjörið á álpappír, mótið rúllu og frystið.

Eftirréttur

2013-02-21-13-02-28

Litríka hráfæðikakan með hindberjamús

Botn
1/2 bolli möndlur (pekan hnetur eða valhnetur)
1/2 bolli mjúkar döðlur
1/4 tsk sjávarsalt

Fylling
1 1/2 bolli kasjúhnetur, lagðar í bleyti í amk. 5 tíma eða yfir nótt
safi úr 2 sítrónum
fræ úr 1 vanillustöng
1/3 bolli kókosolía, í fljótandi formi
1/4 bolli hunang
1 bolli hindber (afþýdd ef frosin)

Aðferð

 1. Byrjið á að gera botninn og látið hnetur, döðlur og salt í matvinnsluvél á pusle þar til þetta hefur blandast hæfilega saman. Látið blönduna í 18-20 cm smelluform eða annað form að svipaðri stærð. Gott er að lata plastfilmu í botninn. Þrýstið létt á blönduna og passið að hún nái vel út í endann á forminu.
 2. Látið kókosolíuna og hunangið saman í pott, blandið vel saman og hitið við vægan hita.
 3. Látið í matvinnsluvél öll hráefnin sem eiga að fara í fyllinguna nema hindberin. Blandið saman í nokkrar mínútur eða þar til blandan er orðin létt og ljós.
 4. Hellið 2/3 af blöndunni yfir botninn.
 5. Bætið hindberjunum út í afganginn af blöndunni og maukið saman í matvinnsluvél þar til blandan er orðin bleik. Látið varlega yfir hvítu fyllinguna.
 6. Látið í frysti þar til kakan er orðin hörð. Takið úr frysti um 30 mínútur áður en þið gæðið ykkur á henni. Skreytið með ávöxtum.

 

gulur logo

 

SHARE