Við þekkjum öll umræðuna um það „hvað á að vera í matinn í kvöld“ og hversu leiðinleg þessi umræða getur verið. Ein aðferð til þess að sporna við því að þurfa að ræða þetta aftur og aftur, er að gera matseðil fyrir alla vikuna sem hægt er að fylgja. Þá sleppur þú við að taka þessa ákvörðun á hverjum degi og kemst líka hagstæðar frá matarinnkaupunum.

 

Mánudagur

img_0930

Kjötbollur í mildri chilli rjómasósu

Kjötbollur

 • 2 bakkar (1kg) ungnautahakk
 • 1 pakki púrrulaukssúpa
 • 1 pakki Tuc kex, mulið smátt
 • 1 egg
 • 1 tsk nýmalaður svartur pipar

Aðferð: Öllu blandað vel saman, ég set allt innihaldið í hrærivélaskál og læt vélina um erfiðið. Þegar allt er komið saman mótið bollur á stærð við golfkúlur úr hakkinu. Hitið örlitla olíu á pönnu og brúnið bollurnar við frekar háan hita. Færið þær svo yfir í stórt eldfast mót en hellið frá umfram fitunni sem kemur á pönnuna.

Sósan:

 • 3,5 dl rjómi
 • 1 flaska Heinz chilli sósa
 • 1 tsk karrý

Ofaná

 • 1 rauð paprika
 • 1 tsk hunang

Aðferð: Létt þeytið rjómann í skál. Blandið chilli sósunni og karrýinu saman við með sleif og hellið sósunni jafnt yfir bollurnar í eldfasta mótinu. Sneiðið paprikuna þá í frekar mjóa strimla og steikið á vel heitri pönnu. Þegar strimlarnir eru orðnir dálítið vel steiktir setjið þá hunangið á pönnuna þannig að paprikustrimlarnir verði vel hunangsgljáðir. Hellið yfir kjötbollurnar og sósuna og bakið í við 180 gráðu í 20 mínútur. Ég bar réttinn fram með taglietelle og góðu grænu salati.

 

Þriðjudagur

min_img_4839

Fiskur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum

 • 600 grömm nýr fiskur, ég notaði ýsu
 • Sólþurrkað tómatamauk, líka hægt að nota rautt pestó
 • 1 lítil krukka svartar ólífur
 • 1 kúla ferskur mozarella ostur
 • 1 askja kirsuberjatómatar
 • 1 dl rifinn parmesan ostur
 • Ólífuolía og gott krydd t.d Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður og smyrjið eldfast mót með ólífuolíu. Skerið fiskinn í passlega bita, kryddið og leggið í mótið.  Smyrjið um það bil einni teskeið af sólþurrkaða tómatmaukinu ofan á hvern fiskbita.  Skerið tómata og ólífur í tvennt og dreifið yfir. Leggið sneið af mozarella ofan á hvern fiskbita. Dreifið parmesan osti yfir allt saman og kryddið yfir með heitu pizzakryddi.  Bakið í 20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn og osturinn bakaður. Berið fram t.d með góðu brauði eða hrísgrjónum og salati. Hér var rétturinn borinn fram með linguine að ósk þess fimm ára á heimilinu.

 

Miðvikudagur

min_img_4007

Matarmikil gúllassúpa

 • 600 gr smátt skorið ungnautagúllas
 • 2 msk smjör
 • 2-3 laukar, skornir í tvennt og svo sneiðar
 • 1/2 chillialdin, fræhreinsaður og skorinn í sneiðar
 • Krydd: 1 tsk paprikuduft, 1 tsk timían, 1 tsk cummin
 • 1 krukka tómatpassata (Frá Sollu)
 • 2 msk tómatpaste
 • 1 msk hunang eða önnur sæta
 • 1 l vatn – (fer þó aðeins eftir smekk)
 • 2 teningar nautakraftur
 • 1 stór bökunarkartafla, skorin í teninga
 • 1/2 sæt kartafla, skorin í teninga
 • 1,5 dl rjómi
 • Salt og pipar og fersk steinselja til að strá yfir í lokin

