Það kemur fyrir öðru hvoru að maður hefur ekki sofið vel og maður veit alveg af hverju. Kannski hitaði maður sér kaffi seint um kvöldið eða kannski voru nágrannarnir með læti. Hugsanlega varstu með hausverk eða þú einfaldlega fylltist af hugmyndum rétt fyrir svefn sem þú bara þurftir að koma niður á blað – Hver kannast ekki við það? Það kemur þó fyrir að maður áttar sig ekkert á af hverju maður er andvaka. Huffington Post birti skemmtilega grein þar sem nokkrar þekktar ástæður þess að fólk nær ekki góðum nætursvefni eru taldar upp. Sumt ræður maður ekki við en annað getur verið eitthvað sem auðvelt er að laga.

Hér eru nokkrar hugsanlegar ástæður þess að þú getur ekki sofið:

Þú svafst frameftir á laugardag og sunnudag 

Við höfum öll freistast til að kúra svolítið frameftir á laugardags- eða sunnudagsmorgnum – jafnvel báða morgnana!  Sérfræðingarnir telja að það sé ekki klókt að sofa frameftir um helgar og þá væntanlega líka að fara seint í háttinn.  Ef við förum að hringla með það  hvenær við vöknum getum við riðlað illilega lífræðilegum takti okkar og okkur líður eins og við höfum farið yfir mörg tímabelti. Þegar svo kemur að því á sunnudagskvöld að þú ætlar að fara að sofa segir þetta ástand heldur betur til sín.

 

Það er fullt tungl 
Það er eins og tunglstaðan geti haft áhrif á svefn fólks- eða svo segja niðurstöður lítillar rannsóknar sem var gerð um áhrif tunglins á mannfólkið. Rannsakendur komust að því, að þegar tungl er fullt fær fólk minni djúpsvefn, minni heildarsvefn og er lengur að ná svefninum.

 

Herbergið þitt er of kalt- eða of heitt
Þú heldur sjálfsagt að þú vitir hvernig best er að hafa svefnherbergið en það er til rannsókn um hvaða hitastig er best að hafa í svefnherberginu. Yfirleitt er talið best að hitinn sé um 20˚ C.  Sérfræðingar telja að þegar hitinn er minni eða meiri svo að einhverju nemi trufli það svefninn.

 

Þú ert ekki í sokkum
Þó að hitinn í herberginu sé alveg réttur hrjáir fótakuldi suma og það er óþægilegt. Þetta getur skapað alvöru vanda því að hlýir fætur og hendur eru hluti að hitajöfnun líkamans sem þarf að vera í lagi svo að fólk nái að sofna. Það getur verið góð hugmynd að fara í hreina og mjúka sokka áður en þú ferð í rúmið.

 

Það er of mikil þögn
Auðvitað vill maður að svefnstaðurinn sé hljóður en of mikil þögn getur valdið vanda. Ef allt of mikil þögn er í svefnherberginu getur hið minnsta hljóð sem berst þangað orðið að óþægilegum hávaða.  Það gæti verið góð hugmynd að spila lágværa tónlist!

 

Þú ert hrædd(ur) við myrkrið
Ef til vill játar þú það ekki fyrir öðrum en þetta er algeng ástæða þess að fólk getur ekki sofnað. Myrkfælnin gæti valdið því að þú nærð ekki að sofna. Rannsókn sem var gerð 2012 á svefni fólks leiddi í ljós að þeir sem voru varir um sig og hrukku auðveldlega við þegar búið var að slökkva ljósin sögðust sjálfir ekki sofa vel en hinum  sem sögðust sofa vel var alveg sama þó að dimmt væri hjá þeim. Rannsakendur drógu þá ályktun að lélegur svefn væri oft vegna þess að fólk glímir við hræðslu við dimmuna.

 

Þú fékkst þér steik í kvöldmat
Allir vita að þegar maður fær sér kaffi rétt fyrir háttinn getur það haldið fyrir manni vöku. En fleira getur gert manni skráveifu fyrir svefninn, svo sem feitur matur, mikið kryddaður matur og prótínrík máltíð.  Það er t.d. mikið mál fyrir líkamann að melta stóra steik og það er ekki ætlast til að líkaminn standi í þeirri vinnu meðan hann sefur.

 

Þú ert uppgefin(n)
Dagurinn hefur verið langur og ef til vill vikan líka og þú ert alveg komin(n) að mörkunum. Þú þráir að komast í rúmið. En þrátt fyrir þessa miklu þreytu  getur þú ekki sofnað. Hvað er að? Það er mikill munur á því að vera örþreyttur og að vera syfjaður.  Þú ert enn eins og í viðbragðsstöðu þó að þér finnist þú ekki geta meira, hvort sem það er vegna streitu eða heilbrigðrar þreytu.  Í stuttu máli er sitthvað að þjóta í rúmið og að sofna strax. Það er alveg sama hvað maður er þreyttur, það er alltaf gott að slappa af góða stund áður en maður fer í rúmið.

 

Þið sofið í sama rúmi
já, já, þetta skilja allir – ykkur finnst svo gott að kúra saman. En ef þið leyfið gæludýrinu ykkar að sofa í rúminu hjá ykkur veldur það einfaldlega vandræðum. Þegar kisa snýr sér eða hreyfir sig finnur þú fyrir því og hreyfir þig líka að ekki sé nú minnst á allt hárið sem hún skilur eftir í rúminu og er líklegt til að valda ofnæmi. Það er betra fyrir þig að láta þetta hár ekki vera inni í svefnherberginu þínu!

Það eru fleiri en loðnu vinirnir þínir sem geta verið til vandræða. Ef maki þinn lætur illa í svefni, sparkar og hrýtur getur orðið erfitt fyrir þig að sofna. Athuganir sem BBC gerðu leiddu í ljós að hjón sem sofa í sama rúmi sofa miklu verr en þau sem sofa ein.  Fleiri og fleiri hjón eru nú farin að sofa í sitt hvoru rúminu.

 

SHARE