Hvað er siðfræði?

Hérna eru smá pælingar um siðfræði, ég er meðal annars að læra þjónustusiðfræði og átti að skrifa um siðfræði.

Siðfræði fjallar um siðferði, eitthvað sem menn koma sér saman um að sé gott, eitthvað sem verðugt er að halda í heiðri.  Á sama hátt er hægt að setja neikvæð formerki á hugsunina, velta fyrir sér því sem er slæmt, öllum finnst vera illt og er því góð siðfræði að forðast það, eðli málsins samkvæmt. Þannig er siðfræðin mjög víðfeðm, er ekki staðbundin, ekki bundin við heimshluta eða lönd, hún er sammannleg. Það sem er góð siðfræði fyrir þig er lika góð siðfræði fyrir mig. Siðfræðin spyr spurninga og brýnir menn til að velta þeim fyrir sér og leita svara en hún gefur ekki forskrift. Þannig myndi hún t.d. líklega spyrja- í tengslum við fullyrðinguna hér á undan um „góða siðfræði“  hvað sé átt við þegar sagt er að eitthvað sé  „gott“.

Tala má um tvær megin greinar siðfræði, aðgerðasiðfræði og dyggðasiðfræði, sem samsvara í stórum dráttum áherslum á hvað manni beri að gera annars vegar (dyggð: góður siðferðilegur eiginleiki) og hvernig maður á að vera hins vegar.

Siðfræðin er flokkuð sem grein heimspekinnar. Í siðfræði er ekki reynt að lýsa raunverulegri hegðun, breytni eða siðum manna né heldur ríkjandi hugmyndum um rétt og rangt eða gott og illt. Þannig má staðhæfa að siðfræðin segi fólki hvað er rétt og hvað er rangt og er þá orðið stutt í boð og bönn! Þeir sem fást við fræðigreinina siðfræði eru kallaðir siðfræðingar.

Margir frægir einstaklingar eru í hópi siðfræðinga mannkynssögunnar og má þar fremsta telja þá Aristoteles, Plato og Thomas Aquinas og síðar koma svo heimspekingar eins og Immanuel Kant og G.E. Moore. Gaman væri að læra til hlítar um hugrenningar og kenningar þeirra en það verður að bíða betri tíma!

Menn hafa á einhvern hátt komið sér saman um vissar samskiptareglur sem eru ýmist skráðar eða óskráðar. Þessar reglur eru einu nafni nefndar siðareglur og eru þær í raun annars eðlis en siðfræðin. Þær eru staðbundnar, litaðar menningu landa og héraða og síðast en ekki síst trúarbragða. Þær eru yfirleitt einskonar samkomulag um hvað telst vera gott og hvað slæmt. Siðareglur  eru grunnreglur sem samfélög setja sér um mannleg samskipti. Það getur verið varasamt að dæma siðferði annarra út frá okkar eigin siðareglum. Því er afar mikilvægt að leggja sig eftir að skoða ástæður fyrir reglunum og skilja aðstæðurnar sem hafa skapað þær. Það er oft þrautin þyngri.   Einstaka reglur úr trúarbrögðum hafa ratað inn í hugsunarhátt siðfræðinnar svo sem ákvæðið úr Móselögmálinu um að maður skuli ekki mann deyða. Í mjög mörgum menningarsamfélögum hefur þessi regla- relgan um helgi og rétt til lífs ratað inn í lög landanna.

 

Allflestar starfsgreinar hafa sett sér siðareglur, sumar mjög vel útfærðar. Siðareglur starfsgreina taka auðvitað á sértækum málum stéttarinnar sem um ræðir og fjalla um þau. Þannig eru nákvæm fyrirmæli til kennara í siðareglum kennara um það hvernig hann skal bera sig að í starfi með nemendum sínum.

Skotveiðimenn hafa t.d. á sama hátt vel útfærðar reglur, siðareglur sem ætlast er til að félagar í samtökum þeirra tileinki sér og hafi að leiðarljósi.