Aðferð: Byrjið á að skera gúllasið í litla bita, mér þykir gúllas oftast í of stórum bitum fyrir svona súpur. Þerrið kjötið vel og kryddið með salti og pipar.  Hitið stóran pott við háann hita og bræðið smjörið. Steikið kjötið þannig að það brúnist vel. Færið kjötið svo upp á disk og lækkið hitann. Steikið laukinn í 10-15 mínútur, þannig að hann mýkist vel og taki á sig smá lit.  Bætið kjötinu aftur út í ásamt chilli og kryddum og steikið aðeins áfram.  Setjið tómatpaste-ið saman við ásamt, kraftinum, tómötunum, hunangi og vatni og hleypið suðunni upp. Flysjið kartöflurnar á meðan suðan er að koma upp og bætið þeim svo út í.  Leyfið súpunni að sjóða í 30 mínútur. Lækkið þá hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Mér þykir gott að hafa svona súpur dálítið þykkar svo ég stappaði aðeins kartöflurnar í súpunni með kartöflustappara, þannig að sumar voru í bitum og sumar vel stappaðar og þykkja þá súpuna.  Leyfið súpunni að malla við vægan hita með loki í 2-4 tíma. Því lengur því betra.

 

Fimmtudagur

img_1711

Salat með tígrisrækjum

 • 2 pokar tígrisrækjur (um 600 grömm)
 • 3 msk ólífuolía
 • 1 hvítlauksrif, smátt saxað
 • 1/2 tsk rauðar chilli flögur
 • 2 msk söxuð fersk steinselja
 • 1 sítróna, börkurinn og safinn úr hálfri.
 • Salt og pipar
 • Það sem ég notaði í salatið:
 • Gott grænt salat, t.d blaðsalat, spínat og lollo rosso
 • Avocado
 • Tómatar
 • Kókosflögur
 • Sólþurrkaðir tómatar
 • Ólífuolía, t.d sítrónuolía, salt og pipar og sítrónusafi
 • Sósan:
 • 1 msk majónes
 • 4 msk sýrður rjómi
 • 1 msk sambal oelek chillimauk

Aðferð: Tígrísrækjur látnar þiðna og settar í skál. Ólífuolíu, hvítlauk, chilli flögum, steinselju, rifnum sítrónuberkinu, sítrónusafa, salti og pipar hrært saman og svo hellt yfir rækjurnar. Um að gera að smakka marineringuna til áður en henni er hellt yfir rækjurnar. Þær eru svo þræddar upp á spjót. Það er mjög gott að nota tvö spjót hlið við hlið þegar rækjurnar eru þræddar upp. Þá verður bæði auðveldara að snúa þeim og rækjurnar haggast ekki á spjótunum, þ.e hreyfast ekki þegar þeim er snúið við.  Útbúið svo salatið í stóra skál og hrærið innihaldið í sósuna saman. Grillið rækjurnar á útigrilli við háan hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið og berið þær fram volgar ofan á salatinu ásamt chilli sósunni. Ískalt hvítvínsglas væri ekki úr vegi með þessu. Kalda kranavatnið dugði þó vel í þetta skiptið.

 

Föstudagur

min_img_3710

Grillaður lax með himneskri marineringu

Margir eru hræddir við að grilla lax beint á sjóðandi heitu grilli og eru að vesenast með einhverja grillbakka eða álpappírsvasa en það er algjör óþarfa hræðsla. Það er nauðsynlegt að hafa grillið rjúkandi heitt og leyfa laxinum að liggja óhreyfðum í 2-3 mínútur, snúa honum svo við með spaða og leyfa honum að klára að eldast á roðhliðinni í 2-3 mínútur í viðbót. Ég viðurkenni alveg að hann getur átt það til að festast aðeins við grillið en á meðan hann er á roðinu er engin hætta á að hann detti í sundur. Gott er að vera vopnaður góðum spaða og þá er ekkert mál að ná honum svo beint af roðinu sem verður eftir á grillinu og færa hann upp á fat. Það er líka algjört grundvallaratriði að ofelda ekki svona fiskmeti því þá er nú eiginlega ekkert varið í það lengur. Takið laxinn því af grillinu rétt áður en þið haldið að hann sé tilbúinn og leyfið honum að jafna sig á diski í 5-10 mínútur áður en hann er borinn fram.

