Virðingarleysi gagnvart börnum

Ég stóð á kassa í ónefndri búð um daginn og beið eftir að fá afgreiðslu. Röðin var löng og hálf óskýr, enda virðast Íslendingar ekki kunna að standa í röðum. Fyrir framan mig stóð lítill strákur með einn hlut sem hann ætlaði greinilega að kaupa í annari hendi og litla veskið sitt í hinni.

 

Kassadaman kallaði „næsti gjörðu svo vel” og horfði skýrt framan í konuna sem stóð fyrir aftan strákinn. Konan hugsaði sig ekki um tvisvar og fór fram fyrir litla greyið og lét afgreiða sig með helling af dóti. Ég hugsaði með mér að þetta hefðu líklega bara verið mistök hjá báðum aðilum og ákvað að bíta í tunguna á mér í þetta skipti.

 

Nú var strákurinn næstur og ég á eftir honum. Afgreiðsludaman kallar „næsti gjörðu svo vel” og horfir beint í augun á mér. Ég ákvað að gefa henni tækifæri á að leiðrétta þetta og sagði „ég?” Afgreiðslukonan svarar „já gjörðu svo vel.”

 

Þarna fylltist mælirinn hjá mér og það byrjaði að rjúka úr eyrunum á mér af krafti ! Ég spurði hana hvort hún sæi ekki litla strákinn fyrir framan mig og hvort hún áttaði sig á því að þetta væri í annað skiptið sem hún tæki fullorðna manneskju fram yfir hann. Það var fátt um svör. Ég sagði hins vegar stráknum að láta afgreiða sig og ekki láta bjóða sér upp á svona framkomu oftar.

 

Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem ég heyri um eða sé svona lagað. Ég meira að segja man eftir þessu sjálf frá því ég var krakki. Ég ætla að biðja þjónustu og afgreiðslufólk alls staðar að taka þetta til íhugunar. Krakkarnir litlu hafa yfirleitt ekki kjark til að láta vita að þau séu næst í röðinni og láta þar af leiðandi vaða yfir sig. EKKI vera manneskjan sem hundsar lítil börn.

 

Enn mikilvægara – ekki vera manneskjan sem fer fram fyrir barnið í röðinni. Þetta er eitthvað sem fyrirtæki ættu að huga að einnig enda eru þetta að sjálfsögðu kúnnar framtíðarinnar og ekki viljum við reita kúnna framtíðarinnar til reiði er það?

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here