Áður en siðareglurnar eru tíundaðar er gerð grein fyrir hvað felst í því að vera skotveiðimaður, hver ábyrgð hans er gangvart landinu og samborgurunum.  Þá eru reglurnar tíundaðar, svo sem sú siðaregla að veiðimaðurinn þarf að kunna sitt fag sem felur m.a. í sér að hann þarf að vera í góðri æfingu, gæta þess að geyma byssu og skotfæri á réttan hátt og hann er áminntur um að gá að félögum sinum.

Mér virðist þegar ég skoða siðareglur t.d. skotveiðimanna að ýmislegt – raunar flest þar- eigi furðu vel við um þá starfstétt sem ég vonast til að fá að tilheyra innan tíðar. Öll eigum við að vera meðvituð um ábyrgð okkar gagnvart landinu okkar og samborgurunum, óháð stétt og starfi, við þurfum  sannarlega að kunna fag okkar og halda okkur í æfingu og áfram má skoða reglurnar.  Þá á þetta ekki síður við þegar skoðaðar eru siðareglur lækna. Í báðum, öllum tilvikum er lögð áhersla á ábyrgð gagnvart landi og borgurum, ábyrgð í starfi, færni og því að viðhalda færni og vera á allan hátt ábyrgur bæði sem einstaklingur og fagmaður.

Allar eru  þessar reglur í fullu samræmi við góða siðfræði og eiga sér reyndar stoð í siðfræðinni. Ef svo væri ekki gæti fólk að öllum líkindum ekki tileinkað sér siðareglurnar og farið eftir þeim.

Þjónustufag eins og snyrtifræðin er, þarf til þess að vel fari að hafa hag viðskiptavinanna og vönduð vinnubrögð í hvívetna mjög í heiðri. Starfsmaðurinn leggur sig allan fram í þjónustu sinni og leitast við að hún fari fram úr væntingum. Það er talin góð þjónustusiðfræði. Starfsmaðurinn er vel undirbúinn, veit hvað hann er að gera og er það í samræmi við hugsunarhátt siðfræðinnar og þeirra siðareglna sem er minnst á í þessari ritgerð. Enn og aftur hefur ábyrgt fagfólk svipaðar hugmyndir að leiðarljósi í störfum sínum. Þegar starfað er samkvæmt þessum hugsunarhætti er viðskiptavinurinn ánægður með þjónustuna og aðrir frétta af. Það er erfitt og stundum ógerlegt að kveða niður sögur af slælegri þjónustu og því er mikið í húfi að allir vandi sig- alltaf!

Ég tel að það væri mikil gæfa fyrir þjóð mína ef hugsunarháttur siðfræðinnar ætti þar stærri  sess.  Við getum velt því fyrir okkur hvort við hefðum t.d. fengið fjármála- og þjóðarhrunið mikla yfir okkur ef þeir sem stjórnuðu, stjórnmálamenn og peningahöndlarar hefðu verið innvígðir hugsunarhætti siðfræðinnar. Ég tel afar ólíklegt að svo hefði verið því að siðfræðin er vegvísir um hvað er mannsæmandi hegðun og hvað ekki.

Ég hef oft velt þvi fyrir mér hvort ekki væri góð hugmynd að kenna börnum, ungum börnum og eldri siðfræði. Börn eru móttækileg fyrir hugmyndum og ég tel að heimspekileg hugsun væri gott veganesti út í lífið. Líklega má segja að námsefnið í áfanganum „Lífsleikni“ sé tilraun í þessa átt og skiptir þá miklu að um efnið fjalli kennarar vel þjálfaðir í hugsunarhætti siðfræðinnar.  Ef hugtök eins og „gott og vont“„ rétt og rangt“ væru krufin með börnum í grunnskóla okkar held ég t.d. að plága eins og einelti myndi hopa. Þegar hugsunarhætti hefur verið breytt verður til regla, siðaregla og þá væri t.d. alvara að baki reglu sem segði: „við stundum ekki einelti hér“.

Að lokum leyfi ég mér að fullyrða  að siðfræðin er ekki gælugrein háskólasamfélagsins heldur brýn nauðsyn öllu samfélagi okkar þannig að öllum megi líða og vegna sem best.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here