Marinering:

 • 2 msk dijon sinnep
 • 1 msk hunang
 • 4 msk sojasósa
 • 6 msk ólífuolía
 • 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
 • Lax – ég var með tvö frekar lítil flök og dugði marineringin vel á þau
 • Saxaður vorlaukur til að strá yfir að lokinni eldun

min_img_3707

Aðferð: Breinhreinsið laxaflökin og skerið þau í passlega bita. Hrærið öllu innihaldinu í marineringuna saman og hellið helmingnum af marineringunni yfir laxinn. Látið standa í 10 mínútur og grillið svo á vel heitu grilli, fyrst á fiskhliðinni, snúið honum við eftir 2-3 mínútur og klárið að elda á roðhliðinni. Takið laxinn af roðinu og berið fram með restinni af marineringunni, söxuðum vorlauk og t.d einföldu fersku salati.

 

 

 

 

 

Laugardagur

img_1448

Grillaðar kryddlegnar kjúklingabringur og litríkt kúskús salat með pikkluðum vorlauk

Kryddlegnar kjúklingabringur:

 • 3 meðalstórar kjúklingabringur, klofnar í tvennt svo úr verði tvö þunn stykki úr hverri bringu.
 • 4 msk ólífuolía
 • 1 tsk cummin
 • 1 tsk kóríander
 • 1 tsk þurrkað óreganó
 • 1 tsk gróft sjávarsalt
 • 1/2 tsk svartur nýmaðalur pipar
 • Börkur af ca. hálfri sítrónu
 • 1 tsk hunang

Aðferð: Öllu blandað saman í skál og hellt yfir bringurnar og nuddað vel inn í þær. Látið marinerast við stofuhita í 30 mínútur. Ef kjúklingurinn á að marinerast lengur þarf hann að vera í ísskáp. Grillið kjúklingabringurnar í um það bil 7 mínútur á hvorri hlið. Varist að ofelda þar sem þetta eru frekar þunn stykki.

Á meðan kjúklingabringurnar eru að marinerast er upplagt að búa til kúskús salatið.

Kúskús salat með pikkluðum rauðlauk:

 • 3-4 dl hreint kúskús, kryddað með paprikudufti, cummin, kóríander og sjávarsalti. Ca. 1 tsk af hverju. Kúskúsið svo eldað skv. leiðbeiningum á pakkanum.
 • 1 lítill rauðlaukur skorinn í tvennt og svo í þunnar sneiðar.
 • 3 msk hvítvínsedik eða annað hvítt edik og örlítið salt
 • 8-10 þurrkaðar apríkósur
 • 1 lítill poki furuhnetur, ristaðar
 • 1/2 krukka hreinn fetaostur í vatni
 • 1/2-1 sítróna, safinn kreistur úr (fer eftir stærð, sítrónur eru mjög misjafnar)
 • 1 avocado skorið í teninga
 • 1 mangó skorið í teninga

Aðferð: Byrjið á að undirbúa pikklaða rauðlaukinn. Setjið þunnt skorinn laukinn í skál og hellið edikinu yfir ásamt smá salti. Leyfið þessu að liggja í ca. 30 mínútur og hrærið í lauknum af og til. Hann á að breyta aðeins um lit, verður eiginlega skærbleikur og aðeins mýkri.  Kúskúsið er svo undirbúið, kryddað og eldað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Þá er að rista furuhneturnar, skera apríkósurnar, avocadoið og mangóið í litla bita og hella vökvanum af fetaostinum. Smakkið kúskúsið til með sítrónusafanum og kannski smá meira salti. Svo er öllu blandað saman og mangóinu og avocadoinu dreift yfir að lokum.  Ég bar þetta fram með léttri jógúrtsósu sem passaði mjög vel við þetta. Hrærði saman sýrðan rjóma og ab mjólk til helminga. Kryddaði til með salti, pipar, cummin, orageno og örlitlu hunangi.

