Æj hann er bara aumingi!

„Þú finnur ekki til í tánni minni“

Í frægri sögu, Brideshead revisited er fræg setning: „Þú finnur ekki til í tánni minni“. Tvær sögupersónur eru að tala saman og finnst annarri lítið fara fyrir skilningi hins og segir þá þessa setningu. Er ekki nokkuð til í þessu? Getum við í sannleika fundið sársauka næsta manns- hvort sem hann er líkamlegur eða andlegur? Við getum verið öll af vilja gerð og jafnvel haldið að við getum gengið inn í veruleika annarra- en er það svo?

Það er nokkuð ljóst að við finnum einfaldlega ekki til í tá náungans.

Þegar unglingur eða þess vegna manneskja á hvaða aldri sem er kemur sér ekki að verki, kemur sér t.d. ekki af stað í skólann er ósköp eðlilegt að foreldrar eða aðrir hvetji viðkomandi til að drífa sig. Oft getur það verið nóg til að hjálpa viðkomandi af stað einkum ef augljóst er að hvatningin stjórnast af kærleika. En þetta er vandi. Deyfðin getur stafað af ósýnilegum sársauka í sálinni sem þó er skarpur og yfirþyrmandi þeim sem tekst á við hann. Margslunginn sársauki líkamans er oft dulinn, t.d. verkir sem margir lifa við og eru ekkert að tala um. Ef verkirnir stafa af illkynja sjúkdómi, t.d. krabbameini er fólk samúðarfullt, kemur færandi blóm og góðar óskir. En möguleiki fólks til að finna til hvert með öðru nær ekki mikið lengra. Oftar en ekki dæmir fólk endalaust hvort annað og gerir sér allskyns hugmyndir um “afhverju” þessi eða hinn getur ekki gert hitt eða þetta, mætt á ákveðnar samkomur eða hvað sem það nú er, málið er að við vitum aldrei hvað er í gangi hjá öðrum, við vitum ekki hvort að manneskjan sem við þekkjum jafnvel afar lítillega eigi við mikla erfiðleika heimavið, hún gæti átt afar veikan ástvin sem hún þarf að sinna, getur verið að eiga við erfið veikindi hvort sem þau eru andleg eða líkamleg, hún getur verið í ofbeldisfullu sambandi, átt veikt barn, hún getur þessvegna verið með krabbamein en ekki hafa sagt samstarfsfélögum,skólafélögum eða vinum og kunningjum frá því. Við skulum passa okkur að dæma ekki aðra því að við höfum ekki verið í þeirra sporum.

Ég myndi telja að einlægur vilji og hugur til ástunda kærleika og samúð sé sú hegðun sem við ættum að ástunda og rækta með okkur.  Ég held að það sé kjarni mennskunnar.  Tökum tillit til annarra og dæmum ekki það sem við þekkjum ekki og vitum lítið um.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here