 

Sunnudagur

img_1306

Grillaður lambahryggur

Ég mæli þó með því að í fyrstu skiptin sem hryggur er grillaður sé notast við Heavy Duty álpappír undir hryggin til að varna því að fitan leki af kjötinu ofan í grillið og hringja þurfi í Samma brunavörð. Ég ætla að láta það óskrifað hvort slíkar aðstæður hafi komið upp á mínum bæ.

Þetta er því varla uppskrift heldur meira lýsing á aðferð. En svona berum við okkur að:

 • 1 vænn lambahryggur, snyrtur og skorið vel ofan í fituna eins og sést á myndinni.
 • Kryddaður vel með sjávarsalti (Maldon), nýmöluðum svörtum pipar og rósmarín
 • Hryggnum leyft að standa við stofuhita í 1 – 2 klst. Þannig verður kjötið mun mýkra og betra. Ég mæli ekki með að það sé sett beint úr ísskápnum á grillið.
 • Okkur finnst langbest að hafa kryddið einfalt á hryggnum. Salt, pipar og rósmarín verður því oftast fyrir valinu með ljúffengri útkomu. Stundum höfum við líka smurt dijon sinnepi yfir hrygginn og stráð svo yfir áðurnefndum kryddum. Hvorutveggja er mjög gott.

Grillið hitað. Ef um þriggja brennara grill ræðir, kveikið þá á báðum hliðarbrennurum og hafið slökkt á miðjubrennurum. Hafið kjötið allan tímann yfir óbeinum hita. Hitastigið á mælinum á grillinu á að sýna ca. 170 – 190 gráður. Við erum með Weber grill þar sem mælirinn er í lokinu. En þetta er mjög mismunandi eftir grillum svo það er ágætt að prófa sig aðeins áfram. Ekki fara mikið yfir þetta hitastig allavega. Setjið hrygginn á álpappírsbút þannig að fitan leki ekki ofan í grillið, leggið á grillið, þannig að fituhliðin snúi upp og hafið grillið lokað. Það þarf ekki að brúna fituhliðina áður. Hún bakast bara eins og ef hryggurinn væri í bakarofni. Nema hvað að þessi bakarofn er með grillbragði inniföldu, hversu slæmt getur það verið? Best er að stinga hitamæli í kjötið og leyfa því að malla á grillinu þar til réttu hitastigi er náð. Okkur finnst fínt að leyfa hitanum að fara upp í 65 gráður. Það fer þó bara eftir smekk. Þegar réttu hitastigi er náð er kjötið tekið af grillinu og leyft að jafna sig í um 20 mínútur áður en það er skorið.

Eftiréttur

min_img_5504

Sumarleg berjabaka

 • 4 bollar frosin bláber
 • 2 bollar jarðarber, skorin í fjóra hluta
 • 2 msk maíssterkja eða kartöflumjöl
 • 4 msk pálmasykur
 • 1 tsk vanilluextract
 • Í deigið ofan á:
 • 3 egg
 • 2 dl pálmasykur
 • 1 tsk vanilluextract
 • 120 gr smjör, brætt
 • 3 msk sýrður rjómi
 • 1 bolli fínmalað spelt eða hveiti
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 msk kanilsykur

Aðferð: Hitið ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Smyrjið eldfast mót eða pæform. Blandið bláberjunum, jarðarberjunum, maíssterkjunni, pálmasykrinum og vanillu saman í skál þannig að sterkjan og sykurinn þekji berin vel.  Helllið blöndunni því næst í formið.  Bræðið smjörið og leyfið því að kólna aðeins.  Þeytið egg og sykur þar til ljóst og létt. Bætið vanillu, smjöri, sýrðum rjóma, spelti, lyftidufti og salti saman við og blandið vel saman.  Hellið deiginu yfir berin og dreifið aðeins úr því.  Stráið einni matskeið af kanilsykri yfir að lokum og bakið í 40-45 mínútur. (Ef berin sem þið notið eru ekki frosin er nóg að baka í um 30-35 mínútur).  Berið bökuna fram heita eða volga, gjarnan með vanilluís eða rjóma.

 

Vikumatseðillinn var í boði eldlogo

 

SHARE